Categories
Fréttir

Stærsta kerfisbreytingin í málefnum barna á Íslandi í áratugi

„Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og ég held að það sé óhætt að segja að við séum að horfa upp á stærstu kerfisbreytingu í þessum málaflokki á Íslandi undanfarna áratugi,” sagði Ásmundur Einar á opnum kynningarfundi í gær.

Deila grein

01/12/2020

Stærsta kerfisbreytingin í málefnum barna á Íslandi í áratugi

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur kynnt frumvarp um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

„Allt frá því ég tók við ráðherraembætti hefur forgangsverkefni mitt verið að bæta enn frekar hvernig við þjónustum börn og fjölskyldur þeirra. Í víðtæku samráði og samstarfi fjölmargra aðila, leikinna, lærðra, innan þings og utan, hefur verið unnið að því í hartnær þrjú ár að smíða undirstöður undir kerfi sem tryggir að börn og fjölskyldur þeirra falli ekki á milli kerfa og verði ekki send á eigin ábyrgð milli þjónustuaðila innan sveitarfélaga og ríkisstofnana. Verkefnið er risavaxið og ég held að það sé óhætt að segja að við séum að horfa upp á stærstu kerfisbreytingu í þessum málaflokki á Íslandi undanfarna áratugi,” sagði Ásmundur Einar á opnum kynningarfundi í gær.

Frumvarpið er afurð víðtæks og góðs samstarfs fjölda aðila með samþættingu þjónustu í þágu barna að markmiði, sem og að auka samvinnu og bæta samfellu þjónustu við börn og að hagsmunir barna skuli ávallt hafðir í fyrirrúmi. Verkefnið er umfangsmikið og felur sennilega í sér mestu breytingu sem gerð hefur verið á umhverfi barna á Íslandi í áratugi.

Erum að tryggja snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið unnið að undirbúningi lagaumhverfis sem miðar að því að tryggja börnum og aðstandendum þeirra, snemmbæran, samþættan stuðning þvert á kerfi. Vinnan hefur verið undir forystu félagsmálaráðuneytisins en í víðtæku og þéttu samráði við fjölmarga aðila, svo sem önnur ráðuneyti, þingmannanefnd um málefni barna, félagasamtök og einstaklinga sem hafa lagt hönd á plóg.

Stefnan sem er lögð til í frumvarpinu er að láta mismunandi hluta kerfisins tala betur saman og loka gráu svæðum. Þannig er markmiðið að barnið verði hjartað í kerfinu. Frumvarpið tekur til allrar þjónustu sem fer fram innan skólakerfisins, í leik-, grunn- og framhaldsskólum, á frístundaheimilum og í félagsmiðstöðvum. Það tekur einnig til þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, í heilsugæslu, á heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum og félagsþjónustu sem er veitt innan sveitarfélaga, barnaverndarþjónustu og þjónustu við börn með fatlanir, svo dæmi séu til tekin.

Í frumvarpinu er lögð rík áhersla á að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana, ef á þarf að halda. Með breytingunum er leitast við að tryggja að foreldrar og barn fái upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins og þjónustuveitendur, foreldrar og börn, eftir atvikum, móti í sameiningu markmið, úrræði og mat á árangri.