Í haust verða göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar vígð. Þar eygjum við gríðarlega samgöngubót á Vestfjörðum. Heilsárssamgöngur milli norður- og suðursvæðis eru að verða að veruleika. Vegagerðin hefur boðið út tvo fyrstu kaflana í endurnýjun vegarins um Dynjandisheiði, samtals um tíu kílómetra langa. Vegur var lagður yfir heiðina fyrir 61 ári og hefur það verið þrekvirki á sínum tíma, vegurinn hefur líka notið friðhelgi síðan. Það má líka kalla það þrekvirki Vestfirðinga að mega bíða eftir samgöngubótum á þessu svæði í svo langan tíma, svo ekki sé talað um samgöngubætur á suðurfjörðum og suður í Dali. Dynjandisheiðin er löng en fremur snjólétt miðað við vestfirskar heiðar og með bættum vegi ætti ekki að vera erfitt að þjónusta heiðina yfir vetrartímann á vestfirskan mælikvarða.
Nú hefur Vegagerðin sett í útboð 10 km kafla á Dynjandisheiðinni sem eru tveir kaflar við heiðarsporð hvorum megin; annars vegar fyrir Meðalnesið og svo upp frá Vatnsfirði upp á heiðina að sunnanverðu. Verkin hæfust í haust og ætti að vera lokið fyrir lok næsta árs og verður unnið svo áfram með uppbyggingu heiðarinnar sem skipulag og hönnun vegarins leyfir. Hver áfangi er mikilvægur og þótt við vildum sjá hraðari framvindu þá er verkið hafið og það er fyrir mestu. Uppbygging vegarins bætir einnig aðstæður til vetrarþjónustu og því mikilvægt að leiðinni frá heiðinni niður Arnarfjörðinn til Bíldudals verði hraðað enda miklir flutningar frá Bíldudal og suður vegna fiskeldisins.
Vetrarþjónusta fimm daga vikunnar
Vetrarþjónusta á Dynjandisheiði hefur fylgt G-reglu Vegagerðarinnar. Þessi regla endurspeglar þá órjúfanlegu leið sem þær systur Dynjandis- og Hrafnseyrarheiðar byggðu. Aðstæður á Hrafnseyrarheiðinni hafa stýrt þessari reglu, eðlilega. Nú skilur leiðir þessara fjallvega og hinn erfiði fjallvegur yfir Hrafnseyrarheiðina verður ekki til staðar eftir opnun ganga. Vegagerðin hefur þegar ráðgert að halda uppi þjónustu fimm daga vikunnar í vetur eins og mögulegt er. Vetrarþjónusta er nauðsynleg og auka þarf þjónustuna strax til að fá reynslu af því hvernig eigi að festa hana í sessi í framtíðinni. Öryggi vegfarenda er höfð að leiðarljósi við framkvæmdir og þjónustu á vegum landsins, því er góð vetrarþjónusta lykilatriði fyrir þá samfélagsmynd sem ríkir.
Halla Signý Kristjásdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2020.