Land er takmörkuð auðlind og óumdeilt að meðferð og notkun lands skiptir íbúa jarðarinnar miklu máli til langrar framtíðar. Það þarf því engan að undra að á síðustu árum hefur ásókn í jarðir aukist og einstaklingar sem ráða yfir miklu fjármagni sjá tækifæri í að fjárfesta í jarðnæði hér á landi.
Skorður settar á landakaup
Til að bregðast við var ráðist í breytingar á jarðalögum sem samþykktar voru sumarið 2020. Gerð var mikilvæg breyting á markmiðskafla laganna að því leyti að markmið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýtingu lands, í samræmi við landkosti, með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi.
Í lögunum voru einnig settar skorður á jarðakaup þannig að fasteignakaupandi getur ekki eignast land ef hann eða tengdir aðilar eiga fyrir land sem er samanlagt 10 þúsund hektarar að stærð nema með sérstakri undanþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eignast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upplýsa Skattinn um raunverulega eigendur félags og þá stjórnarmenn sem í því sitja.
Með þessum þörfu breytingunum er reynt að sporna við að of margar jarðir safnist á fárra hendur en Ísland er ekki eina landið sem hefur stigið þessi skref. Í mörgum Evrópuríkjum hefur verið lögð vaxandi áhersla á varðveislu landbúnaðarlands og ræktarlands til nota fyrir matvælaframleiðslu og til að tryggja fæðuöryggi.
Betur má ef duga skal
Samkvæmt núgildandi lagaumhverfi þá geta rúmlega 500 milljónir manna keypt land og aðrar fasteignir hér á landi með sömu skilyrðum og Íslendingar. Illu heilli hefur borið á því, undanfarin ár, að jarðir hafi verið keyptar upp án þess að eigendur setjist þar að eða nýti landið og eignir sem þar eru. Það er því nauðsynlegt að skoða alvarlega hvort setja eigi frekari skilyrði fyrir kaupum erlendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lögheimili. Aðrar þjóðir geta verið okkur til fyrirmyndar í þeim efnum.
Einnig er brýnt að yfirfara skörun jarðalaga og annarra laga sem varða landbúnað og landnýtingu, eins og laga um náttúruvernd, landgræðslu og skógrækt. Einföldun á regluverki getur til að mynda skapað fjölbreyttari tækifæri til nýsköpunar í strjálbýli og aukið verðmætasköpun í sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Almennt þekkja bændur sitt land best, hvað er verðmætasta ræktarlandið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarrar landnýtingar. Umráðamenn bújarða eiga að hafa tækifæri til að nýta jarðir til verðmætasköpunar á uppbyggilegan og sjálfbæran hátt.
Nýtum landið
Lagaumgjörð um jarðir og auðlindir á landi er grundvallar mál sem þarf að vera sífellt á dagskrá. Framsóknarflokkurinn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mikil ásókn er í auðlindir okkar og mikilvægt að við seljum þær ekki frá okkur. Við viljum tryggja að komandi kynslóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálfbærrar nýtingar og verðmætasköpunar.
Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.
Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.