Í störfum mínum sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hef ég lagt ríka áherslu á umferðaröryggi og hvatt stofnanir ráðuneytisins til að hafa öryggi ávallt í forgangi. Stefnan hefur skilað góðum árangri. Í mínum huga er alveg ljóst að hver króna sem fer til þess að auka umferðaröryggi okkar skilar sér margfalt, m.a. í fækkun slysa.
Umferðarslys eru hræðileg
Umferðarslys eru harmleikur en banaslys og alvarleg slys í umferðinni eru alltof mörg. Þau eru ekki aðeins hræðileg fyrir þá sem í þeim lenda og aðstandendur þeirra, heldur eru þau líka gríðarlega kostnaðarsöm fyrir samfélagið. Árlegur kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa og afleiðinga þeirra er nú talinn nema að meðaltali um 50 milljörðum króna á ári eða 14 krónum á hvern ekinn kílómetra, en væri mun hærri hefðu umferðaröryggisaðgerðir ekki verið í forgangi.
Langstærstur hluti þess kostnaðar er vegna umsýslu og tjónabóta tryggingafélaga, kostnaður heilbrigðiskerfis, Sjúkratrygginga Íslands, lífeyrissjóða, löggæslu og sjúkraflutninga o.fl. Þá er ótalinn tekjumissir þeirra sem í slysunum lenda og ástvina þeirra sem sjaldnast fæst bættur. Mesta tjónið verður á hinn bóginn aldrei metið til fjár en það er hinn mannlegi harmleikur sem slys hafa í för með sér.
Fækkum slysum
Í nýrri stefnu umferðaröryggisáætlunar 2023-2037 sem nú er í undirbúningi er allt kapp lagt á að auka umferðaröryggi og fækka slysum. Við forgangsröðun aðgerða verður byggt á niðurstöðum arðsemismats sem og slysaskýrslum síðustu ára sem sýna hvar þörfin er mest, slysakortinu sem sýnir verstu slysastaðina og könnunum á hegðun vegfarenda. Á þessum góða grunni tel ég að okkur muni takast að fækka slysum enn frekar með markvissum aðgerðum og fræðslu. Vil ég þar sérstaklega nefna árangur ungra ökumanna en með bættu ökunámi og fræðslu hefur slysum sem valdið er af ungum ökumönnum fækkað mikið.
Aðgerðir sem skila mikilli arðsemi
• Aðskilnaður akstursstefna á fjölförnustu vegköflunum til og frá höfuðborgarsvæðinu, Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Á Suðurlandsvegi hefur aðskilnaður fækkað slysum mikið og slysakostnaður á hvern ekinn kílómetra lækkað um 70%. Á Reykjanesbraut hefur aðgerðin skilað miklum árangri og nú er hafin vinna við aðskilnað akstursstefna á Vesturlandsvegi.
• Hringtorg skila bættu öryggi á hættulegum gatnamótum á Hringveginum. Vegrið og lagfæringar sem auka öryggi vegfarenda eru aðgerðir sem kosta ekki mikið en vega samanlagt þungt.
• Aukið hraðaeftirlit, þ.m.t meðalhraðaeftirlit, sem mun fækka hraðakstursbrotum og auka umferðaröryggi. Með því er hægt að ná þeim sem freistast til að gefa í um leið og þeir aka framhjá myndavél og halda að þeir sleppi ef þeir hægja á sér við næstu myndavél. Hafi þeir verið grunsamlega fljótir á milli véla er nokkuð ljóst að þeir hafa farið yfir leyfileg hraðamörk. Slíkt meðalhraðaeftirlit hefur gefið góða raun í nágrannalöndum okkar. Meðalhraði á Hringveginum hefur lækkað um 5 km/klst. frá 2004 en sú hraðalækkun er talin fækka banaslysum um allt að 40% samkvæmt erlendum mælingum.
• Fræðsla til ferðamanna og annarra erlendra ökumanna hefur haft marktæk áhrif og slysum fækkað þó ferðamannafjöldinn hafi aukist.
• Loks ber að nefna bílbeltanotkun ökumanna sem og farþega en því miður er bílbeltanotkun ábótavant, sérstaklega innanbæjar. Það verður seint of oft sagt að bílbeltin bjarga.
Á undanförnum árum hefur þeim fjölgað mikið sem nýta sér fjölbreytta ferðamáta samhliða því að göngu- og hjólastígum hefur fjölgað, sem er vel. Nýjum ferðamátum fylgja nýjar hættur sem krefjast þess að aðgát sé sýnd og fyllsta öryggis gætt. Við berum öll ábyrgð á eigin öryggi og það er brýnt að foreldrar fræði börn sín um ábyrgðina sem fylgir því að ferðast um á smáfarartækjum.
Nú í upphafi ferðasumars vil ég óska öllum vegfarendum fararheilla. Munum að við erum aldrei ein í umferðinni, sýnum aðgát, spennum belti og setjum hjálmana á höfuðið.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. júní 2021.