Síðasta vika á fjármálamörkuðum hefur einkennst af flótta fjárfesta úr áhættu í öryggi, þ.e. ávöxtunarkrafa á ríkisskuldabréf hefur lækkað meðan hlutabréfin hafa fallið í verði. Meginorsökin er að miklar væringar eru í alþjóðastjórnmálunum. Stríðin í Mið-Austurlöndum og Úkraínu hafa mest um þessa þróun að segja.
Horfurnar og hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Efnahagsbatinn á heimsvísu er hægfara og ójafn eftir svæðum. Hagvöxtur er minni hjá nýmarkaðs- og þróunarríkjum. Ýmsir þættir vega þungt, t.a.m. hafa vextir hjá ýmsum nýmarkaðsríkjum verið hærri vegna aukinnar verðbólgu, sem hefur dregið úr hagvexti. Sú verðbólga sem heimsbúskapurinn hefur verið að kljást við hefur verið drifin áfram af mörgum þáttum, en helst ber að nefna röskun á aðfangakeðjunni, umfangsmiklar stuðningsaðgerðar opinberra aðila til að styðja við eftirspurn vegna covid-19, stríðið í Úkraínu, vaxandi spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Kína ásamt aukinni verndarstefnu ríkja um heim allan. Verðbólga á heimsvísu er víða í rénun en það er of snemmt að fagna sigri. Verðbólgan í Bandaríkjunum er enn býsna treg enda öflugur gangur efnahagslífsins, en betur hefur gengið með verðbólguna víða í Evrópu, en þar eru önnur vandamál, t.d. mælist efnahagssamdráttur í Þýskalandi. Í efnahagsspá AGS sem birtist í síðustu viku er gert ráð fyrir að hagvöxtur á heimsvísu lækki úr 3,5% árið 2022, í 3% bæði árið 2023 og árið 2024. Hagspáin er undir sögulegum vexti á heimsvísu, sem var að meðaltali 3,8% fyrstu tvo áratugi aldarinnar. Hækkun stýrivaxta seðlabanka sem beinist gegn verðbólgu heldur áfram að hægja á efnahagsumsvifum. Gert er ráð fyrir að verðbólga á heimsvísu lækki úr 8,7% árið 2022 í 6,9% árið 2023 og 5,8% árið 2024. Áætlað er að undirliggjandi (kjarna)verðbólga lækki meira og smám saman og hafa spár um verðbólgu árið 2024 verið endurskoðaðar til hækkunar. Gert er ráð fyrir að verðbólga á heimsvísu nái jafnvægi árið 2025. Spár fyrir árið 2023 og 2024 eru hins vegar endurskoðaðar lítillega til lækkunar og ekki er gert ráð fyrir að verðbólga nái markmiði fyrr en árið 2025 í flestum tilvikum.
Áframhaldandi órói í heimshagkerfinu
Áhættan í alþjóðahagkerfinu heldur áfram að aukast og endurspeglast það á fjármálamörkuðum. Greina má þessa áhættuþætti í fimm þætti. Í fyrsta lagi hafa stríðin í Úkraínu og Mið-Austurlöndum verulega neikvæð áhrif á líf fólksins á svæðinu. Skelfileg stríð sem bitna verst á saklausu fólki. Í öðru lagi, þá hækkaði verðbólgan í Bandaríkjunum lítils háttar, sem gefur til kynna að hún er þrálátari en vonir stóðu til. Þetta þýðir að vextir verða hærri til lengri tíma í Bandaríkjunum en ýmsir markaðsaðilar gerðu ráð fyrir. Í þriðja lagi ríkir stöðnun í Kína og hagkerfið þar er að mæta ýmsum nýjum áskorunum í fjármálakerfinu og á fasteignamarkaði. Þetta er ný staða fyrir kínverska hagkerfið, sem hefur vaxið gríðarlega síðustu áratugi og að mörgu leyti dregið vagninn varðandi hagvöxt í heimsbúskapnum. Að sama skapi skortir enn á gagnsæi á mörkuðum þar og því hafa fjárfestar meiri fyrirvara en ella. Í fjórða lagi hefur skuldastaða nýmarkaðs- og þróunarríkja versnað og í háu vaxtaumhverfi þurfa fleiri ríki á endurskipulagningu skulda að halda. Sömu lögmál ríkja um einkageirann sem ekki hefur farið varhluta af vaxtahækkunum eftir áratugi hagkvæmra vaxta. Að lokum má nefna að alþjóðavæðing hefur átt undir högg að sækja og hefur vöxtur alþjóðlegra viðskiptahindrana verið mikill. Sú þróun ýtir undir hækkanir á verðbólgu á heimsvísu.
