Stuttu eftir að ég tók til starfa sem mennta- og menningarmálaráðherra blossaði #églíka-byltingin upp, betur þekkt sem #metoo. Kynferðisleg áreitni og ofbeldi er samfélagsmein, og hugrakkir hópar einstaklinga stigu fram, sögðu sögur sínar og vöktu okkur öll til umhugsunar. Konur í íþróttahreyfingunni létu einnig hávært í sér heyra, og ég boðaði fulltrúa þeirra strax á fund til að ræða mögulegar aðgerðir til úrbóta.
Í kjölfarið skipaði ég starfshóp sem vann bæði hratt og örugglega til að tryggja að raunverulegur árangur næðist. Öryggi iðkenda og annarra þátttakenda var sett í öndvegi við alla vinnu hópsins sem taldi mikilvægt að tillögurnar næðu einnig til æskulýðsstarfs utan skóla. Hópurinn skilaði afar greinargóðu yfirliti og gagnlegum tillögum sem við unnum áfram, og út frá þeim tillögum lagði ég síðan fram ný lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Markmiðið var að bjóða upp á öruggt umhverfi þar sem börn, unglingar og fullorðnir, óháð kyni eða stöðu að öðru leyti, geta stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna kynferðislegrar áreitni og ofbeldis sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.
Samskiptaráðgjafinn tók til starfa í fyrra og þar er öllum ábendingum um einelti, áreitni og ofbeldi tekið alvarlega og þær kannaðar, öll mál eru unnin eftir ákveðnu verklagi með trúnað og skilning að leiðarljósi. Auk þess getur samskiptaráðgjafi veitt félögum og samtökum leiðbeiningar varðandi slík mál og gerir tillögur til úrbóta þegar við á. Á fyrsta starfsárinu fékk samskiptaráðgjafinn 24 mál á sitt borð, þar af átta tengd kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Mikilvægi ráðgjafans er því byrjað að sanna sig.
Íþróttahreyfingin er mikilvægt afl í íslensku samfélagi. Þar fer fram öflugt starf á hverjum degi, sem styrkir og mótar einstaklinga á öllum aldri. Forvarnargildi íþrótta- og æskulýðsstarfs er ótvírætt. Því er brýnt að til staðar séu skýrir ferlar, virk upplýsingagjöf og hlutleysi í málum af þessum toga, sem oft eru viðkvæm og flókin. Þessi lög voru tímamótaskref, sem sendu skýr skilaboð um að áreitni og ofbeldi sé ekki liðið í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Það hefur jafnframt glatt mig í þessu ferli hve vel forysta ÍSÍ og UMFÍ hefur unnið með okkur, og það eru allir á sömu blaðsíðunni; að uppræta þessa meinsemd og bæta umhverfi íþrótta- og æskulýðsstarfs á Íslandi.
Enn í dag er ég gríðarlega þakklát þeim þolendum sem stigið hafa fram. Þeirra hugrekki hefur skilað varanlegum breytingum sem ég er sannfærð um að muni styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf um land allt.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. september 2021.