Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Elsa Lára Arnardóttir

Deila grein

15/07/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Elsa Lára Arnardóttir

Á Akranesi leiddi Elsa Lára Arnardóttir, aðstoðarskólastjóri, lista Framsóknar og frjálsra í bæjarstjórnarkosningunum 2018. Elsa Lára er fædd árið 1975 og uppalin í Lambhaga í Hvalfjarðarsveit og einnig á Hornafirði. Hún er með B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands og starfaði í nokkur ár sem kennari áður en hún fór út í stjórnmál 2013. Einnig hefur Elsa Lára lokið meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Elsa Lára hlaut sæti á Alþingi árið 2013 og sat þar fram að alþingiskosningunum 2017, en gaf þá ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Elsa Lára er gift Rúnari G. Þorsteinssyni, rafiðnfræðingi og saman eiga þau Þorstein Atla og Þórdísi Evu. Og ekki má gleyma heimiliskettinum, Ólafi Högnasyni.

Einstaklega heppin að fá að leiða hóp af duglegu og jákvæðu fólki

„Ég ákvað að stíga út úr landsmálunum og gefa kost á mér í bæjarstjórn Akraness. Mig langaði til að nota þekkingu mína og krafta til að nýta þau sóknarfæri sem Skaginn á. Ég vil gera gott samfélag enn betra og legg mikla áherslu á að gera Skagann okkar að fjölskylduvænna samfélagi, fyrir unga sem aldna. Áhugamál mín eru útivist eins og að skokka um Skagann og ganga á Akrafjall. Samverustundir með fjölskyldu og vinum gefa mér einnig mikið,“ segir Elsa Lára.
Elsa Lára var varabæjarfulltrúi fyrir Framsókn á Akranesi 2010-2018 og m.a. setið í stjórn Akranesstofu, afmælisnefnd Akraneskaupstaðar og verið varamaður í fjölskylduráði.
„Ég var einstaklega heppin að fá að leiða lista Framsóknar og frjálsra enda skipaður duglegu og jákvæðu fólki sem hefur brennandi áhuga á að gera gott Akranes að enn betra Akranesi.“

Áherslumál Framsóknar og frjálsra

Við í Framsókn og frjálsum leggjum áherslu á Akranes sem fjölskylduvænt samfélag. • Við munum tryggja fjölskyldum dagvistunarúrræði á loknu fæðingarorlofi. • Við munum efla góðu skólana okkar með auknum stuðningi og betri vinnuaðstæðum fyrir nemendur og starfsfólk. • Við viljum sveigjanleika milli skóla – og íþrótta og æskulýðsstarfs. • Leggjum áherslu á velferð Skagamanna á öllum aldri og auk þessa umhverfismál, atvinnumál, skipulagsmál, samgöngur, umferðaröryggi og mennta – og safnamál. • Auk þessa leggjum við áherslu á aukið íbúalýðræði.

Fréttir og greinar

Reykjavíkurmaraþon – Elsa Lára Arnardóttir #3994


„Þetta árið er ég nokkuð róleg og skokka 10 km. Málefnið er hins vegar mjög gott en að þessu sinni skokka ég fyrir Ólavíu 5 ára vinkonu mína. Ólavía greindist með heilaæxli þann 3. júní 2019 sem var svo fjarlægt með skurðaðgerð tveimur dögum síðar. Því miður kom í ljós að æxlið var illkynja stjarnfrumuæxli af gráðu 4. Af þeim sökum þarf Ólavía því að gangast undir erfiða lyfja- og geislameðferð sem mun taka rúmt ár. Hún byrjar á því að fara í 6 vikna lyfja- og geislameðferð þar sem hún þarf að fara í geisla alla virka daga á þessu tímabili og eftir að því lýkur tekur við ein lyfjagjöf á mánuði í rúmt ár. Mér þætti vænt um ef þið væruð til í að styrkja Ólavíu í þessu verkefni. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Elsa Lára.