Hönnun og arkitektúr snerta daglegt líf okkar á ótal vegu. Í vikunni heimsótti ég bæði Noreg og Danmörku ásamt fulltrúum íslensks atvinnulífs til þess að kynna mér hvernig bæði lönd hafa hlúð að og stutt við hönnun og arkitektúr. Þarlend stjórnvöld í góðu samstarfi við atvinnulíf hafa á undanförnum árum lagt aukna áherslu á að styðja við þessar greinar með það að markmiði að auka verðmætasköpun og lífsgæði með markvissum hætti.
Í Danmörku hefur til að mynda umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina farið vaxandi í dönsku hagkerfi undanfarin ár. Tugir þúsunda starfa innan skapandi greina þar í landi og hefur vöxtur í útflutningi greinanna verið um 4,8% árlega síðan 2011. Árið 2020 fóru útflutningsverðmæti skapandi greina yfir 14 milljarða evra en tískuvarningur er til að mynda fjórða stærsta útflutningsstoð Danmerkur. Dönsk stjórnvöld hafa lagt aukinn þunga í stefnumótun fyrir skapandi greinar með sérstökum sóknaráætlunum.
Það var einnig lærdómsríkt að heyra hvernig norsk stjórnvöld hafa séð tækifærin í að styðja við og efla hönnun til þess takast á við samfélagslegar áskoranir og auka lífsgæði. Lögð er áhersla á að fá hönnuði að borðinu strax í upphafi verkefna til þess bæta lokaútkomu verkefna, hvort sem um er að ræða í opinberri þjónustu eða annars staðar.
Með nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti verður skapandi greinum sem þessum gert hærra undir höfði enda tækifærin í slíku ótvíræð. Það er mikilvægt að auka skilning á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs fyrir þjóðfélagið og kynna íslenska hönnun og arkitektúr hér á landi og erlendis. Þar gegna bæði stjórnvöld og atvinnulíf mikilvægu hlutverki til þess að auka vægi hönnunar og arkitektúrs í verkefnum sínum og auka virði og gæði vöru og þjónustu sem framleidd er í landinu og leiða þannig til bættrar samkeppnisstöðu Íslands.
Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar eru þessar áherslur undirstrikaðar með afgerandi hætti. Gert er ráð fyrir að framlög til málefna hönnunar, þar með talið Hönnunarsjóðs og Hönnunarmiðstöðvar, og stofnunar og reksturs Rannsóknaseturs skapandi greina, hækki varanlega um samtals 75 milljónir króna frá og með 2023. Markmiðið með stofnun Rannsóknaseturs skapandi greina er að efla fræðilegar og hagnýtar rannsóknir í þeim ört vaxandi atvinnuvegi sem skapandi greinar eru. Slíkt eykur getu okkar til að ná árangri með markvissari hætti til framtíðar. Þá verður ný og metnaðarfull hönnunarstefna fyrir Ísland kynnt á næstu vikum sem mun varða leiðina fram á við til aukinna lífsgæða fyrir samfélagið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. apríl. 2022.