Nýlega lauk þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Alþjóðavinnumálaþinginu, sem var hið 108. í röðinni. Þess var minnst með margvíslegum hætti að öld er liðin frá því að stofnunin hóf starfsemi árið 1919. Henni var sett það markmið að ráða bót á félagslegum vandamálum sem öll ríki áttu við að stríða og aðeins yrði sigrast á með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna. Bjargföst trú þeirra fulltrúa ríkisstjórna, atvinnurekenda og launafólks sem mótuðu Alþjóðavinnumálastofnunina var að varanlegur friður yrði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti væri fyrst komið á innan þjóðfélaganna. Óréttlæti væri uppspretta árekstra sem leiddu til styrjalda þjóða í milli. Þessir fulltrúar höfðu fyrir augunum sviðna jörð og húsarústir og áttu margir hverjir um sárt að binda eftir gífurlegar mannfórnir í fyrri heimsstyrjöldinni.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar og forystumenn í félags- og vinnumálum sóttu þingið af þessu tilefni. Nefna má forseta Ítalíu, Frakklands, Gana og Suður-Afríku. Enn fremur fjölmarga forsætisráðherra. Í þeim hópi voru forsætisráðherrar Noregs, Svíþjóðar, Lúxemborgar, Bretlands, Nepals o.fl. Aldrei í sögu samtakanna hafa jafn margir sótt þingið, eða rúmlega sex þúsund fulltrúar ríkisstjórna, samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks.
Eitt af mikilvægustu verkefnum Alþjóðavinnumálaþingsins er að fara yfir árlega skýrslu sérfræðinganefndar stofnunarinnar um framkvæmd aðildarríkjanna 187 á þeim alþjóðasamþykktum um félags- og vinnumál sem þau hafa fullgilt. Framkvæmd Tyrklands á alþjóðasamþykkt um félagafrelsi var meðal þess sem kom til kasta þingsins. Fulltrúar launafólks voru mjög gagnrýnir á ástandið í landinu og röktu mörg dæmi um það hvernig stjórnvöld hefðu komið í veg fyrir starfsemi stéttarfélaga sem væru þeim ekki að skapi. Einnig var rakið hvernig tugir þúsunda höfðu verið hnepptir í varðhald vegna upploginna fullyrðinga um stuðning við misheppnað valdarán fyrir nokkrum árum.
Undirbúningur fyrir afmælisárið hófst fyrir þremur árum. Aðildarríkin voru hvött til þess að stofna til umræðna og rannsóknarverkefna um viðbrögð við fyrirsjáanlegum breytingum á skipulagi vinnunnar og vinnuumhverfi. Norðurlöndin svöruðu þessu kalli með sameiginlegu verkefni sem fólst í árlegum ráðstefnum um afmarkaða þætti félags- og vinnumála. Lokahnykkurinn í norræna verkefninu var ráðstefna sem haldin var í Hörpu dagana 4. og 5. apríl sl. Sameiginlegt álit var að þessi ráðstefna hefði borið af bæði hvað varðaði skipulag og umræður. Nefnd á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem laut m.a. formennsku Stefan Löfvens, forsætisráðherra Svíþjóðar, vann úr rannsóknum og gögnum frá ráðstefnunum sem haldnar voru í tilefni af aldarafmælinu og birti í skýrslu. Í henni áttu sæti þjóðarleiðtogar og forystumenn samtaka atvinnurekenda og launafólks á alþjóðavísu. Efni skýrslunnar var til umfjöllunar í sjö áhugaverðum pallborðsumræðum á Alþjóðavinnumálaþinginu. Helsta niðurstaðan er sú að leggja þarf áherslu á endurmenntun og þjálfun auk félagslegs stuðningskerfis sem gefur fólki tækifæri til að bregðast við óumflýjanlegum breytingum sem fylgja nýrri tækni og breyttum verk- og framleiðsluháttum.
Fyrir þessu afmælisþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar lágu tillögur að nýrri alþjóðasamþykkt og tilmæli um nánari útfærslu á aðgerðum gegn einelti og ofbeldi á vinnustöðum. Um var að ræða síðari umræðu en fyrri umræða fór fram á þinginu árið 2018 og lauk í miklum ágreiningi sem m.a. snerist um skilgreiningar og upptalningu hópa sem gætu talist í hættu á að verða fyrir aðkasti vinnufélaga. Eftir mjög strembnar umræður tókst góð samstaða í þingnefndinni sem hélt til loka þingsins. Tillagan að samþykkt og tilmælum naut víðtæks stuðnings þingfulltrúa. Gildi þessara gerða felst í því að með þeim er lagður grunnur að aðgerðum til að skapa vinnuumhverfi sem byggist á virðingu fyrir mannlegri reisn og er laust við hvers konar ofbeldi og einelti.
Ég hef þegar óskað eftir því við samstarfsnefnd félagsmálaráðuneytisins og helstu samtaka atvinnurekenda og launafólks um málefni Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að hún taki samþykktina til umfjöllunar með það fyrir augum að Ísland verði í hópi þeirra ríkja sem fyrst fullgilda þessa nýju alþjóðasamþykkt sem hefur ekki síst það markmið að tryggja mannsæmandi vinnuumhverfi.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019.