Frumvarp félags- og barnamálaráðherra um hlutdeildarlán hefur legið til samþykktar þessa dagana á Alþingi í þingstubbi. Um er að ræða nýjan lánaflokk til kaupa á húsnæði. Hlutdeildarlánin eru tegund lána sem veitt eru með þeim skilmálum að lánað er til tiltekins hlutfalls af verði íbúðarhúsnæðis við fasteignakaup.
Þetta frumvarp er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og lífskjarasamninga á almennum vinnumarkaði frá liðnu ári. Hlutdeildarlánunum er ætlað að bæta stöðu ungra sem og tekjulágra einstaklinga á húsnæðismarkaði að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig getur þessi markhópur brúað kröfur um eigið fé til íbúðarkaupa.
Einnig ættu þau að nýtast þeim sem hafa misst húsnæðið sitt og hafa ekki verið í eigin húsnæði í a.m.k. fimm ár. Hlutdeildarlánin skapa einnig aukinn hvata fyrir byggingaraðila til að byggja hagkvæmt íbúðarhúsnæði sem hentar tekjulægri hópum samfélagsins.
Hafa gefið góða raun
Hugmyndin að hlutdeildarlánum er fengin frá Skotlandi, en þar hafa þau gefið góða raun og leitt til aukins framboðs af hagkvæmu húsnæði. Reynsla Skota sýnir einnig að uppbygging hefur aukist í dreifbýlinu, sem væri jákvæð þróun í rétta átt hér á landi. Það er töluvert dýrara að festa kaup í nýbyggingum úti á landi í stað eldra húsnæðis á sama svæði, enda ríkir markaðsbrestur á fasteignamarkaði úti á landi.
Með því að beina hlutdeildarlánum að hagkvæmum nýbyggingum, skapast aukinn hvati til þess að byggja í hinum dreifðu byggðum.
Sveigjanleikinn í fyrirrúmi
Gagnrýni á úrræðið hefur ekki síst snúið að því að fjármálastofnanir hafa verið tregar til að lána fyrir íbúðarkaupum á köldum svæðum. Önnur úrræði sem félags- og barnamálaráðherra hefur ráðist í á landsbyggðinni svara þeirri gagnrýni málefnalega. Sérstakur lánaflokkur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, bæði til íbúðarkaupa og framkvæmda, hefur nú þegar nýst í Blönduósbæ, Dalabyggð, Akureyrarbæ, Norðurþingi, Súðarvíkurhreppi, Borgarbyggð, Árborg og Ísafjarðarbæ. Fjöldi annarra slíkra verkefna eru í pípunum.
Undirrituð hefur verið framsögumaður málsins í velferðarnefnd Alþingis, og hefur málið tekið jákvæðum breytingum í umfjöllun nefndarinnar. Má þar m.a. nefna veitingu hlutdeildarlána til kaupa á hagkvæmum íbúðum í eldra húsnæði á landsbyggðinni ásamt húsnæðis sem hefur verið breytt í íbúðir sem áður hýsti atvinnustarfsemi og hlotið hefur gagngerar endurbætur, enda sé ástand þeirra þannig að jafna megi til nýrrar íbúðar. Auk þess hefur verið fallið frá því að leggja vexti á hlutdeildarlánin á lánstímanum en hlutdeildin héldi sér á fasteignaverði húsnæðisins.
Það er ljóst að ekki gilda sömu viðmið um fasteignarmarkað á stór-höfuðborgarsvæðinu og á köldum svæðum. Sveigjanleiki í kerfinu verður að vera til staðar til að koma til móts við sérstakar aðstæður þar. Lykillinn að góðri niðurstöðu í húsnæðismálum er samvinna milli Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sveitarfélaga, byggingarfyrirtækja og fjármálastofnana. Með góðu samtali næst viðunandi jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á húsnæðismarkaði og á sama tíma eykur það möguleika tekjulágra að eignast eigið húsnæði.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 3. september 2020.