Categories
Fréttir

„Sumir þurfa að græða meira, virðist vera“

Deila grein

01/06/2023

„Sumir þurfa að græða meira, virðist vera“

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, segir það langhlaup að leysa úr stöðunni í efnahagsmálum þjóðarinnar. Skyndilausnir sem breyta eða leysa úr stöðunni á einum degi eða nokkrum vikum eru ekki til, heldur sé þetta langhlaup þar sem við munum komast í mark. Það sé sameiginlegt verkefni okkar.

„Stýrivextir hækka, matarkarfan hækkar, útgjöld heimilanna hækka og væntanlega munu vextir bankanna einnig hækka í kjölfar stýrivaxtahækkunar. Sumir þurfa að græða meira, virðist vera,“ segir Ágúst Bjarni.

„Heilt yfir búum við í góðu samfélagi hér á landi og staða okkar á langflestum sviðum er góð. Það segja flestar tölur. Við búum í samfélagi þar sem náungakærleikur ríkir og samkennd með öðru fólki er ofar öllu. Við stöndum saman og hjálpumst að við að gera gott samfélag betra. Þetta sjáum við víða þegar á bjátar,“ segir Ágúst Bjarni.

„Fram undan eru áskoranir á húsnæðismarkaði. Við glímum við ákveðið ójafnvægi í dag sökum þess að of lítið hefur verið byggt af íbúðum síðustu 10–15 ár. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru háleit markmið um byggingu íbúða á næstu árum og hefur hæstv. innviðaráðherra nú þegar kynnt metnaðarfull markmið hvað það varðar og gert samninga. En það þarf meira til og samhliða þessu þarf að gera almenna markaðnum kleift að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á næstu árum,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Umræða um efnahagsmál hefur verið allsráðandi í samfélaginu undanfarnar vikur og skyldi engan undra. Stýrivextir hækka, matarkarfan hækkar, útgjöld heimilanna hækka og væntanlega munu vextir bankanna einnig hækka í kjölfar stýrivaxtahækkunar. Sumir þurfa að græða meira, virðist vera. Í allri umræðu um efnahagsmál verður að horfa á stóru myndina. Heilt yfir búum við í góðu samfélagi hér á landi og staða okkar á langflestum sviðum er góð. Það segja flestar tölur. Við búum í samfélagi þar sem náungakærleikur ríkir og samkennd með öðru fólki er ofar öllu. Við stöndum saman og hjálpumst að við að gera gott samfélag betra. Þetta sjáum við víða þegar á bjátar. Þýðir þetta að við sem samfélag stöndum ekki frammi fyrir áskorunum? Nei, við stöndum frammi fyrir áskorunum. Það eru svo sannarlega miklar áskoranir til staðar og alger óþarfi að fara í felur með það. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra.

Við glímum við mikla verðbólgu í landinu líkt og löndin í kringum okkur og fólk er farið að finna verulega fyrir því. Ég hef áður fjallað um þessi mál, bæði í ræðum hér á Alþingi og í greinum, en við megum ekki missa sjónar á því að til eru lausnir við þessum áskorunum, þó engar skyndilausnir sem breyta eða leysa úr stöðunni á einum degi eða nokkrum vikum. Þetta er langhlaup og við munum komast í mark.

Fram undan eru áskoranir á húsnæðismarkaði. Við glímum við ákveðið ójafnvægi í dag sökum þess að of lítið hefur verið byggt af íbúðum síðustu 10–15 ár. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru háleit markmið um byggingu íbúða á næstu árum og hefur hæstv. innviðaráðherra nú þegar kynnt metnaðarfull markmið hvað það varðar og gert samninga. En það þarf meira til og samhliða þessu þarf að gera almenna markaðnum kleift að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er á næstu árum.“