Categories
Forsíðuborði Fréttir

„Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni“

Deila grein

13/09/2017

„Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni“

„Frú forseti. Góðir landsmenn. Ekki er hægt að segja að sú ríkisstjórn sem nú situr við völd sé líkleg til mikilla afreka.
Stjórnarsáttmálinn er sem kunnugt er þunnur þrettándi. Lítið hefur til ríkisstjórnarinnar spurst í sumar, hún er lítt sýnileg og flýtur sofandi að feigðarósi á meðan málin stór og smá bíða afgreiðslu og úrlausnar.
Árangur og horfur í efnahagmálum eru sannarlega góðar en koma ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samvinnu, samstöðu, markvissri vinnu og úthaldi og á fyrri ríkisstjórn mikinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur. Fyrirséð er að áfram verði vöxtur í þjóðarframleiðslu og því þarf að nýta tímann vel til að uppbyggingar, fyrir almenning, fyrir fólkið í landinu.
Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það þarf þolinmæði til að byggja upp innviði. Ef ekki núna, hvenær þá? Að mati okkar framsóknarmanna er tækifærið núna að efla grunnþjónustu og byggja upp.
Grunntónn í ræðu hæstv. forsætisráðherra gefur ekki beinlínis til kynna að það eigi að nýta nokkra tugi milljarða afgang á ríkissjóði til að búa heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið í haginn fyrir framtíðina.
Heilbrigðisstofnanir og skólar þurfa öfluga uppbyggingarstefnu ekki stöðnun.
Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma óháð búsetu, og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks.
Til að takast á við áskoranir framtíðarinnar er lykilatriði að menntun sé fjölbreytt og ýtt sé undir nýsköpun þannig að okkar stærsta auðlind, mannauðurinn fái að njóta sín. Byggja þarf þekkingarbrú á milli skóla og atvinnulífs á öllum skólastigum.
Ríkisstjórnin virðist heldur ekki ætla að nota ríkulegan afgang til að fjárfesta í samgöngum sem er ein mikilvægasta fjárfesting sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð, en vegakerfið er víða bágborið.
Stöðu aldraða þarf að bæta áfram og nýta þá vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Þau sem ruddu brautina fyrir okkur sem yngri erum eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Við framsóknarmenn viljum að þeim sé gert auðveldara að taka virkan þátt í samfélaginu með því að taka strax upp sveigjanleg starfslok og að hækka frítekjumörk.
Þá eiga nýlegar lagabreytingar í húsnæðismálum að leiða til byltingar og vera aðstoð við kaup á fyrstu fasteign og tryggja ódýrara leiguhúsnæði. Boltinn er m.a. hjá sveitarfélögunum.
Gallinn er hins vegar sá að stærsta sveitarfélagið Reykjarvíkurborg virðist aðeins hafa áform um að byggja nýjar íbúðir gegnum glærusýningar.
Þó staða efnahagsmála sé góð, er að mati okkar framsóknarmanna, ein stærsta áskorun okkar í efnahagsmálum okurvextir og óeðlilegar sveiflur í gengi. Rannsaka þarf samspil hárra vaxta og gengis til að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur og fyrirbyggja skaðleg áhrif á útflutningsatvinnugreinar. Agi og samvinna þarf að ríkja á milli nýrrar peninga- og fjármálastefnu til að tryggja þann stöðugleika sem grunnur var lagður að í tíð síðustu ríkisstjórn.
Við viljum einnig sjá uppstokkun á bankakerfinu. Bankakerfið á að þjónusta heimili og fyrirtæki. Hinn almenni neytandi þarf að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og aðhald sé gagnvart fjármálastofnunum. Margt hefur áunnist í að endurvekja traust, en þónokkuð er í land.
Þessu tengt þá sendi, sá sem hér stendur, fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um eignasafn Seðlabankans, og fékk til baka frekar fátækleg svör um hverjir hafi sinnt þjónustu fyrir bankann og keyptu eignir.
M.ö.o. almenningur fær ekki að vita hverjir keyptu, á hversu mikið, né hvernig þær voru greiddar.
Á sama tíma opna ráðuneytin bókhaldið. Er eðlilegt að Seðlabankinn geti skýlt sér á bak við bankaleynd þegar hann höndlar með eigur almennings?
En stærstu málin um ókomna framtíð eru án efa loftslagsmálin. Ríkisstjórnin vinnur nú að Sóknaráætlun sem lögð var fram í tíð síðustu ríkisstjórnar á grunni Parísarsamkomulagsins. Mikilvægt er að styðja vel við nýsköpun, fjárfestingar og þróa áframhaldandi þekkingu til að flýta fyrir nauðsynlegum tæknibreytingum á endurnýjanlegri orku.
