Meginvextir Seðlabanka Íslands eru 9,25% eftir síðustu 50 punkta hækkun. Verðbólga hefur farið minnkandi og mældist 7,6% í júlí. Dregið hefur úr alþjóðlegum verðhækkunum ásamt því að gengi krónunnar hefur styrkst umfram spár. Á móti vegur að innlendar verðhækkanir hafa reynst þrálátar og eru enn á breiðum grunni.
Síðustu daga hafa sumir beint kastljósinu beinst að ferðaþjónustunni. Eftir því sem best verður séð af yfirlýsingum Seðlabankastjóra og af lestri Peningamála Seðlabankans virðist vera um misskilning að ræða hvað snertir síðustu vaxtahækkun, þar sem ekkert kemur þar fram sem bendir til að ferðaþjónustan sé umfram aðrar atvinnugreinar að valda verðbólguþrýstingi, enda árar vel í flestum atvinnugreinum þjóðfélagsins. Í nýjustu Peningamálum er minnst á ferðaþjónustuna í samhengi við styrkingu krónunnar, sem hefur hækkað um 6,6% það sem af er ári og er gengið nú að meðaltali um 10% hærra en það var lægst í lok janúar. Frekari staðfestingu á framlagi ferðaþjónustunnar til styrkingar á krónunni var að finna í tölum Hagstofunnar í vikunni þar sem fram kemur að verðmæti þjónustuútflutnings hefur styrkst og nær að greiða mikinn halla á vöruskiptum við útlönd og erlendar fjárfestingar lífeyrissjóðanna. Færa má sterk rök fyrir því að öflugur viðsnúningur ferðaþjónustunnar hafi stutt við gengi krónunnar á síðustu mánuðum og í raun frá því að greinin hóf að rétta úr kútnum snemma á árinu 2022.
Það er ekki þörf á að dvelja lengi við áhrif gengisins á verðlag á Íslandi í gegnum tíðina, og eru áhrifin sterkari hér á landi en í öðrum löndum, enda kemur fram í Peningamálum að betri skammtímahorfur verðbólguvæntinga endurspegli einkum styrkingu krónunnar umfram spár. Í Peningamálum er á öðrum stað minnst á ferðaþjónustuna þar sem kemur fram að horfur í ferðaþjónustu séu áþekkar og í spá bankans í maí. Þar segir einnig að horfur fyrir greinina séu svipaðar fyrir næsta ár þar sem gert er ráð fyrir hóflegri fjölgun ferðamanna milli ára. Það virðist því ekki vera nein breyting á áhrifum ferðaþjónustunnar til hækkunar á spá bankans. Það má halda því til haga að gert er ráð fyrir færri ferðamönnum í ár en á metárinu 2018, en það ár var verðbólgan ekki vandamál.
Það eru hins vegar aðrir og augljósari kraftar sem hafa áhrif á verðlag. Verð á matvöru og þjónustu hefur hækkað áfram. Verð á almennri þjónustu hefur hækkað um 6,8% sl. tólf mánuði og verð á innlendri vöru um 11,5%. Þá hefur dagvara hækkað um 12,2% frá sama tíma í fyrra. Enn er því til staðar nokkur verðbólguþrýstingur þótt dregið hafi lítillega úr honum í júlí, en rúmlega helmingur af neyslukörfunni hefur hækkað um 5-10% frá fyrra ári og um fjórðungur hefur hækkað um meira en 10%. Menningar- og viðskiptaráðuneytið hyggst taka upp samtal við lykilaðila á dagvörumarkaðnum til að skilja betur þessa hækkun, sér í lagi vegna þess að krónan hefur verið að styrkjast og alþjóðleg verðbólga í rénun.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.