Ferðaþjónustan er í dag stærsti gjaldeyrisskapandi atvinnuvegur þjóðarinnar og mikilvægur drifkraftur hagvaxtar í landinu. Með tilkomu hennar hefur orðið umturnun á viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins á rúmlega 10 árum. Sveiflur í atvinnugreininni geta þannig framkallað nokkur hröð áhrif á lykilbreytur í efnahagslífinu.
Fyrr á árinu var smíði á sérstöku þjóðhagslíkani fyrir íslenska ferðaþjónustu lokið. Með líkaninu verður hægt að skoða áhrif breytinga í starfsumhverfi ferðaþjónustunnar á hagkerfinu. Um er að ræða fyrsta þjóðhagslíkan fyrir atvinnugrein hérlendis. Ferðamálastofa hefur haldið á framkvæmd verkefnisins fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins en annars vegar er um að ræða sérstakt þjóðhagslíkan fyrir íslenska ferðaþjónustu, eða svokallað geiralíkan, og hins vegar útvíkkun á spálíkani Seðlabanka Íslands/Hagstofu Íslands, þannig að það taki tillit til hlutverks ferðaþjónustunnar í þjóðarbúskapnum.
Tilkoma þjóðhagslíkansins skiptir máli í umgjörð ferðaþjónustunnar og mun líkanið gera stjórnvöldum og öðrum hagaðilum kleift að skoða með raunhæfum hætti áhrif breytinga á helstu forsendum ferðaþjónustu á hag greinarinnar sem og þjóðarbúsins alls – og öfugt. Þannig verður hægt að meta áhrifin af breytingum í þjóðarbúskapnum á hag greinarinnar. Þar má nefna sem dæmi áhrif ferðaþjónustunnar á þjóðhagsstærðir eins og VLF og atvinnustig, s.s. við farsóttir, miklar breytingar á flugsamgöngum eða ferðavilja, og áhrif gengis, verðlags, atvinnustigs og skatta á ferðaþjónustuna.
Unnið er að því að gera gagnvirka og einfalda útgáfu þjóðhagslíkansins aðgengilega á vefsvæði Ferðamálastofu eða Mælaborði ferðaþjónustunnar, þannig að notendur geti breytt meginforsendum og séð áhrif þeirra breytinga skv. líkaninu á aðrar helstu hagstærðir.
Samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar skiptir þjóðarbúið höfuðmáli og þurfa ákvarðanir stjórnvalda að endurspegla þá staðreynd í hvívetna. Fleiri ríki sem við berum okkur saman við hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að byggja upp ferðaþjónustu með markvissum hætti. Ísland verður að vera á tánum gagnvart þeirri auknu alþjóðlegu samkeppni sem af því leiðir. Hið nýja þjóðhagslíkan mun hjálpa okkur að skilja hvaða áhrif fækkun eða fjölgun ferðamanna hefur á þjóðarbúið og undirbyggja enn betur þær ákvarðanir sem teknar eru í málefnum ferðaþjónustunnar.
Ég er bjartsýn fyrir hönd íslenskrar ferðaþjónustu sem hefur náð miklum árangri á undanförnum áratug. Miklum vexti fylgja oft áskoranir eins og við þekkjum, en heilt yfir hefur okkur sem samfélagi tekist vel til við að takast á við þær, enda eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þjóðarbúið í heild.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. maí 2024.