Einkaneysla hefur verið að dragast saman í samkomubanninu. Nauðsynlegt er að örva einkaneyslu til að búa til ný störf og verja þau. Öll þau viðskipti sem við eigum eru til þess fallin að auka einkaneyslu. Þess vegna hafa stjórnvöld ákveðið að taka höndum saman við atvinnulífið um að verja störf og auka verðmætasköpun með sérstöku kynningarátaki sem ber heitið: Íslenskt – gjörið svo vel. Þetta er jákvætt skref og hvetur okkur áfram í að búa til verðmæti.
Stjórnvöld eru af öllu sínu afli að styðja við samneysluna, meðal annars með því að efla heilbrigðis- og menntakerfin. Þessi grunnkerfi okkar hafa staðist stærsta álagspróf samfélaga í veröldinni. Annars vegar náðu heilbrigðisyfirvöld utan um COVID-19 veiruna með eftirtektarverðum árangri og hins vegar voru skólarnir áfram opnir og huguðu að velferð nemenda sinna. Það er afrek og við eigum að nota okkur þann árangur til að styrkja samfélagið okkar.
Greiðslujöfnuður þjóðarbúa þarf alltaf að vera sjálfbær, þ.e. að út- og innflutningur þurfa að vera í jafnvægi. Útflutningstekjur íslenska þjóðarbúsins hafa vaxið mikið síðustu ár, sem hefur skilað okkur fádæma góðri hreinni erlendri stöðu og miklum gjaldeyrisforða. Þessi hagfellda staða hefur orðið til meðal annars vegna vaxtar ferðaþjónustunnar, sem hefur búið til um helming allra nýrra starfa síðasta áratug. Nú reynir á að við hugsum út fyrir kassann og búum til útflutningsverðmæti. Ferðaþjónustan getur fengið vindinn í seglin ef við nýtum okkur þann árangur sem náðst hefur í sóttvörnum og tengjum saman vísindin og atvinnulífið. Þar eru tækifæri. Einn merkilegasti forseti Bandaríkjanna, Franklin D. Roosevelt, sagði í Kreppunni miklu: „Það eina sem er að óttast er óttinn sjálfur.“ Hlustum á þessa hvatningu og munum að gæfan er undir okkur komin!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.