Endurreisn ferðaþjónustunnar á Íslandi hefur tekist vel eftir áföll heimsfaraldursins. Þannig hefur ferðaþjónusta á Íslandi náð 95% af fyrri styrk frá því fyrir heimsfaraldur samanborið við 57% þegar horft er á ferðaþjónustu á heimsvísu samkvæmt tölum frá Alþjóðaferðamálastofnuninni, einni af undirstofnunum Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru áhugaverðar tölur sem við getum verið stolt af.
Gott gengi ferðaþjónustunnar skiptir miklu máli en hún er sú atvinnugrein sem skapar mestan erlendan gjaldeyri fyrir þjóðarbúið. Þróttmikill vöxtur greinarinnar undangenginn áratug hefur átt stóran þátt í að gera Seðlabankanum kleift að byggja upp öflugan og óskuldsettan gjaldeyrisvaraforða sem vegur nú um 30% af landsframleiðslu miðað við um 5% af landsframleiðslu á árunum fyrir fjármálaáfallið 2008. Þessi sterka staða eykur sjálfstæði og getu peningastefnunnar ásamt því að gera stjórnvöldum kleift að stunda markvissari og skilvirkari efnahagsstjórn, bregðast örugglega við efnahagslegum áföllum og stuðla að stöðugleika fyrir heimili og fyrirtæki í landinu.
Þessi kröftuga viðspyrna ferðaþjónustunnar á árinu gerist ekki af sjálfu sér. Forsenda hennar er mikil útsjónarsemi og þrautseigja ferðaþjónustufyrirtækjanna og starfsfólks þeirra í góðu samstarfi við stjórnvöld í gegnum heimsfaraldurinn. Tíminn var vel nýttur þar sem stjórnvöld lögðu áherslu á að styðja við fólk og fyrirtæki í gegnum faraldurinn. Þannig náðist að verja mikilvæga þekkingu fyrirtækjanna og þá innviði sem nauðsynlegir eru til að taka á móti fjölda ferðamanna á ný. Að sama skapi var aukið verulega við fjárfestingar í innviðum, bæði í samgöngum og á ferðamannastöðum, svo þeir yrðu betur í stakk búnir til að taka á móti fleiri gestum á ný. Aukinheldur ákvað ríkisstjórnin að verja háum fjárhæðum í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað, með markaðsverkefninu „Saman í sókn“ í gegnum allan faraldurinn, þrátt fyrir litla eftirspurn eftir ferðalögum á þeim tíma. Eitt af fyrstu verkum mínum sem ferðamálaráðherra var að setja 550 m.kr. í aukna markaðssetningu til að skapa fleiri tækifæri fyrir íslenska ferðaþjónustu um allt land, en mælingar á lykilmörkuðum hafa aldrei sýnt jafn ríkan vilja til að ferðast til Íslands og nú.
Við lifum á tímum þar sem ýmsar stórar og krefjandi áskoranir blasa við okkur í heimsmálunum. Það hefur því aldrei verið jafn mikilvægt og nú að vera á vaktinni og gæta að íslenskum hagsmunum í hvívetna og tryggja áframhaldandi lífskjarasókn á grundvelli öflugs atvinnulífs til framtíðar.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 6. október 2022.