Það er nánast sama hvaða alþjóðlegu mælikvarðar eru nefndir, alls staðar er Ísland ofarlega á lista yfir góð samfélög. Við sem byggjum þetta land nú þegar liðið er 21 ár af þessari öld getum verið afar þakklát fyrir þann arf sem gengnar kynslóðir hafa ánafnað okkur. Það þýðir þó ekki að allt sé í lagi og engu þurfi að breyta. Grundvallaratriðið er að vinna að umbótum með samvinnu og samstöðu en ekki byltingum og tilheyrandi kollsteypum.
Nú snýst kerfið um barnið
Í tíð sitjandi ríkisstjórnar höfum við í Framsókn leitt mörg stór umbótamál. Vil ég nefna þrjú þeirra. Fyrst skal nefna barnamálin sem Ásmundur Einar hefur leitt. Með miklu samráði við fagfólk, notendur þjónustu og aðstandendur þeirra og lykilfólk úr öðrum stjórnmálaflokkum tókst Ásmundi Einari að breyta kerfinu þannig að það snýst ekki lengur um sjálft sig heldur um barnið sjálft.
Betra námslánakerfi fyrir framtíðina
Næst vil ég nefna nýjan Menntasjóð sem Lilja Dögg, mennta- og menningarmálaráðherra, kom á laggirnar en helstu breytingarnar í nýju námslánakerfi felast í því að höfuðstóll er lækkaður um 30% ef námsframvinda er eðlileg, námsmenn fá styrk vegna barna en ekki aukið lán og að hægt verður að nota námslánakerfið til að hvetja með ívilnunum til náms í ákveðnum greinum eða hvetja sérfræðinga til búsetu í hinum dreifðari byggðum.
Fjölbreyttar samgöngur fyrir aukin lífsgæði
Að lokum vil ég sérstaklega nefna samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þeir sem aka um götur höfuðborgarsvæðisins taka eftir þeim miklu töfum sem eru víða. Þær tafir eru að miklu leyti komnar til vegna þess mikla frosts sem ríkti í samskiptum borgarinnar og ríkisins þegar kom að samgöngum. Áherslur þessara aðila voru gjörólíkar. Eitt af fyrstu verkum mínum í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu var að kalla aðila saman að borðinu og vinna að sameiginlegri sýn um fjölbreytta uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu: öflugri stofnleiðum, bættum almenningssamgöngum, göngu- og hjólastígum og bættri umferðarstýringu. Niðurstaðan er að á næstu fimmtán árum verður 120 milljörðum króna varið til þess að greiða leið um höfuðborgarsvæðið.
Þau mál sem ég hef tæpt á hér sýna í hnotskurn hverju er hægt að áorka ef leið samvinnu og sátta er valin. Engar byltingar, heldur mikilvægar umbætur til að auka lífsgæði á landinu okkar.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021.