Categories
Greinar

Hverjir erfa Ísland?

Deila grein

06/09/2021

Hverjir erfa Ísland?

Land er tak­mörkuð auðlind og óum­deilt að meðferð og notk­un lands skipt­ir íbúa jarðar­inn­ar miklu máli til langr­ar framtíðar. Það þarf því eng­an að undra að á síðustu árum hef­ur ásókn í jarðir auk­ist og ein­stak­ling­ar sem ráða yfir miklu fjár­magni sjá tæki­færi í að fjár­festa í jarðnæði hér á landi.

Skorður sett­ar á landa­kaup

Til að bregðast við var ráðist í breyt­ing­ar á jarðalög­um sem samþykkt­ar voru sum­arið 2020. Gerð var mik­il­væg breyt­ing á mark­miðskafla lag­anna að því leyti að mark­mið þeirra er nú fyrst og fremst að stuðla að nýt­ingu lands, í sam­ræmi við land­kosti, með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi.

Í lög­un­um voru einnig sett­ar skorður á jarðakaup þannig að fast­eigna­kaup­andi get­ur ekki eign­ast land ef hann eða tengd­ir aðilar eiga fyr­ir land sem er sam­an­lagt 10 þúsund hekt­ar­ar að stærð nema með sér­stakri und­anþágu frá ráðherra. Einnig þurfa lögaðilar sem eign­ast jörð eða jarðir hér á landi, nú að upp­lýsa Skatt­inn um raun­veru­lega eig­end­ur fé­lags og þá stjórn­ar­menn sem í því sitja.

Með þess­um þörfu breyt­ing­un­um er reynt að sporna við að of marg­ar jarðir safn­ist á fárra hend­ur en Ísland er ekki eina landið sem hef­ur stigið þessi skref. Í mörg­um Evr­ópu­ríkj­um hef­ur verið lögð vax­andi áhersla á varðveislu land­búnaðar­lands og rækt­ar­lands til nota fyr­ir mat­væla­fram­leiðslu og til að tryggja fæðuör­yggi.

Bet­ur má ef duga skal

Sam­kvæmt nú­gild­andi lagaum­hverfi þá geta rúm­lega 500 millj­ón­ir manna keypt land og aðrar fast­eign­ir hér á landi með sömu skil­yrðum og Íslend­ing­ar. Illu heilli hef­ur borið á því, und­an­far­in ár, að jarðir hafi verið keypt­ar upp án þess að eig­end­ur setj­ist þar að eða nýti landið og eign­ir sem þar eru. Það er því nauðsyn­legt að skoða al­var­lega hvort setja eigi frek­ari skil­yrði fyr­ir kaup­um er­lendra aðila á jörðum hér á landi, s.s. að þeir eigi hér lög­heim­ili. Aðrar þjóðir geta verið okk­ur til fyr­ir­mynd­ar í þeim efn­um.

Einnig er brýnt að yf­ir­fara skör­un jarðalaga og annarra laga sem varða land­búnað og land­nýt­ingu, eins og laga um nátt­úru­vernd, land­græðslu og skóg­rækt. Ein­föld­un á reglu­verki get­ur til að mynda skapað fjöl­breytt­ari tæki­færi til ný­sköp­un­ar í strjál­býli og aukið verðmæta­sköp­un í sveit­ar­fé­lög­um hring­inn í kring­um landið. Al­mennt þekkja bænd­ur sitt land best, hvað er verðmæt­asta rækt­ar­landið, hvað væri ástæða til að vernda af öðrum ástæðum og hvað gæti hentað til annarr­ar land­nýt­ing­ar. Umráðamenn búj­arða eiga að hafa tæki­færi til að nýta jarðir til verðmæta­sköp­un­ar á upp­byggi­leg­an og sjálf­bær­an hátt.

Nýt­um landið

Lagaum­gjörð um jarðir og auðlind­ir á landi er grund­vall­ar mál sem þarf að vera sí­fellt á dag­skrá. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn vill vera leiðandi í þeirri umræðu. Mik­il ásókn er í auðlind­ir okk­ar og mik­il­vægt að við selj­um þær ekki frá okk­ur. Við vilj­um tryggja að kom­andi kyn­slóðir muni erfa land sem er vel búið til sjálf­bærr­ar nýt­ing­ar og verðmæta­sköp­un­ar.

Ingibjörg Isaksen, skipar 1. sæti B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, skipar 2. sæti á B-lista Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. ágúst 2021.