Tíðar stýrivaxtahækkanir hafa ekki skilað tilætluðum árangri – hvað veldur?
Peningastefnan í Bandaríkjunum hefur verið afar aðhaldssöm í rúmt ár og verðbólgan hefur lækkað og nemur nú 3,7%. Stýrivextir hafa ekki verið jafnháir í Bandaríkjunum í 22 ár. Bandaríska hagkerfið er ekki að bregðast við stýrivöxtum með hefðbundnum hætti. Þrátt fyrir það hefur framleiðslutapið ekki verið mikið né heldur hefur atvinnuleysið aukist. Meginorsök verðbólgunnar er dýpri en að hægt sé að skýra hana út einvörðungu með efnahagsaðgerðum sem tengjast covid-19. Þó hafa margir talið að umframeftirspurnin í bandaríska hagkerfinu í kjölfar covid-19 sé rót vandans. Hins vegar er það svo að þessar efnahagsaðgerðir hafa aukið ójafnvægið sem kom vegna þeirra efnahagsaðgerða sem farið í í kjölfar alþjóðlegu fjármálakreppunnar 2008-2010. Stýrivextir voru lækkaðir verulega og hin magnbundna íhlutun var afar umfangsmikil, þannig að kaup seðlabanka á skuldabréfum voru mikil og peningamagn í umferð jókst verulega eða sem nemur um 8 trilljónum bandaríkjadala. Augljóslega hefur þessi aukning mikil áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Peningamagn í umferð jókst frá því að vera um 500 milljarðar í 8 trilljónir frá 2007-2022. Bandaríski seðlabankinn hefur hafið áætlun um að draga úr skuldabréfakaupunum og draga úr þessu peningamagni í umferð. Að sama skapi hefur ríkisfjármálin skort aðhald enda er fjárlagahallinn í ár um 10% af landsframleiðslu þrátt fyrir kröftuga viðspyrnu hagvaxtar í kjölfar covid. Á árunum 2020 og 2021 var fjárlagahalli um 10-14% af landsframleiðslu. Seðlabanki Bandaríkjanna hefur ekki verið einn í því að stækka efnahagsreikninginn sinn verulega, sama þróunin hefur verið í öllum helstu seðlabönkum veraldar.
Stærsta viðfangsefni íslensks samfélags
Ísland hefur ekki farið varhluta af þeirri verðbólguþróun sem hefur átt sér stað í heiminum. Á árinu 2022 tók verðbólga seinna við sér á Íslandi en í mörgum samanburðarríkjum. Á tímabili mældist samræmd verðbólga á Íslandi sú næstlægsta í Evrópu, eða 6,4% í nóvember 2022 samanborið við 11,5% hjá ríkjum Evrópusambandsins. Verðbólgan hér á landi hélt áfram að hækka þar til hún náði hámarki í byrjun árs þegar hún mældist 10,2%. Síðan þá höfum við séð hana lækka en í dag stendur hún í 8%. Mikill þróttur hefur einkennt íslenska hagkerfið síðasta ár, sem skýrist af miklum viðsnúningi í ferðamennskunni og hagkvæmum viðskiptakjörum fyrir sjávarútveg og iðnað. Helsta stjórntæki Seðlabanka Íslands, stýrivextirnir, er farið að skila tilætluðum árangri til kælingar. Ríkisfjármálin hafa stigið skarpt til hliðar frá því í covid og nýlega hefur ríkisstjórnin kynnt aðhaldsamt fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 þar sem lögð er áhersla á aðhald og aukna forgangsröðun í ríkisrekstrinum á sama tíma og staðinn er vörður um mikilvæga grunnþjónustu í landinu. Glíman við verðbólguna er stærsta viðfangsefni samfélagsins, en verðbólgan bitnar verst á þeim sem síst skyldi; þeim efnaminni. Það að ná niður verðbólgu er algjört forgangsmál ríkisstjórnarinnar, en á þeirri vegferð þurfa allir að ganga í takt; stjórnvöld, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnumarkaðarins. Ég er bjartsýn á að við munum sjá verðbólguna lækka á komandi mánuðum ef við höldum rétt á spilunum, en það er til mjög mikils að vinna fyrir heimili og fyrirtæki landsins að ná tökum á henni.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. október 2023.