Categories
Fréttir Greinar

Íslensku táknmáli gert hærra undir höfði

Deila grein

15/02/2024

Íslensku táknmáli gert hærra undir höfði

Það var hátíðleg stund hinn 11. fe­brú­ar síðastliðinn, þegar dag­ur ís­lenska tákn­máls­ins var hald­inn með metnaðarfullri dag­skrá. Íslenskt tákn­mál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tján­ing­ar og sam­skipta og barna þeirra. Þannig er ís­lenskt tákn­mál eina hefðbundna minni­hluta­málið á Íslandi og eina málið sem á sér laga­lega stöðu utan ís­lenskr­ar tungu, líkt og kem­ur fram í lög­um um stöðu ís­lenskr­ar tungu og ís­lensks tákn­máls. Á Íslandi er orðið döff notað um heyrn­ar­laust fólk sem tal­ar tákn­mál, en það að vera döff er að líta á tákn­mál sem sitt fyrsta mál og til­heyra sam­fé­lagi heyrn­ar­lausra.

Frá­bært starf er unnið í þágu ís­lensks tákn­máls á hverj­um degi, eins og glögg­lega kom fram á degi ís­lensks tákn­máls. Ein­stak­ling­arn­ir í döff sam­fé­lag­inu eru framúrsk­ar­andi og fékk ég þann heiður að af­henda Önnu Jónu Lár­us­dótt­ur sér­staka heiður­sviður­kenn­ingu Sam­skiptamiðstöðvar heyrn­ar­lausra og heyrn­ar­skertra (SHH) fyr­ir fram­lag til varðveislu ís­lensks tákn­máls, en Anna hef­ur verið öfl­ug í fé­lags­starfi og hags­muna­bar­áttu döff fólks en hún gegndi for­mennsku í Fé­lagi heyrn­ar­lausra um ára­bil og sat í stjórn fé­lags­ins og fé­lagi Döff 55+ í fjölda ára. Þá hlaut Val­gerður Stef­áns­dótt­ir viður­kenn­ingu dags ís­lensks tákn­máls fyr­ir hönd Mál­nefnd­ar um ís­lenskt tákn­mál. Viður­kenn­ing­una hlaut hún fyr­ir ómet­an­legt fram­lag sitt til ís­lensks tákn­máls og mál­sam­fé­lags þess en þetta var í fyrsta skipti sem viður­kenn­ing­in er af­hent. Val­gerður varði í des­em­ber síðastliðnum doktors­rit­gerð í mann­fræði við Há­skóla Íslands sem er frum­kvöðlarann­sókn og fyrsta heild­stæða yf­ir­litið hér­lend­is yfir ís­lenskt tákn­mál og þróun döff menn­ing­ar. Mun rit­gerðin þjóna sem mik­il­væg heim­ild fyr­ir kom­andi kyn­slóðir um upp­runa og þróun ís­lensks tákn­máls og fólkið sem bjó það til, döff Íslend­inga.

Það er skylda ís­lenskra stjórn­valda að hlúa að ís­lensku tákn­máli og styðja við það. Nú hef­ur Alþingi til meðferðar þings­álykt­un og aðgerðaáætl­un í mál­stefnu ís­lensks tákn­máls sem ég mælti fyr­ir á Alþingi á yf­ir­stand­andi þingi. Mál­stefn­an, sem er sú fyrsta fyr­ir ís­lenskt tákn­mál, tek­ur til sex meg­in­stoða sem skipta máli fyr­ir mál­stefnu minni­hluta­máls­ins og áhersluþætti inn­an hverr­ar meg­in­stoðar, en þær eru: mál­taka tákn­máls­barna, rann­sókn­ir og varðveisla, já­kvætt viðhorf, fjölg­un um­dæma ís­lensks tákn­máls, lagaum­hverfi og mál­tækni. Aðgerðaáætl­un­in inni­held­ur aðgerðir sem miðast við að koma þurfi til fram­kvæmda á næstu þrem­ur árum og hafa stjórn­völd nú þegar tryggt fjár­muni til að fylgja þeirri áherslu eft­ir. Við get­um gert ís­lensku tákn­máli hærra und­ir höfði og það ætl­um við að gera með ýms­um hætti. Í þings­álykt­un­inni er meðal ann­ars lagt til að dag­ur ís­lensks tákn­máls verði fánadag­ur, líkt og tíðast fyr­ir dag ís­lenskr­ar tungu. Það er viðeig­andi fyr­ir dag ís­lensks tákn­máls. Ég vil þakka döff sam­fé­lag­inu fyr­ir virki­lega ánægju­legt sam­starf og ég lít björt­um aug­um til framtíðar þegar kem­ur að ís­lensku tákn­máli.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.