Tíðar fréttir af ófriði og átökum um heim allan hafa birst okkur á undanförnum misserum. Aukinn ófriður í heiminum er óheillaþróun með tilheyrandi slæmum áhrifum fyrir íbúa heimsins. Bentu Sameinuðu þjóðirnar meðal annars á fyrr á árinu að fjöldi átaka hefur ekki verið meiri síðan á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar en um 2 milljarðar manna, fjórðungur mannkynsins, búa á svæðum sem hafa orðið fyrir áhrifum af átökum. Það má segja að sjaldan hafi reynt jafnmikið á þau helstu grundvallargildi sem Sameinuðu þjóðirnar voru reistar á; að viðhalda alþjóðlegum friði og öryggi.
Faraldur valdarána í Afríku, þar sem valdarán hafa verið framin í átta ríkjum á þremur árum og bætist við ófrið sem þar var fyrir, deilur Aserbaísjan og Armeníu, ólöglegt innrásarstríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísraela og Hamas-liða í kjölfar grimmilegra árása Hamas-liða í Ísrael um liðna helgi.
Það sem þessi átök eiga sameiginlegt er að ekki sér fyrir endann á þeim. Deilan fyrir botni Miðjarðarhafs er áratuga löng en fullyrða má að atburðir síðustu helgar séu mesta stigmögnun hennar í áratugi. Hætta er á enn frekari stigmögnun átakanna, en viðvörunarljós í þá veru eru þegar farin að blikka með skærum á landamærum Ísraels og Líbanon milli Ísraelshers og Hezbollah-samtakanna. Svæðinu öllu svipar til púðurtunnu. Það þarf fyrir alla muni að komast hjá frekari stigmögnun á svæðinu, með tilheyrandi óstöðugleika fyrir alþjóðasamfélagið.
Að sama skapi sér ekki enn fyrir endann á árásarstríði Rússa í Úkraínu, sem haft hefur skelfileg áhrif á milljónir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mannfall hefur verið hjá báðum löndum, á sama tíma og Rússar eru langt frá því að ná upphaflegum hernaðarmarkmiðum sínum. Efnahagur beggja landa hefur gjörbreyst og skaðast mikið með tilfinnanlegum áhrifum á alþjóðahagkerfið. Hækkanir á orku- og matvælaverði í kjölfar stríðsins smituðust í alþjóðlegar virðiskeðjur og urðu helsti orsakavaldurinn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarnan gerist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyrir þessu. Það er mikilvægt að Vesturlönd standi áfram af fullum þunga með Úkraínu og tryggi landinu nauðsynlega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálfstæði sitt.
Við erum lánsöm á Íslandi. Það að búa við frið og öryggi er því miður ekki sjálfsagt í heiminum eins og við þekkjum hann líkt og milljarðar jarðarbúa finna á eigin skinni. Blessunarlega hafa heilladrjúgar ákvarðanir verið teknar í varnar- og öryggismálum Íslands í gegnum tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.