Árið 1886 komst Ludwig Boltzmann, einn af stofnendum varmafræðinnar, að þeirri niðurstöðu að orka væri hjarta alls. Hann sagði að allt líf væri barátta fyrir frjálsri orku – orka sem væri til staðar til að snúa fólki til trúar. Erwin Schrödinger, sem hlaut Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1933, tók í sama streng. Sérhver lífvera nærist á óheftri orku, skrifaði hann, og þær lífverur sem vinna best úr þeirri orku hafa forskot í þróunarsögunni. Hvað er orka annars? Orðsifjar orðsins, sem nær aftur til Grikklands hins forna, eru góður byrjunarreitur. Orðið er komið af nafnorðinu enérgeia, sem myndað er með orðinu ergon, og merkir „vinna“. Og það er nokkuð mikið í staðlaðri vísindalegri skilgreiningu: „Orkan er hæfileikinn til að vinna verk.“
Orkuöflun hefur verið burðarás í íslenskri lífskjarasókn en orkuframkvæmdir fortíðar hafa reynst heilladrjúgar fyrir þjóðfélagið, en samhliða aukinni orku- og verðmætasköpun í samfélaginu hefur íslenskt samfélag farið úr því að vera eitt fátækasta ríki Evrópu í eitt það ríkasta. Á þessum tíma hefur einnig íslenskt hugvit orðið til þess að Ísland er í fremstu röð er kemur að nýtingu endurnýjanlegrar orku, en hingað til lands kemur fólk víða að úr heiminum til að læra af reynslu okkar í orkumálum. Þannig er íslenskt orkuhugvit orðið útflutningsvara til ólíkra horna heimsins þar sem vatns- og jarðhitaauðlindir eru til staðar.
Eitt af keppikeflum alþjóðastjórnmálanna til margra ára hefur verið að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Helstu kröfur í því samhengi snúa að því að draga verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis og stuðla að alvöru orkuskiptum í lofti, láði og legi. Ljóst er að slíkt umskipti eru meðal annars háð stóraukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku. Þannig hafa fjölmörg ríki stóraukið fjárfestingu í slíkum orkugjöfum. Öflug og innlend orkuframleiðsla er líka eitt stærsta þjóðaröryggismál ríkja. Það kom bersýnilega í ljós í kjölfar ólöglegrar innrásar Rússa í Úkraínu. Orkuskortur á meginlandi Evrópu, með ýmiskonar skerðingum á afhendingu og miklum hækkunum á orkuverði í álfunni, komu ríkjum hennar í koll.
Þessi atburðarás undirstrikaði mikilvægi þess fyrir okkur á Íslandi að búa við sjálfstæði í orkumálum. Í ofanálag greiða íslensk heimili lágt verð fyrir orku en verðlagning hennar lýtur ekki sömu lögmálum og verðlagning á orku á meginlandi Evrópu, þar sem íslenska flutningsnetið er ótengt því evrópska.
Sú stöðnun sem hefur orðið í orkumálum hér á landi er ekki af hinu góða og það þarf að vinda ofan af henni. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyrir því að búa þau til, í sátt við náttúru og menn. Á Íslandi hefur vinna, vöxtur og velferð samfélagsins haldist hönd í hönd við nýtingu orkuauðlinda landsins. Okkur hefur vegnað vel í þeirri sjálfbærri nýtingu og á þeirri braut eigum við að halda áfram.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. desember 2023.