Categories
Greinar

Hugrekki stýrir för

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Deila grein

14/12/2020

Hugrekki stýrir för

Óvæntar aðstæður eru stundum ógnvekjandi. Þær bera með sér áskoranir, sem við getum valið að taka eða hafna. Við slíkar aðstæður sést úr hverju stjórnmálamenn eru gerðir – hvort þeir takast á við aðsteðjandi vanda með kreppta hnefana og hugann opinn, eða hræðast og láta kylfu ráða kasti.

Frá því Covid-faraldurinn skall á Íslandi í mars hefur reynt á hugrekki okkar allra. Vilja okkar til að mæta ógninni sem steðjar að samfélaginu; heilbrigðis- og hagkerfinu, menntun og menningu, börnum og ungmennum. Það krefst áræðis að hugsa í lausnum og ráðast í fordæmalausar og kostnaðarsamar aðgerðir, en einmitt þá er hugrekkið mikilvægast. Það smitar út frá sér og sameinar fólk.

Kórónuveirukreppan er um margt lík Kreppunni miklu. Árið 1929 reyndi hún mjög á stjórnmálamenn og -kerfi þess tíma. Atvinnuleysi varð sögulega mikið og í tilraun til að skilja aðstæður mótaði John M. Keynes þá kenningu sína, að í kreppum ættu stjórnvöld að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum; ráðast í framkvæmdir og halda opinberri þjónustu gangandi, jafnvel þótt tímabundið væri eytt um efni fram. Skuldsetning ríkissjóðs væri réttlætanleg til að tryggja umsvif í hagkerfinu, þar til það yrði sjálfbært að nýju. Kenningin var í algjörri andstöðu við ríkjandi skoðun á sínum tíma, en hefur elst vel og víðast hvar hafa stjórnvöld stuðst við hana í viðleitni sinni til að lágmarka efnahagsáhrif kórónuveirunnar.

Á Íslandi ákváðu stjórnvöld að verja grunnkerfi ríkisins og tryggja afkomu þeirra sem tóku á sig þyngstu byrðarnar. Miklum fjármunum hefur verið varið til heilbrigðismála, fjárfestinga í menntun og atvinnuleysistryggingakerfisins. Hlutabótaleiðin er í mörgum tilvikum forsenda þess að ráðningarsamband hefur haldist milli vinnuveitanda og starfsmanns. Ríkið hefur líka fjárfest í innviðum og m.a. ráðist í auknar vegaframkvæmdir.

Aðgerðirnar lita að sjálfsögðu afkomu ríkissjóðs og nemur umfang þeirra um 10% af landsframleiðslu. Það bendir til ákveðnari inngripa hér en víða annars staðar, því þróuð ríki hafa að meðaltali ráðist í beinar aðgerðir sem jafngilda rúmum 8% af landsframleiðslu.

Stjórnvöld sýna hugrekki í þeirri baráttu að lágmarka efnahagssamdráttinn, vernda samfélagið og mynda efnahagslega loftbrú þar til þjóðin verður bólusett. Það er skylda okkar að styðja við þá sem hafa misst vinnuna, bæta tímabundið tekjutap og koma atvinnulífinu til bjargar.

Sjálfbær ríkissjóður eykur farsæld

Staða ríkissjóðs Íslands í upphafi faraldursins var einstök. Skuldir voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, en til samanburðar voru skuldir ríkissjóðs Bandaríkjanna um 100%. Góður og traustur rekstur hins opinbera undanfarin ár hefur þannig reynst mikil þjóðargæfa, enda býr hann til svigrúmið sem þarf þegar illa árar. Viðvarandi hallarekstur er hins vegar óhugsandi og því er brýnt að ríkissjóður verði sjálfbær, greiði niður skuldir og safni í sjóði að nýju um leið og efnahagskerfið tekur við sér. Þá mun líka reyna á hugrekki stjórnvalda, að skrúfa fyrir útstreymi fjármagns til að tryggja stöðugleika um leið og atvinnulífið þarf að grípa boltann.

Íslenska hagkerfið hefur alla burði til að ná góðri stöðu að nýju. Landið er ríkt að auðlindum og við höfum fjárfest ríkulega í hugverkadrifnum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná aftur fyrri stöðu í ríkisfjármálum, en fyrst þarf að gefa vel inn og komast upp brekkuna fram undan.

Markmið ríkisstjórnarinnar hafa náðst að stórum hluta. Heilbrigðis- og menntakerfið hefur staðist prófið og ýmsar hagtölur þróast betur en óttast var. Á þriðja ársfjórðungi var einkaneysla t.d. meiri en víðast hvar þrátt fyrir sögulegan samdrátt. Auknar opinberar fjárfestingar ríkisins og aukin samneysla hafa gefið hagkerfinu nauðsynlegt súrefni. Nú ríður á, að við höfum hugrekki til að klára vegferðina sem mun að lokum skila okkur öruggum í höfn. Þótt hugrekki snerti bæði áræði og ótta er þessum tengslum ólíkt háttað. Án hugrekkis fetum við aldrei ótroðna slóð. Án ótta gerum við líklega eitt og annað heimskulegt. Leitin að jafnvæginu milli þessara tveggja póla er viðvarandi, sameiginlegt verkefni okkar allra.

Eftir Sigurð Inga Jóhannsson, Lilju D. Alfreðsdóttur og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi er formaður Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Lilja er varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningarmálaráðherra og Willum Þór er formaður fjárlaganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. desember 2020.