Categories
Greinar

Er Mosfellsbær að stuðla að betri heilsu bæjarbúa?

Deila grein

09/02/2024

Er Mosfellsbær að stuðla að betri heilsu bæjarbúa?

Góð heilsa er eitt af því dýrmætasta sem við eigum eða eins og spakmælið segir „Góð heilsa er gulli betri“.

Við berum mikla ábyrgð á eigin heilsu en það er ýmislegt í umhverfinu okkar sem getur ýtt undir að við verðum duglegri að leggja inn í heilsubankann. Það sem skiptir sköpum í því eru foreldrar, vinir, skólasamfélagið allt, íþrótta- og tómstundafélög og aðrir sem bjóða upp á almenna heilsurækt hvort sem hún er andleg, líkamleg eða félagsleg. Sveitarfélagið sjálft hefur líka mikil áhrif með því að hafa gott aðgengi að íþróttamannvirkjum, útivistarsvæðum, sundlaugum, göngu- og hjólreiðastígum, bjóða upp á fræðslu, hvatningu og leggja áherslu á það sem eykur heilsu og vellíðan íbúa.

Mosfellsbær er Heilsueflandi samfélag. Það þýðir að við leitumst við að allar ákvarðanir séu teknar með lýðheilsusjónarmið í huga.

Ákvarðanir sem stuðla að aukinni lýðheilsu

Í kjölfar stjórnsýsluúttektar hjá Mosfellsbæ sem var framkvæmd á síðasta ári var ákveðið að leggja enn meiri áherslu á menningu, íþróttir og lýðheilsu með því að búa til nýtt svið sem vinnur sérstaklega að þessum mikilvægu málum.

Við erum íþrótta- og lýðheilsubær. Við erum með þrjár íþróttamiðstöðvar sem iða af lífi alla daga vikunnar. Við rekum tvær sundlaugar sem eru opnar frá morgni til kvölds. Opnunartíminn hefur verið lengdur um 30 mín alla virka daga og það er ókeypis fyrir börn undir 15 ára og 67 ára og eldri.

Mosfellsbær býður upp á frístundaávísanir fyrir börn og eldra fólk. Fjárhæðir hafa verið hækkaðar og reglum breytt þannig að hægt er að nota ávísanirnar í styttri námskeið eða yfir sumartímann.

Nýlega var gerður samningur við Sporið um að leggja skíðagöngubrautir hér víðsvegar um bæinn sem hafa notið mikilla vinsælda. Þetta framtak stuðlar að útiveru og hreysti fyrir alla aldurshópa.

Íþróttasvæðið okkar að Varmá er mjög dýrmætt og mikilvægt að um það gildi skýr framtíðarsýn. Þess vegna hefur stýrihópur sem á að endurskoða framtíðarsýn fyrir svæðið hafið störf. Hlutverk hópsins er að kortleggja íþróttasvæðið að Varmá með tilliti til skipulagslegra þátta og þarfagreiningar vegna uppbyggingar til næstu 15 ára.

Fyrsti áfanginn, sem ljúka á 1. apríl, er endurskoðun þarfagreiningar vegna þjónustubyggingar og hópurinn mun að sjálfsögðu nýta þau gögn sem þegar hafa verið unnin. Seinni áfanginn er þá framtíðarsýn fyrir uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ og heildarsýn yfir uppbyggingu á Varmársvæðinu. Ég vænti mikils af starfi þessa hóps enda um mjög mikilvægt lýðheilsuverkefni að ræða sem skiptir fólk á öllum aldri hér í Mosfellsbæ máli.

Félag eldri borgara býður upp á mjög fjölbreytt íþrótta- og tómstundastarf sem ýtir heldur betur undir að fólki líði betur líkamlega sem og andlega. Maður getur hreinlega hlakkað til að eldast og fá að taka þátt í því fjölbreytta starfi.

Bærinn hefur tekið alfarið yfir rekstur félagsheimilisins okkar, Hlégarðs, og þannig stuðlum við að auknu menningarlífi fyrir íbúa en menning er mikilvægur hluti af lýðheilsu.

Við berum öll ábyrgð

Hér er aðeins stiklað á stóru en það eru fjölmörg verkefni og fjölmargir aðilar í Mosfellsbæ sem stuðla að aukinni lýðheilsu. Íþrótta- og tómstundafélög sem er stýrt af sjálfboðaliðum eru sérstaklega mikilvæg og þar eigum við Mosfellingar mikinn mannauð.

Það er nauðsynlegt að allir finni sér einhverja íþrótt eða tómstund sem ýtir undir að rækta líkama og sál en það sem skiptir líka miklu máli er hvað maður tileinkar sér og gerir dagsdaglega. Eins og að njóta útiveru, ganga í búðina, vera virkur heima við, fá nægan svefn, borða hollan mat, rækta garðinn sinn, moka snjó og ekki má gleyma að hugsa jákvætt.

Við lifum aðeins einu sinni og því þurfum við að vanda okkur og minna á að samfélagið okkar er betra með alla sem hraustasta, virkasta og glaðasta innanborðs.

Halla Karen Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 8. febrúar 2024.