Nú hefur árið 2022 runnið sitt skeið. Það hefur svo sannarlega verið viðburðaríkt ár, bæði fyrir mig persónulega og í pólitíkinni. Það er ávallt sérstök stund í lok árs hvers árs að setjast niður og hugsa um árið sem er að líða, sum ár eru viðburðaríkari en önnur og það má með sanni segja að þetta ár hafi verið eitt af þeim viðburðaríku. Í upphafi árs var enn heimsfaraldur í gangi sem við höfum sem betur fer náð kveðja að mestu. Nýjar áskoranir dundu yfir með innrás Rússa í Úkraínu sem enn sér ekki fyrir endann á. Við búum því enn við ákveðið óvissustig en af öðrum toga að þessu sinni. Þá voru haldnar sveitarstjórnarkosningar í maí og var ánægjulegt að sjá gott gengi Framsóknar víða um land. Ég er þakklát fyrir það traust sem okkur í Framsókn er sýnt og við ætlum okkur, hvort sem það er á Alþingi eða í sveitarstjórnum víða um land, að standa undir þeirri ábyrgð og trausti sem okkur er falin.
Við byggjum á góðum grunni
Þrátt fyrir að ríkið þurfti að sæta þungum höggum vegna heimsfaraldurs höfum við náð góðum árangri á nýliðnu ári. Þau fjárlög, sem samþykkt voru á Alþingi rétt fyrir hátíðirnar, gefa góða mynd af stöðu efnahagsmála. Á sama tíma og mikilvægt er auka fjármagn til tiltekinna verkefna þurfum einnig við að halda í til þess að auka ekki við þenslu og verðbólgu. Forgangsraða þarf fjármunum í rétta átt og það hefur verið gert eftir fremsta megni. Aukin áhersla er lögð á heilbrigðiskerfið í fjárlögum fyrir árið 2023 en efling heilbrigðiskerfisins er eitt af aðalstefnumálum Framsóknar á þessu kjörtímabili. Styrkja á rekstrargrunn Landspítalans og Sjúkrahússins á Akureyri og heilsugæslnanna en þá fer einnig fjármagn til annarra mikilvægra verkefna í heilbrigðisþjónustunni. Ætlunin er að tryggja öllum sem bestu þjónustu óháð stöðu og efnahag. Auk þessa höldum við áfram að byggja upp innviði, bæta samgöngur ásamt því að fjölga íbúðum og tryggja húsnæðisöryggi þjóðarinnar.
Íslenskt samfélag stendur svo sannarlega á traustum grunni, það sést svo vel þegar við sjáum samfélagið færast aftur í fyrra horf eftir heimsfaraldur. Þrátt fyrir smæð sína býr Ísland við sterkari stöðu en margar aðrar Evrópuþjóðir, fyrir það getum við verið þakklát. Við höfum öll tækifæri til að búa okkur gott samfélag en þurfum að gæta þess að spila rétt úr þeim spilum sem okkur er gefið. Við búum við lítið atvinnuleysi, höfum öflug fyrirtæki og góða innviði. Þá eru starfrækt á Íslandi máttug fyrirtæki sem sækja ótrauð áfram og eru leiðandi í nýsköpun. Ísland er fallegt land sem ferðamenn vilja sækja heim, tekjur af ferðamönnum eru nú orðnar meiri en árið 2019 og til landsins streyma stór kvikmyndaverkefni sem eflaust munum koma til með að auka enn á vinsældir landsins. Við erum lánsöm þjóð.
Tækifæri til að gera betur
Síðustu dagar hafa farið í það að njóta hátíðanna með fjölskyldu og vinum en hugur þingmannsins reikar þó ávallt að þeim verkefnum sem bíða okkur á komandi ári. Það verður aldrei þannig að við getum sagt að við séum búin að öllu í pólitík, líkt og við segjum oft í undirbúningi jóla. Verkefnin eru fjölmörg, hvort sem er hér í Norðausturkjördæmi eða á landinu öllu. Efling ferðaþjónustunnar hér á Norðurlandi eystra hefur verið mikil og tækifærin henni tengd fjölmörg. Til að auka enn frekar samkeppnishæfni svæðisins þurfum við að halda áfram að bæta flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í millilandaflugi. Verkefninu að fjölga aðlaðandi störfum á Norðausturlandi, bæði opinberum og innan einkageirans, er aldrei lokið. Efling landsbyggðanna og atvinnulífs þeirra er alltaf okkur kjörnum fulltrúum ofarlega í huga.
Öflugra heilbrigðiskerfi
Þá hafa heilbrigðismálin á svæðinu verið mér ofarlega í huga. Það er mikilvægt er að styrkja enn frekar heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað og bæta þannig þjónustu við íbúa. Þá höfum við gríðarlega góð tækifæri til þess að styrkja heilbrigðisþjónustu á svæðinu með því að efla Sjúkrahúsið á Akureyri. Með því að efla sjúkrahúsið á Akureyri getum við veitt betri heilbrigðisþjónustuþjónustu á Norður og Austurlandi þar sem sérfræðingar af sjúkrahúsinu starfa náið með öðrum starfsstöðvum heilbrigðisstofnana á svæðinu. Góð og metnaðarfull heilbrigðisþjónusta eins og Sjúkrahúsið á Akureyri hefur möguleika á að veita ef rétt er gefið bætir búsetuskilyrði á svæðum sem sum eiga undir högg að sækja.
