Categories
Greinar

Framfarir í flugmálum

Deila grein

02/03/2022

Framfarir í flugmálum

Stundum er sagt að flugsamgöngur séu lestarsamgöngur okkar Íslendinga. Það gefur auga leið að með flugi styttist ferðatími milli áfangastaða og með greiðari aðgengi að flugi styttist ferðatíminn enn meira. Því var sérlega ánægjulegt þegar fregnir bárust af ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur ferðamálaráðherra um að verja 40 milljónum króna til Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar til þess að efla kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum sem alþjóðaflugvöllum og setja aukinn slagkraft í markaðssetningu á Norður- og Austurlandi sem vænlegum áfangastöðum með beinu millilandaflugi. Í þessu eru fólgin mikilvæg skilaboð um stefnu stjórnvalda í ferðaþjónustu; hana skal efla um allt land.

Hluti af nútímasamfélagi

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir atvinnuþróun á svæðunum og ekki síður íbúa þeirra. Beint millilandaflug er ein skilvirkasta leiðin við að dreifa ferðamönnum betur um landið. Því má líkja við vítamínsprautu fyrir svæðisbundna ferðaþjónustu, meðal annars með betri nýtingu innviða utan háannatíma. Að sama skapi breytir miklu máli fyrir íbúa svæðanna að geta flogið beint úr heimabyggð í stað þess að ferðast í fjölda klukkustunda á alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. Í nútímasamfélagi er það hluti af lífsgæðum að eiga kost á greiðum samgöngum til útlanda – hvort sem er í leik eða starfi.

Aðgerðir og árangur

Undanfarin ár hefur gangskör verið gerð í flugmálum og er fyrrnefndur stuðningur við flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum liður í því. Þannig kynnti Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra fyrstu flugstefnuna fyrir Ísland – en hún gildir til ársins 2034. Með henni var lögð fram heildstæð stefna í flugmálum, sem hafist hefur verið handa við að hrinda í framkvæmd. Má þar meðal annars nefna Loftbrúna, sem notið hefur mikilla vinsælda. Með henni eiga íbúar á landsbyggðinni sem búa fjarri höfuðborginni kost á lægri flugfargjöldum. Loftbrú veitir 40% afslátt af heildarfargjaldi fyrir allar áætlunarleiðir innanlands til og frá höfuðborgarsvæðinu, þrjár ferðir á ári. Innviðir hafa einnig verið bættir en fjármagn var tryggt í stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, meðal annars með millilandaflug í huga, en framkvæmdum mun ljúka árið 2023. Endurbætur hafa einnig átt sér stað á Egilsstaðaflugvelli, en árið 2021 var nýtt malbik lagt á flugbrautina og unnið er að tillögum um stækkun flughlaðs og lagningu akbrauta. Einnig hefur flugþróunarsjóður verið starfræktur til þess að styðja flugfélög í að þróa og markaðssetja bein flug til Akureyrar og Egilsstaða. Allt þetta skiptir máli.

Nýverið bárust gleðitíðindi um stofnun flugfélagsins Niceair, sem mun hefja beint áætlunarflug frá Akureyri til útlanda í sumar. Bætist það við félagið Voigt Travel sem einnig er á markaðnum.

Áfram veginn

Það eru fjölmörg tækifæri fólgin í ferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi rétt eins og fjölmargir Íslendingar hafa kynnst á ferðalögum sínum um landið undanfarin tvö sumur. Gæði gisti- og veitingastaða, innviði og afþreying hafa aukist og eru eitthvað sem við getum verið stolt af. Þessum gæðum viljum við deila með erlendum gestum og breiða út fagnaðarerindinu. Að sama skapi hlakka ég sem íbúi til þess að geta bókað mér flug úr kjördæminu til útlanda og njóta þess hægðarauka sem því fylgir. Ég er því bjartsýn á framtíð innlendrar sem og erlendrar ferðaþjónustu í kjördæminu okkar og er sannfærð um að hún muni vaxa vel og dafna.

Ingibjörg Isaksen, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 2. mars 2022.