Hraðar og umfangsmiklar þjóðfélagsbreytingar undanfarinna ára hafa framkallað áskoranir af áður óþekktum stærðargráðum fyrir tungumálið okkar, íslenskuna. Þannig hafa örar tækni-breytingar til að mynda gjörbylt því málumhverfi sem börn alast upp í og enskan er nú alltumlykjandi hvert sem litið er.
Birtingarmyndir þess að tungumálið okkar eigi undir högg að sækja geta verið með ýmsum hætti, nú síðast í þessari viku þegar niðurstöður úr alþjóðlegu PISA 2022-könnuninni voru kynntar en hún mælir hæfni 15 ára nemenda í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Niðurstöðurnar sýna verri árangur nemenda í þátttökulöndum miðað við fyrri kannanir, m.a. alls staðar á Norðurlöndum og er lækkunin meiri á Íslandi.
Námsframvinda ræðst af ýmsum þáttum. Góður námsorðaforði og hugtakaskilningur, ályktunarhæfni, færni í rökhugsun, ánægja af lestri og fjölbreytni lesefnis vegur mjög þungt í því að nemendur nái tökum á námsefninu. Til að skilja vel og tileinka sér innihald námsefnis án aðstoðar þarf nemandi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlutfallið lækkar í 95% þurfa flestir nemendur aðstoð, t.d. hjálp frá kennara, samnemendum eða úr orðabókum.
Margt gott hefur áunnist í menntamálum og málefnum tungumálsins á undanförnum árum; ný lög um menntun og hæfi kennara og skólastjórnenda urðu að veruleika, ráðist var í umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga kennurum með góðum árangri og stutt var við útgáfu bóka á íslensku með mjög góðum árangri, þar sem aukningin hefur verið mest í flokki barna- og ungmennabóka. Á síðasta kjörtímabili samþykkti Alþingi einnig þingsályktun um eflingu íslenskunnar, sem fól í sér ýmsar aðgerðir sem snúa að umbótum í menntakerfinu sem flestum er búið að hrinda í framkvæmd. Þá lagði ég sem menntamálaráðherra til breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla sem fól í sér að meiri tíma yrði varið í íslensku á yngri stigum grunnskóla og vægi náttúrugreina á unglingastigi yrði einnig aukið í anda þess sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Því miður náðist ekki samstaða um þær breytingar, sem ég tel þó annarrar messu virði að ræða.
Það er hins vegar ljóst að áhrif jákvæðra breytinga líkt og þeirra sem nefndar eru að ofan skila sér ekki á einni nóttu. Við verðum að taka nýjustu niðurstöðum úr PISA alvarlega og gera enn betur. Tungumálið okkar verður að fá aukið vægi í víðu samhengi í þjóðfélaginu. Í því ljósi kynnti ráðherranefnd um íslensku nýja aðgerðaáætlun í liðinni viku til þess að styðja enn frekar við tungumálið okkar. Það er samfélagslegt verkefni sem allir þurfa að taka þátt í til að tryggja viðspyrnu tungumálsins okkar til framtíðar. Vitund og skilningur á þessu hefur stóraukist sem er jákvætt, þó að enn sé mikið verk að vinna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. desember 2023.