Categories
Greinar

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Deila grein

02/09/2021

Spurninga­leikur, 18 stig í boði

Ýmsir flokkar, sem ég myndi leyfa mér að kalla eins máls- eða eins manns flokka, hafa oftar en ekki haft uppi stór orð varðandi störf ríkisstjórnarinnar á þessu kjörtímabili. Ýmist kallað hana kyrrstöðustjórn, stjórn þriggja Framsóknarflokka (sem ég reyndar kann nokkuð vel við) eða stólastjórnina. Orðræðan hefur verið á þann veg að myndun þessarar ríkisstjórnar hafi ekki snúist um annað en völd og stóla og samstöðu um engar breytingar. Í þessu sambandi leyfi ég mér sérstaklega að nefna Evrópusambandsflokkinn, Viðreisn og flokk Sigmundar Davíðs, Miðflokkinn.

Leikurinn

Að þessu sögðu, þá ákvað ég að setjast niður og rýna nokkuð gaumgæfulega í afrekaskrá stjórnvalda á þessu kjörtímabili og útbúa lítinn spurningaleik fyrir alla; sem þó er ekki tæmandi fyrir þann árangur sem náðst hefur. Nú mæli ég með því að þú, ágæti lesandi, sækir blað og penna og merkir X fyrir framan þann bókstaf sem þú telur geyma rétta svarið. Líkt og í knattspyrnunni eru 3 stig í boði fyrir hvert rétt svar, í heildina heil 18 stig. Gangi þér vel.

Spurning #1

Fæðingarorlof í heilt ár. Hvaða flokkur lengdi fæðingarorlofið í 12 mánuði og hækkaði greiðsluhámark úr 370 þúsund krónum í 600 þúsund krónur?

__A Viðreisn 

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #2

Auðveldari fyrstu íbúðakaup. Hvaða flokkur innleiddi sérstök hlutdeildarlán (einungis 5% útborgun), sem nýja leið fyrir ungt fólk og tekjuminni, til að eignast þak yfir höfuðið?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #3

Nýr menntasjóður. Hvaða flokkur setti á fót nýjan menntasjóð sem er með hærri framfærslu, möguleika á 30 % niðurfellingu höfuðstóls, val um óverðtryggð lán og beinan fjárstuðning við foreldra í námi?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #4

Loftbrúin brúar bilið. Hvaða flokkur innleiddi sérstaka Loftbrú (40% afsláttur af flugfargjaldi þrisvar sinnum á ári); aðgerð til að brúa bilið milli þeirra sem búa fjærst höfuðborgarsvæðinu og þeirra sem búa næst þjónustunni sem þar er að finna?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #5

Bylting í málefnum barna. Hvaða flokki tókst að skapa breiða sátt um byltingu í málefnum barna, sem síðar skilaði sér í tímamótalöggjöf vorið 2021 sem tryggir að barnið sé hjartað í kerfinu?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Spurning #6

Samgöngusáttmálinn. Hvaða flokki tókst að rjúfa áratuga kyrrstöðu í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu með samkomulagi ríkisins og sex sveitarfélaga sem þar eru?

__A Viðreisn

__B Framsókn

__C Miðflokkur

Höldum áfram að fjárfesta í fólki

Leikinn væri hægt að lengja umtalsvert en látum þetta duga í bili enda einungis til gamans gert. Hér má sjá, svo ekki verði um villst, að áherslur Framsóknar á kjörtímabilinu og í ólgusjó Covid, hafa verið að fjárfesta í fólki og innviðum í íslensku samfélagi. Engin kyrrstaða, bara framfarir. Ég vona að þér hafi gengið vel í leiknum og sért með fullt hús stiga. Rétt svar var X fyrir framan B í öllum tilfellum. Ég vil meina að það sé líka hið eina rétta svar á kjördag, þann 25. september næstkomandi. Nú sem fyrr er mikilvægt að halda áfram á veg samvinnu og skynsamlegra lausna. Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Ágúst Bjarni Garðsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og skipar 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2021.