Sérfræðiþjónusta lækna á landsbyggðinni hefur átt undir höggi að sækja síðustu ár sökum lítillar nýliðunar auk samningsleysis og nú er staðan sú að íbúar landsbyggðarinnar þurfa að langstærstu leyti að sækja þjónustu sérfræðilækna á höfuðborgarsvæðið. Undirrituð telur mikilvægt að kortleggja og greina þörf eftir sérfræðilæknum á landsbyggðinni meðal annars eftir fólksfjölda og aldursgreiningu og gera heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni mögulegt að bjóða upp á sérfræðiþjónustu í samræmi við þarfir íbúa í hverju heilbrigðisumdæmi. Það er mikilvægt að aðstæður líkt og þær sem sköpuðust fyrir austan um hátíðirnar endurtaki sig ekki, það verður að tryggja þjónustu sérfræðilækna á landsbyggðinni. Þá er það lykilatriði að ná samningum við sérfræðilækna en það er eitt að aðaláherslumálum Willum Þórs heilbrigðisráðherra.
Sjálfbærni í orkumálum
Við eigum margt ógert í orkumálum hér á landi, en á nýliðnu ári höfum við enn á ný séð mikilvægi tryggra orkuinnviða. Halda þarf áfram að styrkja og efla dreifikerfi raforku um allt land. Síðastliðið vor náðum við að losa um áralanga stöðnun þegar ramminn var samþykktur, en betur má ef duga skal. Samkvæmt orkustefnu Íslands er markmiðið að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þetta er loftslagsvænt og efnahagslegt markmið. Hvernig ætlum við að ná þeim markmiðum og hvernig við ætlum að ná í þá orku sem þarf til er enn ósvarað. Mikilvægt er að árið 2023 verði nýtt vel til þess að svara þessum spurningum. Samkvæmt núverandi raforkuspá fyrir Ísland er gert ráð fyrir að orkuþörf hér á landi geti aukist um tæplega 60% til ársins 2040 í stærstu sviðsmyndinni. Stoðir samfélagsins, atvinnulífið sem og heimilin í landinu, munu áfram þurfa græna orku. Þar að auki þarf orku í orkuskiptin. Það er því forgangsmál að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegir til að veita okkur aukna orku og mikilvægt að greina og velja hagkvæmustu orkukostina.
Skuldbindingar Íslands til loftslagsmála eru ríkar og til að fylgja þeim eftir þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Staðreyndin er sú að okkur vantar meiri orku til að uppfylla markmið okkar, og það er ekki svo einfalt að við drögum hana upp úr hatti. Þvert á móti þarf að sýna mikla framsýni við öflun endurnýjanlegrar orku því það tekur mörg ár. Við sjáum fyrir okkur að í framtíðinni munu orkuskipti ekki einungis verða á einkabílnum heldur sjáum við að atvinnulífið er að bregðast við með eftirtektarverðum hætti. Ætlunin er að hætta notkun á jarðefnaeldsneyti í framtíðinni sem er handan við hornið. Við þurfum að virkja meira og sækja þessa grænu orku sem við búum að hér á landi. En þess ber þó að geta að það þarf að gerast í sátt og samlyndi og með virðingu fyrir náttúru landsins. Framtíðarsýnin á að vera sú að við verðum sjálfbær, hættum að kaupa olíu og bensín frá útlöndum og framleiðum í samræmi við orkuþörf Íslands. Það er okkar stærsta framlag til loftslagsmála og sjálfbærni. Það er líka eina leiðin til að tryggja orkusjálfstæði landsins.
Verkefnin verða ávallt til staðar
Í hverjum mánuði og á hverjum degi eru ólík verkefni og viðfangsefni sem alþingismenn þurfa að takast á við. Sagan hefur sýnt okkur að öll heimsmyndin getur breyst á einu andartaki og þá skiptir máli að hafa sterkar stoðir og skýra framtíðarsýn. Þrátt fyrir sviptivinda þá stöndum við saman á sterkum grunni og þennan grunn þarf að sífellt að hlúa að, það er verkefni okkar á Alþingi. Ég er meðvituð um að það er íbúum Norðausturkjördæmis að þakka að ég fái tækifæri til þess að koma áfram öllum þeim málum sem ég ber í brjósti. Ég vil því þakka ykkur kærlega fyrir samstarfið árið 2022 en ekki síst fyrir traustið. Það er sannur heiður að fá að vinna í ykkar þágu á Alþingi á hverjum degi.
Ég vona svo sannarlega að árið sem er að líða hafi verið ykkur gott og að nýtt ár færi okkur öllum gæfu og gleði. Bestu óskir um gleðilegt nýtt ár 2023!
Ingibjörg Isaksen, 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á akureyri.net 31. desember 2022.