Áhverju ári kemur fram ný tækni sem auðveldar okkur lífið og við verðum að vera dugleg að nýta okkur hana og tileinka. Sífellt fleiri möguleikar opnast með rafrænum lausnum og mikilvægt er að ríkið sé tilbúið að innleiða þær í sitt verklag. Rafrænar vefgáttir hafa verið að ryðja sér til rúms í auknum mæli, enda eru þær til þess fallnar að spara tíma, tryggja betra aðgengi almennings að gögnum ásamt því að auka skilvirkni og aðhald í vinnubrögðum.
Mikilvægt er að við nýtum kosti rafrænnar þjónustu til hins ýtrasta. Því hef ég lagt fram þingsályktunartillögu um samræmda vefgátt leyfisveitinga og einföldun á ferli við undirbúning framkvæmda. Í slíkri gátt mætti finna öll gögn í málsmeðferð vegna leyfisveitinga framkvæmda og nauðsynlegra undanfara hennar. Með gáttinni væri ferli leyfisveitinga auðveldað til muna, en málsmeðferð þeirra og mat á umhverfisáhrifum er flókið, tímafrekt og óskilvirkt ferli í núverandi mynd.
Einföldum ferlið
Með rafrænni þjónustu geta ólíkar stofnanir unnið í sömu gátt og með því tryggt greiðara flæði gagna milli málsmeðferða. Með rafrænni gátt og breyttu verklagi má einfalda ferlið til muna.
Talsvert er um tvíverknað í kerfinu. Sömu gögn eru ítrekað lögð fram og aðilar þurfa oft að koma að sama máli. Umsagnar- og kynningarferli tekur mikinn tíma og þá er ógagnsæið töluvert. Einnig er aðgengi að gögnum erfitt sem gerir það torvelt að fylgja málum eftir. Nokkur árangur náðist við að gera ferla tengda umhverfismati markvissari með setningu nýrra laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, en mikilvægt er að ganga enn lengra í samþættingu og einföldun á öllum ferlum.
Gagna- og samráðsgátt mikilvægt skref en ekki nóg
Hér ber að nefna að ákveðið var að koma upp gagna- og samráðsgátt sem Skipulagsstofnun á að starfrækja. Hún á að taka til skipulags, umhverfismats og framkvæmdaleyfis. Skipulagsgáttin sem unnið er að mun fela í sér veigamikla breytingu varðandi aðgengi að upplýsingum og skilvirkni skipulagsferla. Hún mun líka vera hvati til samræmdra vinnubragða.
Hér þarf hins vegar að hafa í huga að ferli framkvæmda tekur til mun fleiri þátta en þessara og því mikilvægt að samráðsgátt taki til allra ferla frá upphafi til enda. Hér er vísað til þess að margar framkvæmdir, eins og auðlindanýting ýmiss konar, hefjast á ferli rannsókna og gagnasöfnunar sem háð er umsóknum, leyfum, gagnaskilum, upplýsingagjöf o.fl. til opinberra aðila, sem koma svo aftur inn í aðra ferla síðar í framkvæmdaferlinu.
Því er mikilvægt að gagna- og samráðsgátt sé ekki bundin við Skipulagsstofnun heldur ætti hún að standa utan stofnana ef svo má segja, og að allar hlutaðeigandi stofnanir sem koma að hverri og einni framkvæmd, frá upphafi til enda hennar, hafi aðgang að gáttinni.
Stígum inn í nútímann
Þeir sem þekkja til við ferlið hafa líkt því við Ástrík og þrautirnar tólf. Með öll þau tækifæri sem eru til staðar árið 2022 er það ekki boðlegt. Ávinningur af samræmdri vefgátt er augljós og því er mikilvægt að stuðla að framþróun í takt við breytta tíma og bætta tækni.
Ingibjörg Isaksen
Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar og fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. maí 2022.