Dagurinn í dag er tileinkaður konum sem starfa í siglingum, við sjósókn eða sjávarútvegi. Er það í fyrsta sinn en Alþjóðasiglingamálastofnunin, IMO, hefur valið þennan dag til þess að vekja athygli á stöðu kvenna í siglingum.18. maí
verður framvegis helgaður þeim.
Hjá því verður ekki litið að jafnrétti er ein af grundvallarforsendum sjálfbærni til framtíðar. Alþjóða siglingamálastofnunin, IMO, hvetur aðildarríki sín til að fjölga konum í siglingum og vekja athygli á mikilvægi jafnréttis, fimmta heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna í siglingum og sjávarútvegi, sem á öllum öðrum sviðum. Einkunnarorð dagsins í dag eru: „Þjálfun, sýnileiki og viðurkenning; Brjótum niður múra starfsgreinanna.“
Í engri starfsstétt er jafnmikill kynjahalli og í sjómennsku. Örfáar konur hafa útskrifast úr skipstjórn eða vélstjórn. Einungis 1% skipstjórnarmenntaðra eru konur. Til samanburðar eru konur handhafar tæplega 12% flugskírteina. Af 2.542 sem hafa útskrifast af lokastigi vélstjórnar, eru sjö konur. Það er þó örlítið bjartara framundan, því nú eru 7% af nemum í skipstjórn konur. Skýringin á miklum mun á heildarlaunum kynjanna í sjávarbyggðum er ekki síst háar tekjur karla á sjó. Samkvæmt Hagstofu voru tæp 9% af þeim sem unnu við fiskveiðar konur. Þær voru aftur á móti 43% af þeim sem unnu við fiskvinnslu. Laun við landvinnslu eru brot af því sem fólk fær fyrir sambærilegt starf á sjó, þar sem ríkir jafnrétti og greitt er samkvæmt aflahlut.
Siglingar eiga sér árþúsunda langa sögu og eru nátengdar sögu lands og þjóðar. Margar konur voru meðal landsnámsmanna, Nægir að nefna Þuríði sundafylli og Auði djúpúðgu. Fram eftir öldum sóttu konur sjóinn og margar þeirra gátu sér gott orð, svo sem Þuríður formaður. En sagan gleymist hratt og með vélbátavæðingu fækkaði þeim höndum sem þurfti á sjó. Framlag kvenna fluttist inn á heimilin svo siglingar urðu í hugum flestra hefðbundið karlastarf. Það er þó að breytast hratt.
Í nútímasamfélagi hefur tæknivæðing leyst af hólmi mörg þau verkefni sem áður þörfnuðust vöðvaafls, ekki síður á sjó en á landi. Þá hafa orðið jákvæðar breytingar. Heimilið er sameiginlegur vettvangur og barnauppeldi er samfélagslegt verkefni. Kynjamúrar í starfsvali falla hver af öðrum og það hafa opnast fjölmargir möguleikar fyrir konur til að hasla sér völl í starfsstéttum sem áður voru nær einokaðar af körlum, þar með talið á sjó. Meðal nýrra möguleika mætti nefna skipstjórn og vélstjórn á skipum í ferðaþjónustu, á þjónustubátum í laxeldi, hafnsögu, við löggæslu á hafinu, á fiskiskipum eða við farmflutninga. Þá eru ótalin störfin sem eru að verða til vegna nýsköpunar í sjávarútvegi með fullvinnslu aflans, líka þess sem áður var hent og er nú ígildi gulls. Mörg tækifæri eru í sjávarbyggðum fyrir ungt, vel menntað fólk, sem vert er að vekja athygli á.
Markmið mitt með þessum skrifum er ekki hvað síst að beina athygli ungra kvenna að þeim fjölbreyttu starfsmöguleikum sem eru á sjó, hvort sem er við fiskveiðar, flutninga, rannsóknir eða nýsköpun tengda sjávarútvegi. Með fleiri og fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir konur, tryggjum við ekki einungis bætta stöðu kynjanna, heldur rennum sterkari stoðum undir sjávarbyggðirnar þar sem kynjahalli hefur verið viðvarandi vegna einhæfni starfa. Leiða má að því sterkar líkur að valdefling kvenna á öllum sviðum ýti undir blómlegt samfélag, ýti undir framleiðni og vöxt og gagnist öllum hagsmunaaðilum, hvort sem heima eða á alþjóðavettvangi. Við vitum að þau fyrirtæki, sem vinna að jafnrétti, skila betri afkomu og að fyrirtækjamenning verður betri. Ítrekað hefur verið sýnt fram á það að bestur árangur næst þar sem kynin standa hlið við hlið og vinna saman að markmiðum og árangri. Á það við í siglingum líkt og á öllum öðrum sviðum. Því höfum við í ráðuneyti mínu undanfarin ár leitað leiða til að hvetja konur til að hasla sér völl í siglingum og sjávarútvegi undir kjörorðunum; Fyrirmyndir, tækifæri og stuðningur. Árangur af því starfi er sýnilegur í umfjöllun um siglingar og sjávarútveg þar er sífellt oftar leitað í þekkingu sjókvenna.
Ég vil hvetja stofnanir og fyrirtæki sem hafa sjóinn að vettvangi til að brjóta hefðir og opna dyr sínar og skapa hvetjandi umhverfi þar sem konur njóta jafnræðis á við karla í störfum á sjó.
Sigurður Ingi Jóhannsson
Höfundur er iðnaðarráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. maí 2022