Í samfélagi nútímans hefur mikilvægi þess að skapa styðjandi vinnuumhverfi fyrir fjölskyldur aldrei verið meira. Sem mennta- og barnamálaráðherra er ég stoltur stuðningsmaður þeirrar mikilvægu vinnu sem áunnist hefur með nýundirrituðum kjarasamningum breiðfylkingarinnar og samtaka atvinnulífsins, með öflugri aðkomu ríkis og sveitarfélaga. Þeir samningar sem hér um ræðir eru ekki aðeins lögfræðileg skjöl; þeir eru vitnisburður um skuldbindingu ofangreindra aðila við að byggja samfélag sem metur velferð hverrar fjölskyldu og hvers barns.
Framganga sveitarstjórnarfólks Framsóknar á þessari vegferð hefur fyllt mig stolti. Enn fremur er full ástæða til að hrósa aðilum vinnumarkaðar og þá sérstaklega breiðfylkingunni og verkalýðshreyfingunni í heild fyrir að taka skýra afstöðu með börnum og fjölskyldum þeirra, en ekki síður að hafa tekið af fullum þunga þátt í því að skapa grundvöll fyrir velsæld og stöðugleika í landinu.
Ég er fullviss um að afdráttarlaus aðkoma ríkis og sveitarfélaga að samningunum hafa í för með sér framfaraskref fyrir þjóðina og er það á ábyrgð okkar allra nú að leggjast á eitt til að ná þeim markmiðum saman. Umfram allt er það mikið fagnaðarefni að í aðgerðapakka stjórnvalda sé skýr áhersla á að fjárfesta í börnum og barnafjölskyldum. Það hefur aldrei verið brýnna að forgangsraða í þágu jafnra tækifæra og lífsgæða þess hóps, samhliða því sem við sjáum aukin merki þess að efnislegur skortur og ójöfnuður meðal barna sé að aukast.
Aðgerðapakki stjórnvalda mun stuðla að auknum lífsgæðum og jöfnuði meðal barna- og fjölskyldna. Ein af stærri áherslum aðgerðapakkans er breytingar á barnabótakerfinu. Barnabætur verða hækkaðar, samhliða því sem dregið verður úr tekjuskerðingu þeirra. Um 10.000 fleiri foreldrar og forsjáraðilar munu fá greiddar barnabætur.
Öllum börnum á grunnskólaaldri verða tryggðar gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Reynsla nágrannaríkja á borð við Finnland hefur sýnt að hér er um að ræða risastórt skref í átt að auknum jöfnuði fyrir öll börn. Skólakerfið er langöflugasta jöfnunartækið okkar og með því að fjárfesta í gjaldfrjálsum skólamáltíðum eflum við það enn frekar. Það er gaman að geta þess að þessi aðgerð er einnig í samræmi við eitt af áhersluatriðum Barnaþings. Barnaþingsmenn síðustu ára hafa lagt ríka áherslu á að komið verði á gjaldfrjálsum skólamáltíðum, með jöfnuð að leiðarljósi.
Þá verða fæðingarorlofsgreiðslur hækkaðar í þremur áföngum yfir samningstímann, til að treysta markmiðið um samvistir barna við báða foreldra. Þá er samstaða allra samningsaðila um að vinna saman að mótun aðgerða til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum. Það er okkur sem samfélagi lífsnauðsynlegt og þar ber sérstaklega að hrósa sveitarfélögunum fyrir vilja þeirra til að ráðast í það verkefni.
Kjarasamningar eru að mörgu leyti hornsteinn þess að hægt sé að skapa samfélag á Íslandi sem gefur svigrúm fyrir jafnvægi í lífi vinnandi foreldra og forsjáraðila. Þeir eru rammi utan um þá þætti sem stuðla að auknum lífsgæðum, sveigjanleika vinnutíma og samvistum foreldra og barna. Slíkar ráðstafanir gera foreldrum kleift að taka virkari þátt í lífi barna sinna, allt frá því að mæta á skólaatburði og að geta verið viðstödd þau augnablik sem mestu máli skipta.
Kjarasamningar eru að mörgu leyti uppskrift að því hvernig samfélag varðveitir gildi sín um það sem skiptir mestu máli fyrir lífsgæði og velsæld. Það þarf ekki að fara mörgum orðum hversu stóru hlutverki slíkur samfélagssáttmáli gegnir í lífi barna og fjölskyldna. Þegar við horfum fram á veginn skulum við halda áfram að vinna saman – ríkið, sveitarfélögin, atvinnulífið og verkalýðsfélög – til að móta samfélag sem endurspeglar sameiginleg gildi og vonir okkar. Með þann hugsunarhátt að leiðarljósi erum við ekki aðeins að auka lífsgæði núverandi kynslóða, heldur einnig að ryðja veginn fyrir framtíð þar sem hvert barn á Íslandi getur dafnað.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. mars 2024.