Categories
Greinar

Ís­lensk orka beislar verð­bólgu

Deila grein

06/09/2022

Ís­lensk orka beislar verð­bólgu

Flest hagkerfi heims eru að kljást við of háa verðbólgu um þessar mundir. Meginorsakir hennar má rekja til nauðsynlegra efnahagsaðgerða vegna Covid-19, innrásar Rússlands í Úkraínu og að einhverju leyti hinnar alþjóðlegu peningastefnu frá 2008. Orkuverð í Evrópu er í hæstu hæðum og hafa ýmis ríki í álfunni gripið til neyðaraðgerða til að létta undir með orkukerfum. Spár hérlendis gera áfram ráð fyrir hárri verðbólgu, þrátt fyrir að hún hafi minnkað örlítið í síðasta mánuði er hún mældist 9,7%. Mikil hækkun á húsnæðisverði hefur drifið verðbólguna áfram ásamt einkaneyslu. Langtímaafleiðingar hárrar verðbólgu eru afar slæmar fyrir samfélög og það er gamall sannleikur að verðbólga hittir einkum fyrir þá sem minnst hafa. Ljóst er að hópurinn sem fer verst út úr þessum verðbólguhremmingum eru heimilin sem nýverið hafa komið inn á húsnæðismarkaðinn og sjá lánin hækka. Afar brýnt er að lánveitendur og stjórnvöld sinni þessum hóp.

Staða heimsmála er jafnframt viðkvæm vegna hárrar alþjóðlegrar verðbólgu. Hækkandi verð á hveiti og öðru korni átti sinn þátt í falli kommúnismans í Sovétríkjunum 1989. Hagfræðingurinn Marc Bellemare við Minnesota-háskóla sýndi fram á sterk tengsl á milli matvælaverðs og ófriðar í mörgum löndum á árunum 1990 til 2011. Verðbólga olli t.a.m. stjórnarskiptum í Brasilíu, Tyrklandi og Rússlandi í lok 10. áratugarins.

Staða Íslands er að mörgu leyti góð til að fást við verðbólguógnina, þar sem auðlindir okkar eru miklar. Orka í þágu heimilanna er ódýr en hún lýtur ekki sömu reglum verðlagningar og á meginlandi Evrópu, fiskimið okkar eru gjöful og óendanlegir möguleikar eru í landbúnaði ásamt sterkri ferðaþjónustu og vaxandi hugvitsdrifnu hagkerfi. Íslenska hagkerfið hefur alla möguleika á að ná verðbólgunni niður. Það er kappsmál enda ógnar hækkandi verðbólga velsæld með beinum og óbeinum hætti og dregur úr samfélagslegri samstöðu. Því er afar mikilvægt að greina hvernig áhrif verðbólgunnar koma við mismunandi hópa samfélagsins og grípa til viðeigandi aðgerða.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta-, og ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 6. sept. 2022.