Við leggjum mikla áherslu á að auka og bæta læsi, sérstaklega hjá börnum og ungmennum. Lestrarfærni er lykill að lífsgæðum og raunar grundvöllur að flestu öðru námi. Við vitum líka að lestur er ein flóknasta hugræna aðgerðin sem börn þurfa að ná tökum á í skólanum. Þekking á grunnþáttum læsis og hvaða viðfangsefni eru best til þess að efla lestrarfærni hefur aukist mjög og hafa rannsóknir á því sviði leitt til framfara í lestrarkennslu, ekki síst fyrir börn sem glíma við lestrarerfiðleika.
Á dögunum var haldin fróðleg ráðstefna á vegum Rannsóknarstofu um þroska, mál og læsi sem skipulögð var til heiðurs dr. Hrafnhildi Ragnarsdóttur sem er einn merkasti fræðimaður okkar og kennari á sviði þroska- og málvísinda. Annar aðalfyrirlesara ráðstefnunnar var Vibeke Gröver, prófessor og fyrrum forseti Menntavísindasviðs Oslóar-háskóla en hún kynnti meðal annars merkilega rannsókn sína á tengslum orðaforða og lesskilnings. Að sögn Gröver er hægt að sjá marktækar framfarir í orðaforða, frásagnarhæfni og skilningi á sjónarhornum annarra með ákveðnum aðferðum og inngripi. Allt eru þetta algerir undirstöðuþættir lesskilnings. Þessar niðurstöður eiga erindi við alla foreldra barna sem vinna að því að auka lestrarfærni sína. Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna, ekki síst þegar kemur að tungumálinu og hvernig við notum það. Góður orðaforði gagnast vel í námi og hann er auðvelt að auka. Það er gömul saga og ný að orð eru til alls fyrst.
Hinn aðalfyrirlesarinn á ráðstefnunni var dr. Catherine Snow, prófessor við Harvard háskóla. Hún er meðal virtustu fræðimanna heims á sviði málþroska og læsis og hefur stýrt tímamótarannsóknum á læsi og lesskilningi barna og ungmenna sem orðið hafa leiðarljós í stefnumótun á öllum skólastigum í Bandaríkjunum. Í sínu erindi ræddi hún mikilvægi samræðunnar fyrir þróun lesskilnings og orðaforða og nefndi að ein árangursríkasta leiðin til þess að auka þá færni væri að virkja nemendur í umræðum um alvöru málefni í skólastofunni.
Menntarannsóknir á borð við þær sem kynntar voru á fyrrgreindri ráðstefnu eru samfélaginu afar mikilvægar. Í sínu stóra samhengi styðja þær við stefnumótun og áherslur við mótun menntakerfa og þar með samfélaga. Við stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum um þessar mundir og ég tel mikilvægt að íslenskt menntakerfi sé hreyfiafl breytinga og framfara til framtíðar. Forsenda þess að verða virkur þátttakandi í lýðræðisþjóðfélagi er góð lestrarfærni; að geta lesið, skrifað og gert grein fyrir skoðunum sínum með hjálp ólíkra miðla. Það er samfélagslegt verkefni að bæta læsi og lestrarfærni á Íslandi, þar höfum við allt að vinna.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2018.