„Ekki þarf neinum blöðum um það að fletta, að frá landsins hálfu eru skilyrði svo góð, sem hugsast getur, til þess að hingað ferðist fjöldi fólks á hverju einasta sumri. Hér er einkennileg og margháttuð náttúrufegurð, sem flestir hafa heillast af er hingað hafa komið. Íslendingar verða nú að fara að gera sér það ljóst, hvort þeir vilja að landið verði ferðamannaland eða ekki.“Þessi brýning var rituð í leiðara Morgunblaðsins 19. ágúst árið 1920 eða fyrir rúmum 100 árum.
Staðreyndin í dag er sú að ferðaþjónustan er einn af burðarásum í íslensku efnahagslífi.
Staða og horfur ferðaþjónustu
Hagvaxtarhorfur á Íslandi hafa verið að styrkjast og þjóðhagsspáin gerir ráð fyrir 5,9% hagvexti í ár. Eftir mikinn samdrátt í upphafi faraldursins er það ferðaþjónustan enn á ný sem drífur hagvöxtinn áfram. Í ár hafa 870 þúsund ferðamenn heimsótt landið og þá voru komur þeirra í júlímánuði fleiri en í sama mánuði árið 2019. Áfram er gert er ráð fyrir kröftugum bata ferðaþjónustunnar, útflutningstekjur haldi áfram að aukast og stuðli þannig að stöðugra gengi íslensku krónunnar. Bókunarstaða er almennt góð, bæði inn í haustið og fram á næsta sumar. Það eru vissulega áskoranir í haust og vetur sem snúa m.a. að verðlagshækkunum og verðbólgu bæði hér á landi og í helstu markaðslöndum okkar og hvaða áhrif það mun hafa á ferðagetu og ferðavilja fólks til lengri og skemmri tíma.
Ytri staða þjóðarbúsins sterk
Sjálfbær ytri staða þjóðarbúa skiptir höfuðmáli í hagstjórn. Þjóðríki verða að hafa viðskiptajöfnuðinn í jafnvægi til lengri tíma. Lykilbreytur eru okkar hagkerfi hagstæðar um þessi misseri. Hrein skuldastaða ríkissjóðs nemur 28,5% af landsframleiðslu, gjaldeyrisforðinn nemur um 25,5% og á sama tíma eru erlendar skuldir ríkissjóðs innan við 5%. Þetta er gjörbreytt staða frá því sem áður var. Gjaldeyrisforði þjóðarbúsins hefur vaxið verulega í kjölfar þess afgangs sem hefur verið á viðskiptajöfnuðinum í kjölfar vaxtar ferðaþjónustu ásamt því að aðrar lykilútflutningsgreinar hafa átt mjög góðu gengi að fagna. Gjaldeyrisforðinn var á bilinu 5-10% lengst af og oft skuldsettur.
Árið 2012 fór Seðlabankinn að kaupa gjaldeyri til að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisforða til að bæta viðnámsþrótt hagkerfisins. Gjaldeyrisforðinn jókst frá 2008-2012 en hann var skuldsettur með neyðarlánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndunum í kjölfar fjármálahrunsins. Alls ekki ákjósanleg staða. Viðmiðin sem Seðlabankinn notar við ákvörðun á lágmarksstærð forða byggjast á sögulegum forsendum, sem taka meðal annars mið af því að skapa trúverðugleika um peningastefnu og til að mæta öryggissjónarmiðum í utanríkisviðskiptum og horfa til þátta er varða fjármálastöðugleika og lánshæfi ríkissjóðs.
Straumhvörf í ytri jöfnuði vegna útflutnings á ferðaþjónustu
Ytri staða þjóðarbúsins stóð oft á tíðum tæpt. Fyrir tíu árum áttu sér stað straumhvörf á viðskiptajöfnuðinum með tilkomu sterkrar ferðaþjónustu. Fyrir lítið opið hagkerfi er nauðsynlegt að hafa styrkar útflutningsstoðir. Viðskiptaafgangurinn hefur einnig gert lífeyrissjóðum kleift að dreifa sparnaði félaga og byggja myndarlega sjóði erlendis. Á tímum kórónuveirunnar var hagfellt að vera með gjaldeyrisforða sem gat jafnað mestu sveiflur. Stefna stjórnvalda er að umgjörð hagkerfisins sé sem sterkust og stöðug til að Ísland sé samkeppnishæft um fólk og að það sé eftirsóknarverður staður sem ungt fólk kýs að dvelja á til framtíðar. Þjóðríki sem hafa miklar útflutningstekjur, stöndugan gjaldeyrisforða og góðan innlendan sparnað eru í mun sterkari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll og njóta betri lánskjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.
Stefnan og áskoranir í ferðaþjónustu
Eitt helsta forgangsverkefnið nú í nýju menningar- og viðskiptaráðuneyti er að móta nýja og öfluga aðgerðaáætlun á sviði ferðamála á grunni Framtíðarsýnar og leiðarljóss íslenskrar ferðaþjónustu til 2030. Þar er lögð áhersla á sjálfbærni á öllum sviðum. Mikilvægt er að leggja áherslu á ávinning heimamanna um allt land, í því sambandi er dreifing ferðamanna lykilatriði. Mikið er í húfi, t.a.m. betri nýting innviða, bætt búsetuskilyrði og lífsgæði heimamanna, betri rekstrar- og fjárfestingarskilyrði fyrirtækja og fjölbreyttara atvinnulíf um land allt. Greitt millilandaflug skiptir í þessu samhengi miklu máli og hafa ánægjulegar fréttir borist af því að undanförnu með stofnun flugfélagsins Niceair sem mun fljúga beint frá Akureyri og þýska flugfélagið Condor mun hefja vikulegt flug frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða frá maí til október á næsta ári. Það eru ýmsar áskoranir sem atvinnulífið og stjórnvöld þurfa að ráðast í í sameiningu til að styrkja innviði og umgjörð greinarinnar, meðal annars menntun og styrkja stöðu íslenskunnar í þessari atvinnugrein.
Lokaorð leiðarans góða frá árinu 1920 eru eftirfarandi: „Íslendingar þurfa einnig sjálfir að læra að meta betur land sitt og þá fegurð, sem það hefir að bjóða.“ Þarna hafa orðið miklar breytingar og hefur ásókn Íslendinga í að ferðast um sitt eigið land aukist mikið.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar
Greinin birtist fyrst á visir.is 27. ágúst 2022.