Í sumarfríinu getur verið freistandi að slaka á í sófanum með hlýtt ullarteppi og þá er gott að geta valið sér íslenskt efni til áhorfs. Til dæmis hafa nýir og spennandi þættir um Kötlu átt hug minn allan þessa dagana. Slíkt efni verður þó ekki til af sjálfu sér.
Hlúa þarf að kvikmyndagerð líkt og mörgu öðru. Ef greininni er veitt athygli og pláss hefur hún möguleika að vaxa og dafna okkur öllum til heilla. Mikilvægt er að sveigjanlegt og kraftmikið stuðningskerfi sé til staðar sem ýtir undir jákvæða þróun í kvikmyndagerð. Síðastliðið haust markaði tímamót í sögu kvikmyndagerðar á Íslandi þegar Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, lagði fram fyrstu heildstæðu stefnu íslenskra stjórnvalda á sviði kvikmynda. Markmiðið með stefnunni er að skapa auðuga kvikmyndamenningu sem styrkir sjálfsmynd þjóðarinnar, eflir íslenska tungu, býður upp á fjölbreyttari og metnaðarfyllri kvikmyndamenntun, styrkir samkeppnisstöðu greinarinnar og stuðlar að því að Ísland verði þekkt alþjóðlegt vörumerki á sviði kvikmyndagerðar. Með kvikmyndastefnu hafa íslensk stjórnvöld viðurkennt vaxandi hlutverk menningar, lista og skapandi greina á Íslandi.
Framsókn hefur lengi talað fyrir mikilvægi þess að styðja eigi við kvikmyndagerð í landinu ásamt því að hækka endurgreiðslur af framleiðslukostnaði í 35% líkt og gert er í löndum sem keppa við Ísland um verkefni. Kvikmyndagerð hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem listgrein og atvinnugrein. Kraftmikil kvikmyndamenning eflir sjálfsmynd þjóðarinnar. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir eru listgrein sem speglar samtímann og gerir sögu og menningararfi skil. Ýmiss konar efni er framleitt sem bæði er afþreying fyrir nútímann ásamt því að segja mikilvæga sögu til framtíðar. Mikilvægi kvikmyndagerðar fyrir íslenska tungu er ómetanlegt, en kvikmyndagerð skipar stóran sess í því að efla og varðveita íslenska tungu.
Ferðavenjukönnun hefur sýnt að tæplega 40% þeirra ferðamanna sem hingað koma tóku ákvörðun um að ferðast til Íslands eftir að hafa séð landið í sjónvarpi eða á hvíta tjaldinu. Heildarvelta ferðaþjónustunnar af slíkum ferðamönnum hleypur á mörgum milljörðum. Íslensk kvikmyndagerð skapar á fjórða þúsund beinna og afleiddra starfa og laðar að erlenda fjárfestingu. Í því felast gríðarleg verðmæti fyrir ríkissjóð. Við í Framsókn höfum talað fyrir mikilvægi þess að skapa fjölbreytt atvinnutækifæri. Kvikmyndagerð er skapandi atvinnugrein sem fellur vel að þeim hugmyndum, en mikilvægt er að hún fái viðeigandi stuðning. Fjórða iðnbyltingin kallar eftir hugviti, hátækni, sköpun og sjálfbærum lausnum og kvikmyndagerð er allt þetta.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmaður Framsóknar og situr í 2. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. júlí 2021.