Þann 14. maí nk. verður kosið til sveitarstjórna í landinu. Í dag eru nærri 70 sveitarfélög í landinu, og þau eru grundvallareining í stjórnskipan landsins. Stjórnsýsla þeirra er mikilvæg í lýðræðislegri ákvörðun um grunnþjónustu í nærsamfélagi íbúa landsins. Það er því gríðarlega mikilvægt hverju sveitarfélagi að sveitastjórnin endurspegli sem best íbúasamsetningu þess.
Í núgildandi byggðaáætlun kemur fram mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna í sveitarstjórnum og að það þurfi að hvetja konur til þátttöku. Í aðgerðaráætlun með byggðaáætlun er lögð áhersla á þennan þátt með því að fara í fræðslu- og auglýsingaherferð með þetta að markmiði.
Hver er staðan?
Eftir síðustu sveitastjórnarkosningar var niðurstaðan ásættanleg því að 47% sveitarstjórnarfólks voru konur og hefur það aldrei verið hærra. Það er brýnt að viðhalda þeirri skiptingu í komandi kosningum.
Listar endurspegli fjölbreytni
Kvenréttindafélag Íslands, Innviðaráðuneytið, Fjölmenningasetrið og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa hrint á stað framtaki sem kallast Játak. Játak vekur athygli íbúa sveitarfélaga og þeim sem fara í forsvari til þess að huga að fjölbreytni og að standa vörð um rétt allra kynja og að komandi listar til framboðs í komandi sveitarfélögum spanni litróf mannlífsins í viðkomandi sveitarfélagi. Einnig þarf að huga að dreifingu fulltrúa í fjölkjarnasveitarfélögum.
Við erum svo heppin að mannlífið er fjölbreytt um allt land. Til þess að nýta kraftinn og sköpunargleðina sem felst í því þarf að tryggja það að þessi atriði skila sér að ákvarðanatöku innan stjórnsýslu sveitarfélagsins. Ef þess er ekki gætt fer fljótt að gæta togstreitu mismunandi skoðana og hætt er á að samkeppnisstaða samfélagsins verði ekki eins kröftug og ella. Það er jú vilji allra sveitarfélaga að fólk vilji og geti þrifist í samfélaginu.
Af hverju að taka þátt?
Viltu hafa áhrif á samfélagið þitt? Hefur þú hugmyndir og sýn um uppbyggingu og tækifæri sveitafélagsins? Sveitarstjórnir og nefndir þess eru einmitt vettvangurinn til þess. Það fylgir því mikil ábyrgð að taka þátt í stjórnmálum, en það getur líka verið ótrúlega gaman.
Ef þú hefur áhuga þá hvetjum við þig til að íhuga framboð.
Ef þú situr í uppstillinganefnd eða hyggst kjósa í prófkjöri þá hvetjum við þig til að huga að fjölbreytni á lista.
Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, eru þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi
Greinin birtist í Bæjarins besta 2. febrúar 2022.