Categories
Greinar

Áfram í sókn

Deila grein

13/01/2022

Áfram í sókn

Sóknaráætlanir landshlutanna eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Um er að ræða einkar vel heppnaða aðgerð þar sem landshlutasamtök sveitarfélaga stofna með sér samráðsvettvang og stilla upp áætlun sem setur fram sýn og markmið sem draga fram sérstöðu svæðanna. Þannig er stutt við ákvarðanir um úthlutun fjármagns og verkefni sem unnin eru undir merkjum sóknaráætlana.

Við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins nú í desember lagði fjárlaganefnd til 100 milljóna kr. styrkingu á verkefninu um sóknaráætlanir landshluta. Ég fagna að sú tillaga hafi hlotið samþykki. Mikilvægi sóknaráætlana kemur fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sérstaklega tekið fram að unnið verði áfram að eflingu sóknaráætlana landshlutanna.

Uppbygging í takt við áherslur heimamanna

Sóknaráætlanir hafa sannað sig sem öflugt byggðarþróunartæki og þeir fjármunir sem í þær er veitt nýtast hratt og vel til ýmiss konar uppbyggingar í héraði í takti við áherslur heimamanna. Sóknaráætlanir og uppbyggingarsjóðir gegna lykilhlutverki til þess að efla nýsköpun og menningarstarf á landsbyggðinni.

Í kjölfarið á heimsfaraldri kórónuveirunnar var veitt viðbótarfjármagni inn í áætlanirnar til þess að sporna við áhrifum faraldursins. Undirritaður telur mikilvægt að áframhaldandi stuðningur sé til staðar, bæði vegna þess að faraldurinn ætlar að vera þaulsetnari en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir og einnig til að styðja við uppbyggingu vegna áhrifa faraldursins sem mun væntanlega gæta eitthvað áfram komandi ár.

Landshlutasamtökin eru mikilvægur hlekkur

Landshlutasamtökin hafa svo sannarlega staðið undir þeirri ábyrgð að verja fjármagni í mikilvæg verkefni til stuðnings atvinnu- og byggðarþróun og nýsköpun með hagkvæmum og skilvirkum hætti. Þau eru vel til þess fallinn að styðja við hverskonar nýsköpun á landsbyggðinni og hagnýtingu hugvits. Með samstarfi sem þessu gerum við atvinnulífið á landsbyggðinni fjölbreyttara og fjölgum spennandi og verðmætum störfum. Við viljum styðja við umhverfi þar sem sköpunarkraftur fólks fær að njóta sín og það getur vaxið og dafnað. Sóknaráætlanir í gegnum landshlutasamtökin stuðla að jákvæðri samfélags- og byggðarþróun í takt við heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þær treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls í leið.

Áfram veginn

Aukin stuðningur við sóknaráætlanir eru í takt við stefnu Framsóknarflokksins, en við í Framsókn höfum alltaf verið talsmenn öflugrar byggðastefnu. Mikilvægt er að á kjörtímabilinu verði enn aukið samstarf milli landshlutasamtaka og allra ráðuneyta til þess að tryggja að stærri aðgerðir sóknaráætlana nái fram að ganga um allt land. Þannig byggjum við Ísland framtíðarinnar.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 13. janúar 2022.