Í upphafi ársins var slaki tekinn að myndast í efnahagskerfinu og blikur voru á lofti eftir samfellt langt hagvaxtarskeið á Íslandi. Fregnir af COVID-19 voru farnar að berast frá Kína, en fáir sáu fyrir hversu alvarlegar afleiðingarnar yrðu af hinni áður óþekktu veiru. Smám saman breyttist þó heimsmyndin og í byrjun mars raungerðist vandinn hérlendis, þegar fyrstu innanlandssmitin greindust. Höggið á efnahagskerfi heimsins var þungt og enn eru kerfin vönkuð.
Efnahagshorfur um allan heim munu hverfast um þróun faraldursins og hvernig tekst að halda samfélagslegri virkni, þar til bóluefni verður aðgengilegt öllum eða veiran veikist. Við þessar aðstæður reynir á grunnstoðir samfélaga; heilbrigðiskerfi, menntakerfi og efnahagsaðgerðir stjórnvalda. Hérlendis er eitt mikilvægasta verkefnið að ráðast í fjárfestingar, grípa þau tækifæri sem felast í krefjandi aðstæðum og leggja grunninn að hagsæld næstu áratuga.
Samfélagsleg virkni tryggð
Baráttan við veiruna hefur um margt gengið vel hérlendis. Heilbrigðiskerfið hefur staðist álagið, þar sem þrotlaus vinna heilbrigðisstarfsfólks og höfðinglegt framlag Íslenskrar erfðagreiningar hafa varðað leiðina. Menntakerfið hefur einnig staðist prófið og Ísland er eitt fárra landa sem hefur ekki lokað skólum. Þá hafa umfangsmiklar efnahagsaðgerðir skilað góðum árangri og lagt grunninn að næstu skrefum.
Skilvirk efnahagsstjórnun og framtíðarsýn er lykilinn að velsæld. Gert er ráð fyrir tæplega 6% samdrætti í landsframleiðslu á þessu ári, en viðsnúningur verði á því næsta með 4% hagvexti. Samdráttur upp á 9,3% á öðrum ársfjórðungi 2020 er sögulegur, en þó til marks um varnarsigur í samanburði við ríki á borð við Frakkland (-14%) og Bretland (-20%). Þótt óvissan um þróun faraldursins og þeirra atvinnugreina sem verst hafa orðið úti sé mikil, geta stjórnvöld ekki leyft sér að bíða heldur verða þau að grípa í taumana. Vinna hratt og skipulega, veita fjármunum í innviðaverkefni af ólíkum toga og skapa aðstæður fyrir fjölgun virðisaukandi starfa til skemmri og lengri tíma.
Ríkisstjórnir grípa boltann
Þróuð hagkerfi heimsins gripu flest til róttækra efnahagsaðgerða til að örva hagkerfi sín í upphafi heimsfaraldurs, með kennisetningar John M. Keynes að leiðarljósi. Sterkt samspil ríkisfjármála, peningastefnu og fjármálakerfis varð leiðarljós ríkisstjórna í samanburðarlöndunum, sem hafa tryggt launþegum atvinnuleysisbætur og fyrirtækjum stuðning, svo atvinnulífið komist fljótt af stað þegar heilsufarsógnin er afstaðin. Langtímavextir í stærstu iðnríkjum eru í sögulegu lágmarki og viðbúið að svo verði um nokkurt skeið, ekki síst í ljósi spár Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gerir ráð fyrir 5% samdrætti á heimsvísu í ár og efnahagsbatinn verði hægari en talið var í fyrstu. Í því felst aukin áskorun fyrir lítið og opið hagkerfi, eins og það íslenska, sem er um margt háð þróun á alþjóðamörkuðum og fólksflutningum milli landa. Á hinn bóginn verður áfram mikil eftirspurn eftir helstu útflutningsvörum Íslendinga, matvælum og grænni orku.
Opinberar fjárfestingar gegn samdrætti
Í ársbyrjun var staða ríkissjóðs Íslands sterkari en flestra ríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Hreinar skuldir ríkissjóðs voru aðeins um 20% af landsframleiðslu, sem endurspeglar styrka stjórn og niðurgreiðslu skulda undanfarin ár samhliða miklum hagvexti. Uppgjörsaðferðir og lög frá 2015 um stöðugleikaframlög frá slitabúum fallinna banka lögðu grunninn að þeirri stöðu, auk þess sem ferðaþjónustan skapaði mikið gjaldeyrisinnflæði. Stjórnvöld hafa því verið í kjörstöðu til að sníða fjárveitingar að þörfinni og munu laga framhaldsaðgerðir að raunveruleikanum sem blasir við. Opinberar fjárfestingar munu vega á móti samdrætti ársins og núna er tíminn til að hugsa til framtíðar. Fjárfesta í metnaðarfullum innviðaverkefnum, menntun, nýsköpun, rannsóknum og þróun. Við eigum að fjárfesta í vegum og brúm, uppbyggingu nýrra atvinnugreina og stuðningi við þær sem fyrir eru. Við eigum að efla innlenda matvælaframleiðslu, byggja langþráða þjóðarleikvanga fyrir íþróttir og fjárfesta í nýjum fyrsta flokks gagnatengingum Íslands við umheiminn. Við eigum að kynna Ísland betur fyrir erlendum langtímafjárfestum, fyrirtækjum og laða til landsins hæfileikafólk á öllum sviðum. Við eigum að setja okkur markmið um íbúaþróun og samfélagslegan árangur, sem bæði er mældur í hagvexti og almennri velferð fólks sem hér býr. Auka þarf samstarf hins opinbera og atvinnulífsins í fjárfestingum og höfða til þeirra sem sjá framtíð í skapandi greinum.
