Vestnorræna deginum, sem haldinn er hátíðlegur 23. september ár hvert, voru gerð góð skil með veglegri dagskrá í Norræna húsinu á dögunum. Markmið dagsins er að styrkja og gera sýnilegt menningarsamstarf milli Færeyja, Grænlands og Íslands. Í ár var áherslan á menningu, sjálfsmynd og tungumál og hvernig við notum móðurmálið í skapandi aðstæðum.
Veigamikill þáttur í hátíðahöldum dagsins var að staldra við og fara yfir hvaða þýðingu vestnorræna samstarfið hefur. Það eru ákveðnir þættir sem tengja löndin saman sem öll hafa það sameiginlegt að vera eyríki sem nýta möguleika náttúrunnar um leið og þau takast af æðruleysi á við áskoranir sem henni fylgja. Íbúar vestnorrænu ríkjanna hafa allir móðurmál sem talað er af fámennum hópi fólks sem undirstrikar sérstöðu þeirra.
Söguleg og menningarleg tengsl
Það er mikilvægt sem aldrei fyrr að horfa inn á við og halda á lofti góðu og nánu samstarfi milli vestnorrænu ríkjanna. Samstarf þjóðanna er reist á sögulegum og menningarlegum tengslum ásamt sameiginlegum hagsmunum í efnahagsmálum og umhverfismálum. Vestnorræna ráðið hefur á liðnum árum lagt höfuðáherslu á umhverfismál, menningarmál, sjávarútvegsmál, samgöngur og viðskiptamál. Unnið hefur verið markvisst að því að efla stöðu Íslands sem tengipunkts á sviði samgöngu- og ferðamála á þessu svæði. Einnig hefur mikilvægi þess að efla tengsl við nágrannalönd vestnorrænu landanna í austri og vestri með uppbyggingu skipulagðrar svæðissamvinnu á Norðvestur-Atlantshafssvæðinu í huga sýnt sig að bera ávinning fyrir hlutaðeigandi aðila.
Aukið samstarf á ýmsum sviðum
Á undanförnum mánuðum, á tímum Covid-19, hefur komið í ljós hversu þýðingarmikið vestnorrænt samstarf er löndunum. Færeyjar voru meðal fyrstu landa til að opna á komur farþega frá Íslandi, sem var mikilvægt fyrsta skref í afnámi ferðahindrana milli Norðurlandaþjóðanna. Þegar að því kemur að við náum yfirhöndinni í baráttunni við þennan vágest ætti það að vera æskilegt fyrir löndin þrjú að vinna saman í að efla ferðamennsku á svæðinu. Það hefur sýnt sig að svæðið allt hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðafólk.
Þá hafa forsendur fyrir auknum flutningi á vörum og fólki aldrei verið betri meðal norrænu grannríkjanna í vestri. Nú sjást vörur frá Íslandi í hillum dagvöruverslana í Nuuk, í framhaldi af samstarfi Eimskips og Royal Arctic Line, þar sem félögin skipta með sér plássi í skipum sínum í siglingum á milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Skandinavíu. Þá verða nýju flugvellirnir þrír á Grænlandi ekki aðeins hagsbót fyrir Grænland og Grænlendinga heldur allt vestnorræna svæðið.
Á tímum sem þessum eru heilbrigðismál og geta heilbrigðiskerfa til að takast á við erfið verkefni og áföll ofarlega í huga okkar allra. Við vonumst eftir auknu vestnorrænu samstarfi um heilbrigðismál. Þá þarf að huga að hagsmunum ungs fólks á vestnorræna svæðinu. Vinna þarf betur að því að auka samstarf og samgang ungs fólks og þar skipta sköpum möguleg menntunarúrræði þvert á löndin.
Miðjan færist nær vestnorrænu samstarfi
Á síðasta ári í formennskutíð Íslands í Norrænu ráðherranefndinni var samþykkt ný stefnumörkun um þróun Atlantshafssamstarfsins, sem hefur hlotið yfirskriftina NAUST. Það felur í sér nánara samstarf milli Færeyja, Grænlands, Íslands og strandlengju Noregs frá Rogalandi til Finnmerkur. Hér er kominn vegvísir fyrir samstarfið í heild sinni og stuðlar að því að efla tengsl og samskipti á svæðinu. Stefnumörkunin er enn ein viðbótin við hið farsæla og mikilvæga vestnorræna samstarf og það er mikilvægt að leita leiða til að efla það enn frekar. En forgangsröðun verkefna innan ramma NAUST byggist á velferðar- og jafnréttismálum, málefnum hafsins og bláa hagkerfisins, orkumálum, samgöngum og björgun á sjó, sjálfbærni í ferðaþjónustu og menningarmálum. Því má segja að miðjan færist nær hinu vestnorræna samstarfi.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda og
Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2020.