Categories
Greinar

VESTFIRÐIR SÓTTIR HEIM

Deila grein

06/09/2022

VESTFIRÐIR SÓTTIR HEIM

Það var stórfenglegt og hrikalegt í senn að stíga á útsýnispallinn á Bolafjalli á dögunum – glæsilegt mannvirki sem var byggt til að efla og styrkja samfélagið. Útsýnið þaðan lætur engan ósnortinn og verður aðdráttarafl jafnt fyrir heimabyggð og ferðafólk. Í samtölum mínum við sveitarstjórnarfólk í heimsókn ríkisstjórnarinnar vestur var ánægjulegt að finna fyrir gríðarlegum krafti og bjartsýni um framtíð Vestfjarða. Með góðri samvinnu íbúa, sveitarfélaga og stjórnvalda er hægt að stuðla að framförum. Útsýnispallurinn er gott dæmi um það hvernig frábær hugmynd getur orðið að veruleika með slíkri samvinnu. Þar hefur hugmyndaflug, þekking og verkvit verið nýtt til að skapa tækifæri til að upplifa vestfirskt landslag og náttúru á einstakan hátt.

Ný hringtenging

Á síðustu árum hefur viðhald og uppbygging vega verið tekið föstum tökum. Fjárframlög hafa stóraukist og frekari úrbætur fyrirhugaðar á næstu árum. Það voru mikil og langþráð tímamót þegar Dýrafjarðargöng voru opnuð fyrir rétt tæpum tveimur árum síðan. Göngin voru ein umfangsmesta framkvæmd í vegakerfinu og leystu erfiðan farartálma af hólmi, Hrafnseyrarheiði. Ný hringtenging varð til og aðgengi að landshlutanum opnaðist með fjölbreyttum tækifærum. Nýr vegur um Gufudalssveit og annar yfir Dynjandisheiði er í uppbyggingu og með tilkomu þeirra og Dýrafjarðarganga munu samgöngur á svæðinu gjörbreytast. Það er ánægjulegt að fleira fólk ferðist til Vestfjarða og nýtir sér fjölbreytta afþreyingu sem þetta fallega og stórbrotna svæði hefur upp á að bjóða. Vogskornir firðir, fallegar og stundum hrikalegar heiðar hafa haft áhrif á samgöngur en eru nú í aukum mæli orðin aðdráttarafl sem Vestfirðingar nýta sér á skynsaman hátt.

Nýtt skip

Mikilvægur hlekkur í hringtengingunni með bættum vegasamgöngum á milli sunnan- og norðanverða Vestfjarða, eru ferjusiglingar yfir Breiðafjörðinn. Vonir standa til þess að Vegagerðin fái nýtt skip til landsins um áramótin í stað Baldurs. Tímabært er að nýtt skip taki við þjónustunni þar sem núverandi skip er barn síns tíma. Á meðan beðið er eftir nýju skipi verður tryggt að dráttarbátur verði til staðar á Breiðafirði. Laxeldið hefur einnig notið góðs af bættum samgöngum og reglubundnum siglingum um Breiðafjörð og munu flutningar halda áfram að aukast sem reyna á vegakerfið. Samfélagið á mikið undir að vel takist til við áframhaldandi þróun atvinnugreinarinnar en henni fylgja auknir möguleikar til fjölbreyttari og verðmætari starfa.

Búsetufrelsi

Samhliða þessu þarf framboð af húsnæði að haldast í hendur við fyrirsjáanlega þörf. Stjórnvöld veita stofnframlög til íbúða á viðráðanlegu um allt land. Um 80 slíkar íbúðir eru á Vestfjörðum, ýmist tilbúnar, í undirbúningi og fleiri í farvatninu. Fólk vill geta haft frelsi um búsetu, valið sér heimili þar sem það helst kýs. Þannig heldur svæðið áfram að eflast og styrkjast með bættri þjónustu, en grunnþjónusta hins opinbera þarf að vera aðgengileg öllum. Gott dæmi um það er Loftbrúin en síðan hún var kynnt til sögunnar hafa fleiri og fleiri nýtt sér þjónustuna. 13 þúsund flugleggir hafa verið styrktir á Vestfjörðum, þ.e. flug um Bíldudal eða Ísafjörð, þar af rúmlega fimm þúsund leggir fyrstu sjö mánuði ársins 2022.

Við búum í stórbrotnu en strjálbýlu landi með stórbrotinni strandlengju og misblíðri veðráttu. Það verða áfram fjallvegir og válynd veður koma af og til, því stjórnum við ekki. En með markvissum áætlunum um bætta innviði geta stjórnvöld lyft grettistaki. Það er síðan heimafólks að nýta þau tækifæri, búa til aðdráttarafl og sjálfbært samfélag.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst á bb.is 5. sept. 2022.