Categories
Greinar

60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða

Deila grein

23/11/2022

60 ára stjórnmálasamband vinaþjóða

Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórn­mála­sam­bandi í ár en lönd­in tóku upp form­legt stjórn­mála­sam­band 10. októ­ber 1962. Á þess­um sex­tíu árum hafa rík­in þróað náið sam­starf á ýms­um sviðum, svo sem í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, vís­ind­um og mál­efn­um norður­slóða

Ísland og Suður-Kórea fagna 60 ára stjórn­mála­sam­bandi í ár en lönd­in tóku upp form­legt stjórn­mála­sam­band 10. októ­ber 1962. Á þess­um sex­tíu árum hafa rík­in þróað náið sam­starf á ýms­um sviðum, svo sem í mennta- og menn­ing­ar­mál­um, vís­ind­um og mál­efn­um norður­slóða. Þannig hef­ur Suður-Kórea verið áheyrn­araðili að Norður­skauts­ráðinu síðan árið 2013 og verið virk­ur þátt­tak­andi á þeim vett­vangi. Ný­lega var stofnuð Kór­eu­deild við Há­skóla Íslands sem er afrakst­ur fund­ar míns með Sang-Kon, þáver­andi mennta­málaráðherra og vara­for­sæt­is­ráðherra Suður-Kór­eu í Seúl, árið 2018.

Vænt­ing­ar eru um að deild­in muni vaxa og síðar taka til menn­ing­ar­legra þátta til viðbót­ar tungu­mál­inu. Samn­ing­ar til dæm­is á sviði tví­skött­un­ar og fríversl­un­ar eru í gildi milli land­anna en árið 2020 nam um­fang inn- og út­flutn­ings milli Íslands og Suður-Kór­eu um 8 millj­örðum króna. Suðurkór­esk fyr­ir­tæki hafa fjár­fest í ís­lensk­um fyr­ir­tækj­um á umliðnum árum, má þar nefna kaup Kór­eu­búa á tölvu­leikja­fyr­ir­tæk­inu CCP og stóra fjár­fest­ingu í lyfja­fyr­ir­tæk­inu Al­votech.

Tíma­mót eins og 60 ára stjórn­mála­sam­band eru merki­leg og vel til þess fall­in að líta yfir far­inn veg og horfa til framtíðar. Fyrr í haust kom sér­stök sendi­nefnd á veg­um suðurkór­eskra stjórn­valda heim­sókn til Íslands í til­efni af þess­um merk­is­áfanga. Í þess­ari viku mun ég svo leiða ís­lenska viðskipta­sendi­nefnd í Suður-Kór­eu, með sér­stakri áherslu á menn­ingu og skap­andi grein­ar, en Kór­eu­bú­ar hafa náð langt í því að flytja út menn­ingu sína. K-Pop-tónlist, marg­verðlaunaðar sjón­varpsþátt­araðir, ósk­ar­sverðlauna­bíó­mynd­ir og annað afþrey­ing­ar­efni hef­ur farið sem eld­ur í sinu um heims­byggðina með til­heyr­andi virðis­auka og út­flutn­ings­tekj­um fyr­ir suðurkór­eskt sam­fé­lag.

Suður-Kórea á einnig sér­stak­an stað í hjarta mér af per­sónu­legri ástæðum en ég var svo hepp­in að búa þar á ár­un­um 1993-1994 þegar ég nam stjórn­mála- og hag­sögu Suður-Kór­eu við Ewha-kvenna­há­skól­ann í Seúl. Það var ein­stakt að fá að kynn­ast þess­ari fjar­lægu vinaþjóð okk­ar með þeim hætti, en þrátt fyr­ir að vera langt í burtu á landa­kort­inu eru ýmis lík­indi með Íslandi og Suður-Kór­eu. Bæði rík­in glímdu við mikla fá­tækt í kring­um sjálf­stæði sitt sem þau fengu um sviptað leyti, Ísland 1944 og Suður-Kórea 1945. Síðan þá hafa bæði lönd náð langt og geta í dag státað af ein­um bestu lífs­kjör­um í ver­öld­inni. Land­fræðileg lega ríkj­anna er mik­il­væg og bæði eiga þau í sér­töku sam­bandi við Banda­rík­in, meðal ann­ars á sviði varn­ar­mála. Áhersla á menn­ingu og sér­stak­lega al­mennt læsi hef­ur lengi verið mik­il. Ég tel að það hafi skipt öllu máli í þeim þjóðfé­lags- og efna­hags­legu fram­förum sem rík­in hafa náð. Ekki má gleyma að því að lönd­in deila gild­um frels­is, lýðræðis og op­inna alþjóðaviðskipta – en Kór­eu­skag­inn, með skipt­ingu sinni í norður og suður, geym­ir best þann lær­dóm hversu mik­il­vægt slíkt stjórn­ar­far er.

Ég er bjart­sýn á framtíðarsam­skipti ríkj­anna og ég tel að lönd­in tvö geti dýpkað sam­starf sitt og vináttu enn frek­ar, með hags­bót­um fyr­ir þegna sína.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 22. nóvember 2022.