Styrkja þarf rannsóknarinnviði og efla allt vísindastarf til að tryggja enn frekar hágæða rannsóknarumhverfi á Íslandi. Því hefur ríkisstjórnin aukið fjármagn í samkeppnissjóði í rannsóknum. Með þessum fjárfestingum höfum við hækkað úthlutunarhlutfall Rannsóknarsjóðs um rúm 40% og því er úthlutunarhlutfallið 20%. Þetta nær til mannauðs, með auknum styrkjum og atvinnutækifærum. Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir verkefni þar sem ungir vísindamenn hafa fengið fyrstu kynni sín af þátttöku í vísindastarfi sem kveikt hefur áhuga til framtíðar. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur vaxið úr 55 milljónum í 455 milljónir í ár. Þetta er gert til að búa til ný tækifæri og virkja þekkingarsköpun.
Fyrirtækin í landinu hafa eflt nýsköpun og verið hreyfiafl framfara. Þess vegna var brýnt að hækka endurgreiðslur til þeirra upp í allt að 35% og þakið hækkað í 1.100 milljónir króna. Fyrirtækjarannsóknir eru verkefnamiðaðri og framleiða oft söluhæfar uppfinningar. Áhersla á þróun og nýsköpun skilar sér margfalt til samfélagsins. Starfsumhverfi fyrirtækja þarf að vera hvetjandi og þau þurfa að vera í stöðu til að fá öfluga einstaklinga til liðs við sig.
Ríkjum sem hafa markað sér skýra stefnu um að fjárfesta í hugviti, rannsóknum og nýsköpun vegnar vel. Við höfum alla burði til að auka verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti. Með því tryggjum við farsælan grunn að sterkara samfélagi.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.