Categories
Fréttir

Lilja tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða

Deila grein

29/08/2022

Lilja tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs Norðurslóða

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra tók þátt í Grænlandsþingi Hringborðs norðurslóða sem fór fram um helgina í Nuuk á Grænlandi um helgina. Um 400 þátttakendur frá 25 löndum komu saman til þess að ræða loftslagsvána og málefni norðurslóða. 

Alls voru um 50 málstofur á þinginu þar sem meðal annars var fjallað um viðskipti, ferðaþjónustu, námuvinnslu, matvælavinnslu, vöruflutninga og framtíðarsýn út frá loftslagsbreytingum og grænum lausnum. 

Ráðherra var með framsögu og tók þátt í umræðum um viðskipti og fjárfestingar á Norðurslóðum ásamt Naaja Nathanielsen fjármála- og jafnréttisráðherra Grænlands, Dr. Thani bin Ahmed Al Zeyoudi, ráðherra erlendra viðskipta hjá Sameinuðu Arabísku furstadæmunum, Benedikt Gíslasyni bankastjóra Arion banka, Verner Hammeken framkvæmdastjóra Royal Arctic Line og Hugh Short framkvæmdastjóra PT Capital. 

Lilja lagði áherslu á mikilvægi þess að samtíminn lærði af þeim mistökum sem norrænt fólk gerði á Grænlandi á 13-14. öldinni þegar gengið var of nærri viðkvæmu umhverfi með ofbeit og ofnýtingu náttúruauðlinda, sem meðal annars er talið hafa valdið því að á endanum að norrænt fólk hafi gefist upp á Grænlandsbúsetunni.  

„Sjálfbærni á að vera meginstef í öllum aðgerðum á Norðurslóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylgir hlýnun jarðar og afleiðinga loftslagsbreytinga. Mikilvægt er að auka samvinnu og samstarf ríkja á Norðurslóðum þegar kemur að sjálfbærum viðskiptum og fjárfestingum. Það væri gagnlegt að stofna vettvang sem leiðir saman ríki í þeim tilgangi,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra. 

Mynd: Artic Circle

Þá tók ráðherra þátt í málstofu Hr. Ólafs Ragnars Grímssonar, fyrrverandi forseta Íslands og stjórnarformanns Hringborðs norðurslóða um Norðurslóðasetur, um framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða og safns um norðurslóðir.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 29. ágúst 2022.