Í síðustu viku samþykkti Alþingi frumvarp sem hefur áhrif á þann fjölda íbúða sem eru í skammtímaleigu til lengri tíma. Lagabreyting þessi var gerð með það að markmiði að auka framboð íbúðarhúsnæðis og með því stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði.
Í dag getur hver sem er sett íbúð í sinni eigu í útleigu í allt að 90 daga. Ef eigandi hyggst leigja út íbúð sína til lengri tíma í skammtímaleigu hefur hann þurft að sækja um rekstrarleyfi gististaða. Við sjáum mörg dæmi þess að einstaklingar og fyrirtæki kaupi íbúðir til að setja þær í heilsársleigu á airbnb eða hjá sambærilegum milligönguaðila. Í sumum tilvikum má sjá að það eru margar íbúðir í sömu blokk í skammtímaleigu fyrir eitt fyrirtæki allt árið og því má segja að það sé leynihótel í miðju íbúðahverfi án þess að á því séu þær öryggiskröfur og gjöld sem við setjum á hótel. Frumvarpið bannar rekstrarleyfi gististaða í íbúðarhúsnæði í þéttbýli og því er heilsársleigan ekki lengur möguleiki.
Misjöfn staða dreifbýlis og þéttbýlis
Fólki hefur orðið tíðrætt um framboðsskort á íbúðarhúsnæði á þéttbýlum svæðum landsins. Tölfræðin sýnir okkur að talsverður fjöldi íbúða á þéttbýlum svæðum er nýttur í skammtímaleigu til ferðamanna. Þessi mikla nýting íbúðarhúsnæðis er ein ástæða framboðsskorts á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnvöld hafa ákveðið að bregðast við þessu á þann veg að takmarka heimildir til slíkrar útleigu. En skammtímaleigan hefur mismunandi áhrif á svæði landsins. Því taldi atvinnuveganefnd Alþingis mikilvægt að takmörkun þessi ætti ekki við gistingu í dreifbýli, eins og smáhýsi á sveitabæjum og frístundahús í útleigu. Takmörkunin var því einskorðuð við þéttbýl svæði. Það var gert til að tryggja að gististarfsemi utan þéttbýliskjarna, einkum í sveitum, geti áfram notið sérstöðu og stuðlað að bættum kjörum íbúa þeirra svæða.
Við erum að ganga í aðgerðir til að ná betri tökum á húsnæðismarkaðnum.
Þegar húsnæðisþörf er eins mikil og raun ber vitni, sérstaklega meðal ungs fólks, geta stjórnvöld ekki setið á höndunum og leyft aðilum að kaupa fjölda íbúða einungis í þeim tilgangi að leigja út til ferðamanna. Sú þróun hefur haft þau áhrif að fjölmargar íbúðir hafa horfið af almennum húsnæðismarkaði, með tilheyrandi áhrifum á framboð, húsnæðisverð og jafnvel leiguverð. Þetta eru íbúðir sem eru margar í hentugri stærð fyrir ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð. Því eru það gleðifréttir að þetta frumvarp hafi verið samþykkt.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar og var framsögumaður málsins í atvinnuveganefnd Alþingis.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2024.