Virðulegir forseti. Það dylst engum að hæstv. forsætisráðherra á í verulegum vanda með að hafa stjórn á litlu samstarfsflokkunum. Eins og stóri bróðir leyfir hann þeim að stökkva fram með yfirlýsingar en slær svo á puttana afleiðingin er óljós stefna, óskýr skilaboð.
Björt Framtíð sem virðist vera verkfælin varð þó ekki latari en svo í sumar að umhverfisráðherra notaði þingsal í auglýsingaskyni fyrir einkafyrirtæki og braut siðareglur ráðherra. Síðasta ríkisstjórn setti siðareglur til þess að eftir þeim yrði farið. Heilbrigðisráðherra sem á að stýra einu viðamesta ráðuneytinu, gleymdi að taka iðjusama íkornann og útsjónarsemi hans sér til fyrirmyndar.
Fjármálaráðherra – sem stundum hefur verið sagður í hagsmunagæslu fyrir fjármálaöflin – gerði tilraun til að auka tekjur kortafyrirtækja og banka með því að afnema tíu þúsund króna seðilinn. Rök fjármálaráðherra voru þau að koma átti í veg fyrir að almenningur sviki undan skatti. Á sama tíma keppast ráðherrar og þingmenn Viðreisnar um að tala niður krónuna og vilja taka upp evru en þar er stærsti seðilinn 500 evrur eða um 65 þús. kr.
Góðir landsmenn. Það er engu líkara en ríkisstjórnin sé á sjálfstýringu. Stefnu- og ráðaleysið er algert og þegar tillögur eða aðgerðir koma fram þá er undir hælinn lagt hvar þær lenda. Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni.
Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir breytingum til að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum og fjölga störfum með nýsköpun og menntun.
Ég fæ ekki betur séð en að landbúnaðarráðherra sé að þrengja svo að íslenskri matvælaframleiðslu og að það stefni í algjört hrun í greininni og afleiddum störfum víðsvegar um land.
Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir þegjandi og hljóðalaust en ber ábyrgðina!
Svipaða sorgarsögu er að segja af nýlegri skýrslu ráðherra í fiskeldismálum, þar sem niðurstaðan er sett fram án fullnægjandi greiningar og störfum beinlínis sópað undir teppið. Auðvitað eigum við að fara varlega og tryggja með öllum ráðum hlut villtra laxastofna eins og við höfum áður gert t.a.m. árið 2004 með lokun allra helstu fjarða og flóa og árið 2015 með því að setja ýtrustu kröfur inn í ný lög og reglur um fiskeldi.
Góðir landsmenn. Við framsóknarmenn teljum að staðan sé víða mjög góð og mikil tækifæri í að hér haldi áfram skynsamlegur vöxtur. Hins vegar þarf aðra stjórnarstefnu.
Við höfum efni á því að búa betur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu.
Þá eru tækifæri til uppbyggingar víða um land þrátt fyrir þenslu, en nýleg skýrsla Byggðastofnunar sýnir að hagvöxtur er mjög mismunandi eftir landshlutum. Á Vestfjörðum var hann t.d. neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, á meðan hann var jákvæður í öllum öðrum landshlutum mismikið þó.
Með sömu þjónustu og aðstæðum, alls staðar á landinu okkar, er samfélagið Ísland sterkara.
Við eigum að treysta sveitarfélögunum fyrir því að byggja upp sjálfbær samfélög. T.a.m. er umræðan á Vestfjörðum skiljanleg og væntanlegur íbúafundur þann 24. september liður í því að sá landshluti segi: „Við viljum hafa það í okkar höndum að byggja upp sjálfbæra atvinnu, samgöngur og hafa aðgang að rafmagni“.
Okkur framsóknarmönnum virðist að þar segi ríkisstjórnin pass.
Í öllum landshlutum fer nú fram slík umræða af því ríkisstjórnin er áhugalaus, aðgerðalaus og stefnulaus um að byggja upp allt landið.
Þessu þarf að breyta. Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar, jafnvægi og framsýni, eru fögur orð á blaði, en fjarri raunveruleikanum því hún beinir sjónum sínum að þeim sem fjármagnið eiga. Því kemur það ekki á óvart að stuðningur við ríkisstjórnina sé sögulega lítill.
Því segjum við framsóknarmenn tökum nú saman höndum tryggjum hag þeirra sem verst standa nýtum tímann og góðan efnahag í að byggja upp án þess að auka þensluna. Það er hægt.
Góðar stundir.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í umræðu á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra 13. september 2017.