Categories
Greinar

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Deila grein

03/09/2018

Samgöngur – úrbætur í sjónmáli

Góðar og greiðar samgöngur eru undirstaða hagvaxtar og velmegunar þjóðfélaga. Ríkisstjórnin ætlar á næstu árum að bæta enn við þau fjárframlög til vegaframkvæmda og veitir ekki af og taka á uppsöfnuðum vanda hringinn í kringum landið. Áherslan er á umferðaröryggi því eitt slys er einu slysi of mikið.

Slitnir vegir

Vegakerfi okkar samfélags er yfir 12 þúsund kílómetrar að lengd. Umferð hefur stóraukist, ekki síst vegna komu ferðamanna sem flestir fara út á vegina yfir sumarið. Árið 2010 kom hingað um hálf milljón ferðamanna, sjö árum seinna voru þeir 2,2 milljónir. Á síðustu tíu árum hefur umferðin aukist um 30% á hringveginum. Á sama tíma hefur vegakerfið liðið fyrir stórfelldan niðurskurð fjármuna. Það er því víða laskað og þörf á viðhaldi og þjónustu afar aðkallandi.

Fækkum slysum

Við eigum ekki að sætta okkur við að banaslys sé eðlilegur hluti af samgöngukerfinu. Fyrir utan mannlegan harmleik sem umferðarslys valda hleypur kostnaður þeirra á tugum milljarða. Í nýrri samgönguáætlun verður forgangsraðað í þágu öryggis og viðhalds þar sem metnaðarfull og skilvirk markmið verða sett um öryggi samgangna og gerðar skilvirkar öryggisáætlanir fyrir samgöngur á landi, á sjó og í lofti. Framtíðarmarkmiðið er að lágmarka og draga úr alvarleika umferðarslysa.

Auknir fjármunir

Umferðaröryggi verður að tryggja sem best og hefur auknu fjármagni verið veitt til ýmissa úrbóta til að flýta vegabótum. Fjármagn til viðhalds og lagfæringa á vegum var 5,5 milljarðar 2016 og í ár er það 12 milljarðar. Auknir fjármunir hafa verið settir í vegaþjónustu og viðhald víðsvegar um landið. Fyrr í sumar var fjórum milljörðum bætt við gildandi áætlun þessa árs til að verja vegakerfið fyrir frekari skemmdum í kjölfar stóraukins umferðarþunga. Þá er í fjármálaáætlun gert ráð fyrir sérstöku 5,5 milljarða árlegu framlagi sem bætist við til næstu þriggja ára. Í heildina er gert ráð fyrir að 160 milljörðum verði varið í viðhald og framkvæmdir í vegakerfinu á næstu 5 árum (2019-2023). Viðhald á vegakerfinu hefur aldrei verið meira en nú. Við forgangsröðun fjármuna verður litið til ólíkrar stöðu svæða, ferðaþjónustu og öryggissjónarmiða. Slík vinna stendur nú sem hæst og mun birtast í samgönguáætlun sem verður lögð fram á Alþingi nú í haust.

Framkvæmdir á Suðurlandi

Sunnlendingar finna verulega fyrir aukinni umferð enda er fjölmargar náttúruperlur og sögustaði að finna í fjórðungnum. Meðal framkvæmda í sumar er styrking, breikkun og sementsfestun á kafla Laugarvatnsvegar, sementsfestun á Biskupstungnabraut, brú yfir Fullsæl og vegtenging brúar (Biskupstungnabraut-Reykjavegur og Laugarvatnsvegur), endursteypa á gólfi brúar yfir Ölfusá, miklar framkvæmdir við Suðurlandsveg, undirgöng og nærliggjandi vegtengingar milli Selfoss og Hveragerðis, svo eitthvað sé nefnt. Austar í fjórðungnum má nefna nýjar brýr yfir Brunná, Stigá, Hverfisfljót, Hólá og Kvíá sem og byrjun framkvæmda við Hornafjarðarfljót en í sumar stendur til við að ljúka vegtengingu við Hólm. Að lokum má nefna vegtengingu við gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs á Kirkjubæjarklaustri.

Framkvæmdalistinn er ekki tæmandi, en gefur engu að síður sterklega til kynna áherslu ríkisstjórnarinnar að bæta skuli samgöngukerfi landsins og þar með umferðaröryggi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingsmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst í Suðra 30. ágúst 2018.