Categories
Greinar

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

Deila grein

29/08/2022

Ferðaþjónustan styrkir ytri stöðu íslenska þjóðarbúsins

„Ekki þarf nein­um blöðum um það að fletta, að frá lands­ins hálfu eru skil­yrði svo góð, sem hugs­ast get­ur, til þess að hingað ferðist fjöldi fólks á hverju ein­asta sumri. Hér er ein­kenni­leg og marg­háttuð nátt­úru­feg­urð, sem flest­ir hafa heill­ast af er hingað hafa komið. Íslend­ing­ar verða nú að fara að gera sér það ljóst, hvort þeir vilja að landið verði ferðamanna­land eða ekki.“Þessi brýn­ing var rituð í leiðara Morg­un­blaðsins 19. ág­úst árið 1920 eða fyr­ir rúm­um 100 árum.

Staðreynd­in í dag er sú að ferðaþjón­ust­an er einn af burðarás­um í ís­lensku efna­hags­lífi.

Staða og horf­ur ferðaþjón­ustu

Hag­vaxt­ar­horf­ur á Íslandi hafa verið að styrkj­ast og þjóðhags­spá­in ger­ir ráð fyr­ir 5,9% hag­vexti í ár. Eft­ir mik­inn sam­drátt í upp­hafi far­ald­urs­ins er það ferðaþjón­ust­an enn á ný sem dríf­ur hag­vöxt­inn áfram. Í ár hafa 870 þúsund ferðamenn heim­sótt landið og þá voru kom­ur þeirra í júlí­mánuði fleiri en í sama mánuði árið 2019. Áfram er gert er ráð fyr­ir kröft­ug­um bata ferðaþjón­ust­unn­ar, út­flutn­ings­tekj­ur haldi áfram að aukast og stuðli þannig að stöðugra gengi ís­lensku krón­unn­ar. Bók­un­arstaða er al­mennt góð, bæði inn í haustið og fram á næsta sum­ar. Það eru vissu­lega áskor­an­ir í haust og vet­ur sem snúa m.a. að verðlags­hækk­un­um og verðbólgu bæði hér á landi og í helstu markaðslönd­um okk­ar og hvaða áhrif það mun hafa á ferðagetu og ferðavilja fólks til lengri og skemmri tíma.

Ytri staða þjóðarbús­ins sterk

Sjálf­bær ytri staða þjóðarbúa skipt­ir höfuðmáli í hag­stjórn. Þjóðríki verða að hafa viðskipta­jöfnuðinn í jafn­vægi til lengri tíma. Lyk­il­breyt­ur eru okk­ar hag­kerfi hag­stæðar um þessi miss­eri. Hrein skuld­astaða rík­is­sjóðs nem­ur 28,5% af lands­fram­leiðslu, gjald­eyr­is­forðinn nem­ur um 25,5% og á sama tíma eru er­lend­ar skuld­ir rík­is­sjóðs inn­an við 5%. Þetta er gjör­breytt staða frá því sem áður var. Gjald­eyr­is­forði þjóðarbús­ins hef­ur vaxið veru­lega í kjöl­far þess af­gangs sem hef­ur verið á viðskipta­jöfnuðinum í kjöl­far vaxt­ar ferðaþjón­ustu ásamt því að aðrar lyk­ilút­flutn­ings­grein­ar hafa átt mjög góðu gengi að fagna. Gjald­eyr­is­forðinn var á bil­inu 5-10% lengst af og oft skuld­sett­ur.

Árið 2012 fór Seðlabank­inn að kaupa gjald­eyri til að byggja upp óskuld­sett­an gjald­eyr­is­forða til að bæta viðnámsþrótt hag­kerf­is­ins. Gjald­eyr­is­forðinn jókst frá 2008-2012 en hann var skuld­sett­ur með neyðarlán­um frá Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Norður­lönd­un­um í kjöl­far fjár­mála­hruns­ins. Alls ekki ákjós­an­leg staða. Viðmiðin sem Seðlabank­inn not­ar við ákvörðun á lág­marks­stærð forða byggj­ast á sögu­leg­um for­send­um, sem taka meðal ann­ars mið af því að skapa trú­verðug­leika um pen­inga­stefnu og til að mæta ör­ygg­is­sjón­ar­miðum í ut­an­rík­is­viðskipt­um og horfa til þátta er varða fjár­mála­stöðug­leika og láns­hæfi rík­is­sjóðs.

Straum­hvörf í ytri jöfnuði vegna út­flutn­ings á ferðaþjón­ustu

Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tíðum tæpt. Fyr­ir tíu árum áttu sér stað straum­hvörf á viðskipta­jöfnuðinum með til­komu sterkr­ar ferðaþjón­ustu. Fyr­ir lítið opið hag­kerfi er nauðsyn­legt að hafa styrk­ar út­flutn­ings­stoðir. Viðskipta­af­gang­ur­inn hef­ur einnig gert líf­eyr­is­sjóðum kleift að dreifa sparnaði fé­laga og byggja mynd­ar­lega sjóði er­lend­is. Á tím­um kór­ónu­veirunn­ar var hag­fellt að vera með gjald­eyr­is­forða sem gat jafnað mestu sveifl­ur. Stefna stjórn­valda er að um­gjörð hag­kerf­is­ins sé sem sterk­ust og stöðug til að Ísland sé sam­keppn­is­hæft um fólk og að það sé eft­ir­sókn­ar­verður staður sem ungt fólk kýs að dvelja á til framtíðar. Þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, stönd­ug­an gjald­eyr­is­forða og góðan inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri láns­kjara á alþjóðleg­um fjár­mála­mörkuðum.

Stefn­an og áskor­an­ir í ferðaþjón­ustu

Eitt helsta for­gangs­verk­efnið nú í nýju menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfl­uga aðgerðaáætl­un á sviði ferðamála á grunni Framtíðar­sýn­ar og leiðarljóss ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálf­bærni á öll­um sviðum. Mik­il­vægt er að leggja áherslu á ávinn­ing heima­manna um allt land, í því sam­bandi er dreif­ing ferðamanna lyk­il­atriði. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýt­ing innviða, bætt bú­setu­skil­yrði og lífs­gæði heima­manna, betri rekstr­ar- og fjár­fest­ing­ar­skil­yrði fyr­ir­tækja og fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf um land allt. Greitt milli­landa­flug skipt­ir í þessu sam­hengi miklu máli og hafa ánægju­leg­ar frétt­ir borist af því að und­an­förnu með stofn­un flug­fé­lags­ins Nicea­ir sem mun fljúga beint frá Ak­ur­eyri og þýska flug­fé­lagið Condor mun hefja viku­legt flug frá Frankfurt til Ak­ur­eyr­ar og Eg­ilsstaða frá maí til októ­ber á næsta ári. Það eru ýms­ar áskor­an­ir sem at­vinnu­lífið og stjórn­völd þurfa að ráðast í í sam­ein­ingu til að styrkja innviði og um­gjörð grein­ar­inn­ar, meðal ann­ars mennt­un og styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar í þess­ari at­vinnu­grein.

Loka­orð leiðarans góða frá ár­inu 1920 eru eft­ir­far­andi: „Íslend­ing­ar þurfa einnig sjálf­ir að læra að meta bet­ur land sitt og þá feg­urð, sem það hef­ir að bjóða.“ Þarna hafa orðið mikl­ar breyt­ing­ar og hef­ur ásókn Íslend­inga í að ferðast um sitt eigið land auk­ist mikið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. ágúst 2022.