Nú þegar styttist í að jólin verði hringd inn er áhugavert að hugsa til tvennra síðustu jóla sem lituðust af jólabúbblum og sóttvarnarreglum vegna heimsfaraldurs. Sá veruleiki virkar nú eins og fjarlæg minning og landsmenn nú á fullu að undirbúa hefðbundin jól. Eitt af því sem fylgir okkur ávallt um jólin, óháð því hvernig árar, eru bókmenntir. Lestur góðrar bókar er orðinn órjúfanlegur hluti jólahaldsins á mörgum heimilum, enda fjöldi góðra titla sem skolast á náttborð landsmanna með hinu árlega jólabókaflóði.
Miðstöð íslenskra bókmennta lét nýlega gera könnun á viðhorfi þjóðarinnar til bóklestrar en niðurstöðurnar gefa sterkar vísbendingar um að lestur sé enn sem fyrr mikilvægur þáttur í lífi landsmanna og að viðhorf fólks sé jákvætt í garð bókmennta og lestrar. Þannig kom fram að 32% þjóðarinnar lesa einu sinni eða oftar á dag og að meðalfjöldi lesinna bóka var 2,4 bækur á mánuði í samanburði við 2,3 bækur að meðaltali í lestrarkönnun árið 2021.
Undanfarin ár hefur íslensk bókaútgáfa tekið hressilega við sér eftir umtalsvert samdráttarskeið. Sú þróun var óæskileg af mörgum ástæðum enda er bóklestur uppspretta þekkingar og færni, ekki síst barna. Það er óumdeilt að bóklestur eykur lesskilning og þjálfar greiningarhæfileika þeirra, einbeitingu og örvar ímyndunaraflið. Það að gefa huganum greiða leið að undraheimum bókanna er ferðalag sem gerir lífið skemmtilegra.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með þeirri kröftugu viðspyrnu sem hefur átt sér stað í íslenskri bókaútgáfu og sjá að allar þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa ráðist í á umliðnum árum séu að skila sér. Má þar nefna 25% endurgreiðslu vegna bókaútgáfu á íslensku, styrkingu listamannalauna, hærri höfundagreiðslur fyrir afnot á bókasöfnum, eflingu bókasafna og stofnun barna- og ungmennabókasjóðsins Auðar.
Þessar aðgerðir spretta ekki úr tóminu einu saman enda eru bókmenntir samofnar sögu okkar sem þjóðar og ekki að ástæðulausu að Íslendingar eru kallaðir bókaþjóð. Sérhver jól minna okkur á þessa staðreynd með svo hlýlegum hætti; þegar heimilisfólk er satt og sælt, ljúfir jólatónar óma og fjölskyldan kúrir með jólabók í hendi. Fyrir mér er þetta ómetanleg hátíðarstund.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegra jóla og hvet þá til þess að njóta alls þess frábæra sem bókmenntirnar hafa fram að færa þessi jólin. Allir ættu að geta tekið sér bók í hönd við hæfi um jólin og gert þau þannig enn hátíðlegri.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 20. desember 2022.