Categories
Greinar

Norðurslóðir á krossgötum

Deila grein

30/08/2022

Norðurslóðir á krossgötum

Mál­efni norður­slóða skipta Ísland höfuðmáli en mál­efni svæðis­ins hafa á und­an­förn­um árum notið sí­vax­andi at­hygli ríkja heims­ins. Ísland hef­ur gert sig gild­andi í norður­slóðamál­efn­um. Þannig veitti Ísland Norður­skauts­ráðinu for­ystu á ár­un­um 2019-2021 og Hring­borð norður­slóða (e. Arctic Circle) hef­ur und­ir for­ystu fyrr­ver­andi for­seta Íslands, herra Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar, fest sig í sessi sem alþjóðleg­ur vett­vang­ur norður­slóðamála með þátt­töku fjöl­margra ríkja. Um liðna helgi tók ég þátt í sér­stöku Græn­landsþingi Hring­borðs norður­slóða þar sem um 400 þátt­tak­end­ur frá 25 lönd­um komu sam­an til þess að ræða lofts­lags­vána og mál­efni norður­slóða.

Alls voru um 50 mál­stof­ur á þing­inu þar sem meðal ann­ars var fjallað um viðskipti, ferðaþjón­ustu, námu­vinnslu, mat­væla­vinnslu, vöru­flutn­inga og framtíðar­sýn út frá lofts­lags­breyt­ing­um og græn­um lausn­um. Í ræðu minni lagði ég meðal ann­ars áherslu á mik­il­vægi þess að sam­tím­inn lærði af þeim mis­tök­um sem nor­rænt fólk gerði á Græn­landi á 13.-14. öld­inni þegar gengið var of nærri viðkvæmu um­hverfi með of­beit og of­nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, sem meðal ann­ars er talið hafa valdið því á end­an­um að nor­rænt fólk gafst upp á Græn­lands­bú­set­unni.

Á norður­slóðum búa alls um fjór­ar millj­ón­ir manna í átta ríkj­um en um tí­undi hluti þeirra eru frum­byggj­ar. Flest­ir lifa í nokkuð miklu ná­vígi við nátt­úr­una líkt og við Íslend­ing­ar þekkj­um vel af eig­in raun. Sam­fé­lög­in hafa að miklu leyti byggt af­komu sína á nýt­ingu nátt­úru­auðlinda, allt frá sjáv­ar­fangi og fugl­um til jarðefna­eldsneyt­is og málma. Þær um­hverf­is­breyt­ing­ar sem eiga sér stað hafa í för með sér viðamikl­ar áskor­an­ir fyr­ir sam­fé­lög á norður­slóðum, þar sem sum sam­fé­lög hafa minni viðnámsþrótt en önn­ur til þess að tak­ast á við þær.

Það er mik­il­vægt að spornað sé við nei­kvæðum áhrif­um þess­ara breyt­inga en að sama skapi tryggt að þau tæki­færi sem geta fal­ist í þeim verði nýtt með sjálf­bær­um hætti þar sem huga þarf að um­hverf­is- og ör­ygg­isþátt­um sem og fé­lags­leg­um og efna­hags­leg­um þátt­um. Sjálf­bærni verður að vera meg­in­stef í öll­um aðgerðum á norður­slóðum til að bregðast við þeim vanda sem fylg­ir hlýn­un jarðar og af­leiðing­um lofts­lags­breyt­inga – og þar gegn­ir auk­in sam­vinna og sam­starf ríkja á norður­slóðum lyk­il­hlut­verki. Fjár­fest­ing­ar og viðskipti eru þar mik­il­væg verk­færi til þess að tak­ast á við áhrif lofts­lags­breyt­inga og þar get­ur Ísland beitt sér með góðum ár­angri og miðlað af þekk­ingu sinni og reynslu til annarra ríkja á svæðinu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 30. ágúst 2022.