Í dag eru tvö ár liðin frá því að nýtt og öflugt ráðuneyti, innviðaráðuneytið, tók til starfa. Ráðuneytið er ávöxtur breytts stjórnarráðs þar sem ákveðið var að færa málaflokka á milli ráðuneyta til að stjórn ríkisins tæki betur mið af samfélaginu og þeim fjölbreyttu og brýnu verkefnum sem vinna þarf að frá degi til dags til að leggja traustari grunn að framtíðinni. Í fyrsta sinn voru sameinaðir undir eina yfirstjórn málaflokkar sveitarstjórna, samgangna, byggðamála, húsnæðismála og skipulagsmála. Með þessu var stigið stórt skref sem hefur í för með sér mun betri sýn yfir málaflokka sem snerta daglegt líf allra landsmanna.
Vörðum leiðina saman
Verkefni ráðuneytisins eru mörg og þau eru mikilvæg. Innviðaráðuneytið býr að því að eiga innan vébanda sinna öflugt fólk sem vinnur af krafti við að mæta þörfum og kröfum samfélagsins. Við höfum á þeim tveimur árum sem liðin eru frá stofnun ráðuneytisins lagt mikla áherslu á lifandi og djúpt samtal við samfélagið. Haustið 2022 voru haldnir samráðsfundir í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaga undir yfirskriftinni Vörðum leiðina saman og voru þeir fundir mikilvægur liður í samhæfingu ráðuneytisins á sviði stefnumótunar í málaflokkum byggða-, samgöngu-, húsnæðis-, sveitarstjórnar- og skipulagsmála. Þessir fundir eru þó aðeins brot af því víðtæka samráði og samtali sem innviðaráðuneytið á í á hverjum tíma.
Á þessu þingi og því síðasta hef ég lagt fyrir þingið áætlanir sem varða alla þessa málaflokka og hafa tvær þeirra verið samþykktar á Alþingi: Byggðaáætlun og stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga. Þessar vikurnar eru nefndir þingsins að vinna að landsskipulagsstefnu, samgönguáætlun og húsnæðisstefnu. Allar eru þessar stefnur ávextir vinnu hins tveggja ára ráðuneytis.
Húsnæðismálin eru í öndvegi
Allir málaflokkar ráðuneytisins eru mikilvægir. Það er þó ljóst að sá málaflokkur sem hefur fengið mesta kastljósið þessi fyrstu tvö árin er húsnæðismálin. Húsnæðisstefnan sem nú liggur fyrir þinginu er ótrúlegt en satt fyrsta heildstæða áætlunin um húsnæðismál á Íslandi. Hún mun ramma inn hugmyndafræði og aðgerðir sem varða leiðina næstu árin og áratugina. Ég hef sem innviðaráðherra lagt höfuðáherslu á gott samstarf við sveitarfélögin sem hafa skipulagsvaldið og eru því mikilvægur hlekkur í þeirri miklu uppbyggingu húsnæðis sem við verðum að ráðast í á næstu árum. Sumarið 2022 undirritaði ég rammasamkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga sem miðar að því að á tíu árum verði byggðar 35 þúsund nýjar íbúðir svo þörf samfélagsins verði mætt. Stóra markmiðið í þeirri stefnu er að vinna gegn þeim miklu sveiflum sem við höfum upplifað á húsnæðismarkaði síðustu ár og áratugi með tilheyrandi áhrifum á verð, verðbólgu og vexti. Í framhaldinu hefur verið unnið að samningum við einstaka sveitarfélög og hef ég undirritað samninga við tvö sveitarfélög, Reykjavík og Vík í Mýrdal. Fleiri samningar eru í uppsiglingu. Þrátt fyrir óhagstætt umhverfi verðbólgu og hárra vaxta hefur þessu stóra verkefni miðað vel. Þótt fyrstu skrefin hafi þurft að vera styttri og varfærnari vegna aðstæðna er markmiðið um 35 þúsund nýjar íbúðir óbreytt. Þarfir ört vaxandi samfélags kalla einfaldlega á öflugt samstarf ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins.
Við gerum gagn
Fyrstu tvö ár innviðaráðuneytisins hafa einkennst af ákveðnum hugsunarhætti sem má ramma inn í orðin: Við gerum gagn. Í þessum orðum má lesa ákveðna auðmýkt en á sama tíma gömul og góð íslensk gildi um dugnað og ósérhlífni.
Við sem störfum í innviðaráðuneytinu munum áfram vinna eftir þessum hugsunarhætti. Þjónusta okkar við samfélagið er okkur alltaf efst í huga. Fyrstu tvö árin eru liðin og við höldum ótrauð áfram veginn.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og innviðaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgnblaðinu 1. febrúar 2024.