Vextir í sögulegu lágmarki 1%
Vaxtastig er í sögulegu lágmarki og hefur Seðlabanki Íslands ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að spyrna við slaka í hagkerfinu. Raunvextir Seðlabankans hafa lækkað samhliða lækkun nafnvaxta og eru nú -1,7%. Þessi skilyrði hafa leitt til þess að heimilin í landinu hafa endurfjármagnað óhagstæðari lán og um leið aukið ráðstöfunarfé sitt. Aðstæður hafa einnig leitt af sér, að ávöxtunarkrafa skuldabréfsins sem ríkissjóður Íslands gaf út á alþjóðamörkuðum í vor nam aðeins tæplega 0,7%. Þrátt fyrir sögulega lága vexti eru fjárfestingar atvinnulífsins litlar og stjórnvalda bíður það verkefni örva þær. Minnka óvissu og stuðla að efnahagslegum stöðugleika sem ýtir undir fjárfestingar atvinnulífisins, á meðan vaxtakjör eru hagstæði. Vextir á heimsvísu eru líka sögulega lágir og peningaprentvélar stærstu seðlabankanna hafa verið mjög virkar. Hérlendis höfum við tekið meðvitaðar ákvarðanir um að gera meira en minna, nýta slakann til fulls og fjárfesta til framtíðar svo samfélagið verði samkeppnishæft til lengri tíma.
Fjármálakerfið stór þáttur í viðspyrnu
Eigin- og lausafjárstaða íslenska fjármálakerfisins er býsna sterk og bankarnir því í góðri stöðu til að styðja við heimilin og fyrirtækin í landinu. Vitaskuld ríkir í augnablikinu ákveðin óvissa um raunvirði útlánasafna, en með sjálfbæru og framsæknu atvinnulífi skapast verðmæti fyrir þjóðarbúið sem eykur stöðuleika og getu lántakenda til að standa við skuldbindingar sínar. Með hagkvæmri fjármögnun atvinnulífsins geta fyrirtæki skapað störf og verðmæti fyrir allt samfélagið, sem er forsenda þess að ríkissjóður geti staðið undir samneyslunni. Með opinberum aðgerðum og stuðningi ríkisins við atvinnulífið – hlutabótaleiðinni, brúar- og stuðningslánum og fjárveitingum til ótal verkefna – er stutt við útlánavöxt til fyrirtækja, sem verða á bremsunni þar til óvissa minnkar. Það má því segja, að mikilvægasta verkefni stjórnvalda sé að draga úr óvissunni.
Sjálfbær viðskiptajöfnuður
Fyrir þjóðarbúið er fátt mikilvægara en sjálfbær greiðslujöfnuður. Það er því sértakt gleðiefni, að þrátt fyrir áföllin er búist við afgangi af viðskiptajöfnuði á árinu, sem nemur um 2% af landsframleiðslu. Meginástæðan er hagfelld þróun útflutningsgreinanna, að frátalinni ferðaþjónustunni. Þannig hefur álverð farið fram úr væntingum og horfur á mörkuðum fyrir sjávarafurðir eru betri en óttast var. Tekjufall ferðaþjónustunnar dregur sannarlega mikið úr heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins, en sökum þess að samdráttur á þjónustujöfnuði er bæði í inn- og útflutningi myndast minni halli en ætla mætti. Ferðaþjónustan mun taka við sér og skapa aftur mikil verðmæti, en framtíðarverkefni stjórnvalda er að fjölga stoðunum undir útflutningstekjum þjóðarinnar og tryggja að hagkerfið þoli betur áföll og tekjusamdrátt í einni grein.
Samvinna er leiðin
Að fenginni reynslu um allan heim er ljóst, að stjórnvöld fá það verkefni að tryggja velferð, hagsæld og atvinnustig þegar stór áföll ríða yfir. Kostir hins frjálsa markaðskerfis eru margir, en þörfin á virku samspili ríkis og einkaframtaksins er bæði augljós og skynsamleg. Hérlendis hefur þjóðin öll lagst á eitt við að tryggja sem mesta samfélagsvirkni í heimsfaraldrinum og ríkið hefur fumlaust stigið inn í krefjandi aðstæður. Því ætlum við að halda áfram og kveða niður atvinnuleysisdrauginn, með nýjum störfum, sjálfbærum verkefnum og stuðningi við fyrirtæki, þar sem það á við. Atvinnuleysið er helsti óvinur samfélagsins og það er siðferðisleg skylda okkar að auka verðmætasköpun sem leiðir til fjölgunar starfa. Við viljum að allir fái tækifæri til að láta reyna á hæfileika sína, hrinda hugmyndum í framkvæmd og skapa sér hamingjusamt líf. Með samhug og viljann að vopni mun það takast.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. september 2020.