Flest þekkjum við þau áhrif og tæknibreytingar sem þróun snjallsíma hefur haft á líf okkar, við erum orðin vön því að hafa allar upplýsingar, bæði gagnlegar og ógagnlegar við höndina. Við þekkjum líka flest hversu auðvelt það er að ánetjast símanum og eyða miklu meira tíma en við viljum í marklausu vafri um samfélagsmiðla og vefsíður. Langflest börn í dag eiga síma alveg eins og við fullorðna fólkið, eða 95% barna í 4.–7. bekk og 98% barna í 8.–10. bekk. Símunum fylgja auðvitað ýmsir kostir en líka áskoranir sem við þurfum að vera vakandi fyrir. Nýjar rannsóknir benda til þess að mikil aukning sé í skjátíma, sérstaklega hjá börnum, og að aukningin hafi meðal annars neikvæð áhrif á svefn ásamt andlegri og líkamlegri heilsu barna. Þá hafa rannsóknir sýnt að takmarkanir á notkun farsíma í skólumbæta námsárangur, sérstaklega hjá nemendum sem eru með slakan námsárangur.
Stuðlum gegn neikvæðum áhrifum farsímanotkunar á börn
Þess vegna hef ég kynnt í ríkisstjórn þá ákvörðun að setja af stað vinnu sem miðar að því að gefa út reglur um farsímanotkun í grunnskólum landsins, en hún er óvíða eins mikil og hér á landi. Reglurnar verðaunnar í víðtæku samráði við foreldra og börn, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara og aðra hagaðila, og gert ráð fyrir að þær verði nýttar sem leiðbeinandi viðmið fyrir grunnskóla við setningu skólareglna um farsímanotkun. Eitt meginstefið þar er að tryggja fullnægjandi fræðslu um símanotkun og forvarnir til að stuðla gegn þeim mögulegu neikvæðu áhrifum sem hún getur haft í skólum.
Skiptar skoðanir
Það er vissulega margt sem er verulega jákvætt við nýja tækni en við þurfum að kunna að umgangast hana eins og allt annað. Við þurfum að vinna gegn neikvæðum áhrifum tækninnar samhliða því að nýta þau jákvæðu. Skjánotkun er mikil hérlendis og fer vaxandi, sérstaklega hjá börnum. Skoðanir eru skiptar í samfélaginu og skólareglur misjafnar eða jafnvel ekki til staðar. Markmiðið með þeirri vinnu sem nú fer af stað er að skilgreina viðmið fyrir grunnskóla og auka fræðslu í þessum efnum til að bregðast við þessari þróun með farsæld barna að leiðarljósi, og hjálpa þeim þannig að bregðast við og umgangast þessa tækni af ábyrgð og þekkingu.
Ásmundur Einar Daðason, mennta-og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst á visir.is 31. ágúst 2023.