Categories
Greinar

Árangur næst með samvinnu

Deila grein

23/09/2021

Árangur næst með samvinnu

Það er nán­ast sama hvaða alþjóðlegu mæli­kv­arðar eru nefnd­ir, alls staðar er Ísland of­ar­lega á lista yfir góð sam­fé­lög. Við sem byggj­um þetta land nú þegar liðið er 21 ár af þess­ari öld get­um verið afar þakk­lát fyr­ir þann arf sem gengn­ar kyn­slóðir hafa ánafnað okk­ur. Það þýðir þó ekki að allt sé í lagi og engu þurfi að breyta. Grund­vall­ar­atriðið er að vinna að um­bót­um með sam­vinnu og sam­stöðu en ekki bylt­ing­um og til­heyr­andi kollsteyp­um.

Nú snýst kerfið um barnið

Í tíð sitj­andi rík­is­stjórn­ar höf­um við í Fram­sókn leitt mörg stór um­bóta­mál. Vil ég nefna þrjú þeirra. Fyrst skal nefna barna­mál­in sem Ásmund­ur Ein­ar hef­ur leitt. Með miklu sam­ráði við fag­fólk, not­end­ur þjón­ustu og aðstand­end­ur þeirra og lyk­ilfólk úr öðrum stjórn­mála­flokk­um tókst Ásmundi Ein­ari að breyta kerf­inu þannig að það snýst ekki leng­ur um sjálft sig held­ur um barnið sjálft.

Betra náms­lána­kerfi fyr­ir framtíðina

Næst vil ég nefna nýj­an Mennta­sjóð sem Lilja Dögg, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, kom á lagg­irn­ar en helstu breyt­ing­arn­ar í nýju náms­lána­kerfi fel­ast í því að höfuðstóll er lækkaður um 30% ef náms­fram­vinda er eðli­leg, náms­menn fá styrk vegna barna en ekki aukið lán og að hægt verður að nota náms­lána­kerfið til að hvetja með íviln­un­um til náms í ákveðnum grein­um eða hvetja sér­fræðinga til bú­setu í hinum dreifðari byggðum.

Fjöl­breytt­ar sam­göng­ur fyr­ir auk­in lífs­gæði

Að lok­um vil ég sér­stak­lega nefna sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þeir sem aka um göt­ur höfuðborg­ar­svæðis­ins taka eft­ir þeim miklu töf­um sem eru víða. Þær taf­ir eru að miklu leyti komn­ar til vegna þess mikla frosts sem ríkti í sam­skipt­um borg­ar­inn­ar og rík­is­ins þegar kom að sam­göng­um. Áhersl­ur þess­ara aðila voru gjör­ólík­ar. Eitt af fyrstu verk­um mín­um í sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðuneyt­inu var að kalla aðila sam­an að borðinu og vinna að sam­eig­in­legri sýn um fjöl­breytta upp­bygg­ingu sam­gangna á höfuðborg­ar­svæðinu: öfl­ugri stofn­leiðum, bætt­um al­menn­ings­sam­göng­um, göngu- og hjóla­stíg­um og bættri um­ferðar­stýr­ingu. Niðurstaðan er að á næstu fimmtán árum verður 120 millj­örðum króna varið til þess að greiða leið um höfuðborg­ar­svæðið.

Þau mál sem ég hef tæpt á hér sýna í hnot­skurn hverju er hægt að áorka ef leið sam­vinnu og sátta er val­in. Eng­ar bylt­ing­ar, held­ur mik­il­væg­ar um­bæt­ur til að auka lífs­gæði á land­inu okk­ar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021.