Categories
Fréttir Greinar

Ófriðartímar í heiminum

Deila grein

12/10/2023

Ófriðartímar í heiminum

Tíðar frétt­ir af ófriði og átök­um um heim all­an hafa birst okk­ur á und­an­förn­um miss­er­um. Auk­inn ófriður í heim­in­um er óheillaþróun með til­heyr­andi slæm­um áhrif­um fyr­ir íbúa heims­ins. Bentu Sam­einuðu þjóðirn­ar meðal ann­ars á fyrr á ár­inu að fjöldi átaka hef­ur ekki verið meiri síðan á tím­um seinni heims­styrj­ald­ar­inn­ar en um 2 millj­arðar manna, fjórðung­ur mann­kyns­ins, búa á svæðum sem hafa orðið fyr­ir áhrif­um af átök­um. Það má segja að sjald­an hafi reynt jafn­mikið á þau helstu grund­vall­ar­gildi sem Sam­einuðu þjóðirn­ar voru reist­ar á; að viðhalda alþjóðleg­um friði og ör­yggi.

Far­ald­ur vald­arána í Afr­íku, þar sem vald­arán hafa verið fram­in í átta ríkj­um á þrem­ur árum og bæt­ist við ófrið sem þar var fyr­ir, deil­ur Aser­baís­j­an og Armen­íu, ólög­legt inn­rás­ar­stríð Rússa í Úkraínu og nú síðast; stríð Ísra­ela og Ham­as-liða í kjöl­far grimmi­legra árása Ham­as-liða í Ísra­el um liðna helgi.

Það sem þessi átök eiga sam­eig­in­legt er að ekki sér fyr­ir end­ann á þeim. Deil­an fyr­ir botni Miðjarðar­hafs er ára­tuga löng en full­yrða má að at­b­urðir síðustu helg­ar séu mesta stig­mögn­un henn­ar í ára­tugi. Hætta er á enn frek­ari stig­mögn­un átak­anna, en viðvör­un­ar­ljós í þá veru eru þegar far­in að blikka með skær­um á landa­mær­um Ísra­els og Líb­anon milli Ísra­els­hers og Hez­bollah-sam­tak­anna. Svæðinu öllu svip­ar til púðurtunnu. Það þarf fyr­ir alla muni að kom­ast hjá frek­ari stig­mögn­un á svæðinu, með til­heyr­andi óstöðug­leika fyr­ir alþjóðasam­fé­lagið.

Að sama skapi sér ekki enn fyr­ir end­ann á árás­ar­stríði Rússa í Úkraínu, sem haft hef­ur skelfi­leg áhrif á millj­ón­ir í Úkraínu og Rússlandi. Mikið mann­fall hef­ur verið hjá báðum lönd­um, á sama tíma og Rúss­ar eru langt frá því að ná upp­haf­leg­um hernaðarmark­miðum sín­um. Efna­hag­ur beggja landa hef­ur gjör­breyst og skaðast mikið með til­finn­an­leg­um áhrif­um á alþjóðahag­kerfið. Hækk­an­ir á orku- og mat­væla­verði í kjöl­far stríðsins smituðust í alþjóðleg­ar virðiskeðjur og urðu helsti or­saka­vald­ur­inn í hærri verðbólgu margra ríkja og eins og gjarn­an ger­ist eru það þeir sem minnst mega sín sem helst finna fyr­ir þessu. Það er mik­il­vægt að Vest­ur­lönd standi áfram af full­um þunga með Úkraínu og tryggi land­inu nauðsyn­lega aðstoð til þess að vernda frelsi og sjálf­stæði sitt.

Við erum lán­söm á Íslandi. Það að búa við frið og ör­yggi er því miður ekki sjálfsagt í heim­in­um eins og við þekkj­um hann líkt og millj­arðar jarðarbúa finna á eig­in skinni. Bless­un­ar­lega hafa heilla­drjúg­ar ákv­arðanir verið tekn­ar í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um Íslands í gegn­um tíðina sem við búum að í dag. Þá stefnu þarf að rækta áfram af alúð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. október 2023.