Nýr lífskjarasamningur 2019-2022, sem aðilar vinnumarkaðarins hafa náð saman um og stjórnvöld styðja við, byggir undir áframhaldandi lífskjarasókn á Íslandi. Samningurinn er í senn framsýnn og ánægjuleg afurð þrotlausrar vinnu aðila vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld undanfarna mánuði. Aðgerðirnar eru viðamiklar og snerta margar hliðar þjóðlífsins sem miða allar að því sama; að auka lífskjör og lífsgæði á Íslandi. Þær leggjast ofan á þá kraftmiklu innviðafjárfestingu sem hefur átt sér stað í tíð þessarar ríkisstjórnar í mennta- og menningarmálum, félags- og heilbrigðismálum, samgöngu- og umhverfismálum og nýsköpunar- og vísindamálum.
Áhersla á ungt fólk og börn
Með aðgerðunum mun staða ungs fólks styrkjast. Á gildistíma samningsins verða barnabætur hækkaðar og fæðingarorlof lengt úr níu mánuðum í tólf. Ungu fólki verður auðveldað að fjárfesta í fyrstu fasteign með því að heimila notkun á hluta skyldulífeyrissparnaðar til slíkra kaupa. Það kemur til viðbótar séreignasparnaðarleiðinni Fyrsta íbúð sem heimilar fólki að nýta viðbótarsparnað sinn í allt að 10 ár til kaupa og afborgana. Ég vil einnig geta þess að vinna við heildarendurskoðun á Lánasjóði íslenskra námsmanna gengur mjög vel en í nýju námsstyrkja- og lánakerfi munum við fella niður 30% af höfuðstóli námsmanna að ákveðnum skilyrðum fullnægðum auk þess að framfærsla barna verður í formi styrkja í stað lána eins og er í dag. Að auki höfum við hækkað frítekjumark námsmanna um 43%.
Hærri laun og lægri skattar
Til viðbótar við þær launahækkanir sem hafa verið kynntar í lífskjarasamningnum mun ríkið lækka skatta um 20 milljarða og gefa þannig eftir um 10% af tekjuskatti einstaklinga. Tekjuskattur alls launafólks mun lækka en sérstök áhersla er lögð á tekjulága hópa með nýju lágtekjuskattsþrepi. Sú aðgerð mun auka ráðstöfunartekjur lágtekjuhópa og auka jöfnuð. Þá munu gjaldskrár ríkisins ekki hækka á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda og á árinu 2020 verður 2,5% hámark sett á gjaldskrárhækkanir.
Betri lífskjör á Íslandi
Það er ljóst að lífskjarasamningurinn og aðgerðir tengdar honum munu skila okkur auknum lífsgæðum. Markviss skref til afnáms verðtryggingar verða tekin, sveigjanleiki aukinn á vinnustöðum, íbúðakaup gerð auðveldari, tekjuskattur lækkaður, laun hækkuð, barnabætur auknar og fæðingarorlof lengt. Árangur sem þessi er ekki sjálfgefinn. Hann er afrakstur samvinnu fjölda aðila sem allir hafa sama markmið að leiðarljósi, að gera gott land enn betra.
Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. apríl 2019.