Categories
Greinar

Fjárfesting í íslenskunni skilar mestum árangri

Deila grein

08/12/2023

Fjárfesting í íslenskunni skilar mestum árangri

Hraðar og um­fangs­mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar und­an­far­inna ára hafa fram­kallað áskor­an­ir af áður óþekkt­um stærðargráðum fyr­ir tungu­málið okk­ar, ís­lensk­una. Þannig hafa örar tækni-breyt­ing­ar til að mynda gjör­bylt því mál­um­hverfi sem börn al­ast upp í og ensk­an er nú alltumlykj­andi hvert sem litið er.

Birt­ing­ar­mynd­ir þess að tungu­málið okk­ar eigi und­ir högg að sækja geta verið með ýms­um hætti, nú síðast í þess­ari viku þegar niður­stöður úr alþjóðlegu PISA 2022-könn­un­inni voru kynnt­ar en hún mæl­ir hæfni 15 ára nem­enda í lesskiln­ingi, læsi á nátt­úru­vís­indi og læsi á stærðfræði. Niður­stöðurn­ar sýna verri ár­ang­ur nem­enda í þátt­töku­lönd­um miðað við fyrri kann­an­ir, m.a. alls staðar á Norður­lönd­um og er lækk­un­in meiri á Íslandi.

Náms­fram­vinda ræðst af ýms­um þátt­um. Góður námsorðaforði og hug­taka­skiln­ing­ur, álykt­un­ar­hæfni, færni í rök­hugs­un, ánægja af lestri og fjöl­breytni les­efn­is veg­ur mjög þungt í því að nem­end­ur nái tök­um á náms­efn­inu. Til að skilja vel og til­einka sér inni­hald náms­efn­is án aðstoðar þarf nem­andi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlut­fallið lækk­ar í 95% þurfa flest­ir nem­end­ur aðstoð, t.d. hjálp frá kenn­ara, sam­nem­end­um eða úr orðabók­um.

Margt gott hef­ur áunn­ist í mennta­mál­um og mál­efn­um tungu­máls­ins á und­an­förn­um árum; ný lög um mennt­un og hæfi kenn­ara og skóla­stjórn­enda urðu að veru­leika, ráðist var í um­fangs­mikl­ar aðgerðir til að fjölga kenn­ur­um með góðum ár­angri og stutt var við út­gáfu bóka á ís­lensku með mjög góðum ár­angri, þar sem aukn­ing­in hef­ur verið mest í flokki barna- og ung­menna­bóka. Á síðasta kjör­tíma­bili samþykkti Alþingi einnig þings­álykt­un um efl­ingu ís­lensk­unn­ar, sem fól í sér ýms­ar aðgerðir sem snúa að um­bót­um í mennta­kerf­inu sem flest­um er búið að hrinda í fram­kvæmd. Þá lagði ég sem mennta­málaráðherra til breyt­ingu á viðmiðun­ar­stunda­skrá grunn­skóla sem fól í sér að meiri tíma yrði varið í ís­lensku á yngri stig­um grunn­skóla og vægi nátt­úru­greina á ung­linga­stigi yrði einnig aukið í anda þess sem tíðkast ann­ars staðar á Norður­lönd­um. Því miður náðist ekki samstaða um þær breyt­ing­ar, sem ég tel þó annarr­ar messu virði að ræða.

Það er hins veg­ar ljóst að áhrif já­kvæðra breyt­inga líkt og þeirra sem nefnd­ar eru að ofan skila sér ekki á einni nóttu. Við verðum að taka nýj­ustu niður­stöðum úr PISA al­var­lega og gera enn bet­ur. Tungu­málið okk­ar verður að fá aukið vægi í víðu sam­hengi í þjóðfé­lag­inu. Í því ljósi kynnti ráðherra­nefnd um ís­lensku nýja aðgerðaáætl­un í liðinni viku til þess að styðja enn frek­ar við tungu­málið okk­ar. Það er sam­fé­lags­legt verk­efni sem all­ir þurfa að taka þátt í til að tryggja viðspyrnu tungu­máls­ins okk­ar til framtíðar. Vit­und og skiln­ing­ur á þessu hef­ur stór­auk­ist sem er já­kvætt, þó að enn sé mikið verk að vinna.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2023.